Prenthaus

Aðalsteinn bjó til nákvæma eftirlíkingu af sjálfum sér í fullri stærðAðalsteinn ásamt eftirlíkingunni af sér. Afsteypan er alveg eins og Aðalsteinn, hvert einasta smáatriði frá toppi til táar.

Aðalsteinn bjó til nákvæma eftirlíkingu af sjálfum sér í fullri stærð

Aðalsteinn Þórsson er Akureyringur og listamaður sem henti í framkvæmd afar einstöku verkefni á dögunum. Aðalsteinn hefur sett upp listasýningar bæði hérlendis og erlendis og tekið þátt í ýmsum verkefnum en ekkert í líkingu við þetta nýjasta verkefni. Aðalsteinn lét nefnilega taka mót og afsteypu af öllum líkamanum sínum og gerði þannig nákvæma afsteypu af sjálfum sér. Enn sem komið er hefur hann ekki sett afsteypuna opinberlega á sýningu en var þó með hana til sýnis í sumar á einkasafni sínu á Kristnesi.

Eins og taka afrit af sjálfum sér
Aðalsteinn réði fyrirtækið Mótefni í verkið, sem rekið er af þeim Dóru Hartmannsdóttur og Snæbirni Bragasyni, og sérhæfir sig í mótagerð og afsteypum. Aðalsteinn vildi fá afsteypuna af sér sitjandi og því tók mótagerðin mun lengri tíma en hún hefði gert standandi. Snæbjörn Bergmann Bragason, einn eigenda Mótefnis, segir fyrirtækið aldrei hafa tekið að sér jafn stórt verkefni og þetta. ,,Við höfum mestmegnis verið í því að taka mót af höndum hjá fólki. Þannig fær það nákvæma afsteypu af hendinni sinni með öllum smáatriðum, fingraförum, tattú og öllu. Þetta er í rauninni eins og að taka afrit af sjálfum sér, svona copy/paste nema bara í alvörunni,” segir Snæbjörn.

Tók allt að 22 klukkustundum að taka mótið
Verkið var mjög tímafrekt og var gert í nokkrum áföngum, aðeins nokkrar klukkustundir á dag. Til þess að auðvelt væri að flytja afsteypuna og vinna með hana var tekið einn líkamspart í einu. Fyrst voru teknir fætur og fótleggir sem tók u.þ.b. þrjár klukkustundir. Næst var efrihlutinn tekinn (brjóstkassi og bak) en það tók í kringum 5 klst. Handleggir og háls tóku í kringum 5 klst. einnig. Neðri hluti tók svipaðan tíma en höfuðið tók í kringum þrjár klukkustundir. Allur þessi tími fór í mótið en þá voru jafn margar klukkustundir eftir í að búa til afsteypuna sjálfa af Aðalsteini.

Blindur, heyrnalaus og með takmarkaða öndun tímabundið
Það fer ekki á milli mála að erfiðast af þessu öllu saman var að taka mót af höfðinu. Mótið tók í kringum þrjár klukkustundir og afsteypan sjálf annað eins. Til þess að ná öllum smáatriðum í mótið þarf efnið að vera á höfðinu í 40 mínútur án þess að nokkur hreyfing eigi sér stað undir því. Þess vegna þurfti Aðalsteinn að vera alveg kjurr í 40 mínútur meðan efnið virkaði. Það þýddi að efnið náði yfir bæði eyru, augu og munn og því gat hann eingöngu andað í gegnum nefið meðan hann hvorki sá neitt né heyrði. Eyrnatappar voru settir í eyrun og Aðalsteinn með lokuð augun þegar mótinu var pennslað á.
,,Efnið sem við notum heitir body double og er notað í líkamsmótun þannig það losnar auðveldlega frá húð og líkamshárum þannig að þetta er fullkomlega meinlaust. Að blokka sjón og heyrn samt er ekkert grín. Fólk getur fengið verulega innilokunarkennd og ég get ekki ímyndað mér að þetta sé mjög þægilegt. Þess vegna vorum við tilbúin með allskonar merki svo hann gæti sagt okkur frá því ef honum liði illa, en það kom ekki til þess,“ segir Snæbjörn.

Mótefni birti myndskeið á dögunum þar sem sýnt er hluta af ferlinu. Á myndskeiðinu sést aðeins þegar tekið er mót af höfðinu.
Einnig eru hér að ofan myndir af útkomunni í heild sinni ásamt Aðalsteini með verkinu. Smelltu á myndirnar til að sjá þær stærri.

UMMÆLI

Sambíó