Prenthaus

Af aumingja og öðru fólki

Inga Dagný Eydal skrifar:

Undarlegt er það hversu ég, hjúkrunarfræðingurinn, get verið dómhörð á sjúkleika. Reyndar mest á minn eigin sjúkleika en það skal líka til bókar fært að samskonar sjúkleiki annarra hlýtur að hafa vakið mér svipuð viðbrögð, bara aldrei sýnd eða hugsuð í orðum. Heilbrigðisstéttir eru jú þjálfaðar í fordómaleysi eða eiga að vera það. Fallegast og best er þegar fordómaleysið sprettur úr hjartanu af sannri samhyggð en það gerði það ekki alltaf hjá mér því miður. Núna svíður það sárt ef ég upplifi að aðrir, sérstaklega heilbrigðisstarfsmenn, sýna skilningsskort eða dómhörku mínum veikindum en enginn er þó dómharðari en ég sjálf. Skrýtið já,- en manneskjur eru jú furðulegt fyrirbæri.

Okkur er kennt í uppeldinu að vera ekki vond við annað fólk en kannski gleymist að kenna okkur að vera góð við okkur sjálf.

pexels-photo-730067.jpeg

Ég þjáist af sjúkleika sem sést ekki utan á mér og mælist ekki í hefðbundnum læknisfræðilegum rannsóknum, hann er skilgreindur á ýmsa vegu og ekki allir sammála um nafn á honum. Ég nota orðið „þjáist” því vissulega veldur þessi sjúkleiki mér þjáningum, hann hefur snúið lífi mínu gjörsamlega á hvolf og kom algjörlega óbðinn og mér að óvörum. Ég hef notað orðið „aumingjaskapur” til innanhúss brúks en nú orðið þarf ég að passa að minn betri helmingur heyri mig ekki nota það. Hann hefur nefnilega til að bera samhyggð og skilning frá hjartanu og honum líkar ekki vel þegar ég lem á sjálfri mér.

Hann sýnir því endanlausa þolinmæði að konan hans þurfi nánast að leggjast í rúmið eftir hverskonar álag, breytingar, ferðalög eða jafnvel bara mannamót. Hann hefur einlæga samúð með óútskýrðum verkjum sem halda fyrir mér (og honum) vöku, eða því að ég kann ekki enn að lesa minn eiginn nýtilkomna orkubúskap, Orkubúskap sem felst í því að orkan klárast löngu áður en mér finnst vera nokkur ástæða til þess eða er einfaldlega ekki til staðar.

Sjálf er ég vonsvikin, reið og finnst ég hafa brugðist sjálfri mér og öðrum. Ég er ekki dugleg, ekki skemmtileg, ekki hress, er félagsskítur og tek ekki þátt. Ég er búin að reyna ýmislegt en ég einfaldlega verð of þreytt og sá sem er kominn í rúmið klukkan níu á kvöldin er jú ekki vel fallinn til þess að taka þátt í áhugamálum hinna vinnandi og duglegu.

Sem betur fer veit ég að ég er ekki ein. Ég hef heyrt fólk segja að það óskaði sér að það væri fótbrotið þannig að að það gæti haft betri samvisku yfir því að vera ekki í vinnu. Ég hef hlustað á frásagnir fólks með vefjagigt, örmögnun, síþreytu, jafnvel sjálfsónæmissjúkdóma….alla þessa sjúkdóma þar sem taugakerfið og ónæmiskerfið er ekki lengur að virka eins og gert var ráð fyrir. Nær allar þessar frásagnir lýsa því hversu erfitt það er að vera langveikur af sjúkleika sem ekki er sjáanlegur og illa mælanlegur og greiningin byggist fyrst og fremst á upplifun þess sem er veikur. Læknar reyna flestir að finna slíkum veikindum stað innan flokkunarkerfisins sem þeir þekkja þannig að greining geti átt sér stað. Jafnvel þótt greiningin sé röng þá er hún nauðsynlegt til að kerfið gangi upp og við erum jú vön og þjálfuð til þess að hugsa í greiningum og flokkun á sjúkleikum.

Reyndar eru þeir til innan heilbrigðiskerfisins sem telja það miklu mun áhrifaríkara að hugsa í heilbrigði og styrkleikum, og velta fyrir sér hvað það er sem er heilt í hverjum og einum en það er nú lengra mál og efni í önnur skrif.

Í bili- þá vona ég að mín eigin veikindi muni kenna mér fordómaleysi og mildi frá hjartanu, gagnvart sjálfri mér og öðrum í sömu stöðu.

Ég vona að einn góðan veðurdag muni læknavísindin skilja slík veikindi betur og þangað til sýna þeim skilning og umhyggju.

Ég vona að ég gleymi ekki mannkostunum mínum og styrkleikum.

Ég vona að ég geti smám saman gert meira en ganga með hundinn minn og skrifa pistla en njóta þess á meðan það varir- það eru ekki allir sem geta það!

Ég vona að ég beri gæfu til að þakka góðu dagana og sýna þeim slæmu skilning.

Ég vona að ég geti haldið áfram að vona því þá eru dagarnir bjartari!

pexels-photo-274778.jpeg

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

Pistillinn birtist upphaflega á  raedaogrit.wordpress.com

UMMÆLI