Áskorun til bæjarfulltrúa Akureyrarbæjar

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar:

Fulltrúar í bæjarstjórn auglýsa eftir bæjarstjóra. Sextán manns hafa sýnst starfinu áhuga og hafa ábyggilega allir eitthvað til brunns að bera. Sumir reyndir á þessu sviði, aðrir ekki. Mikil umræða hefur verið um kaup og kjör sveitar-og bæjarstjóra á landinu. Allir eru sammála um að þau séu alltof há, alltof há. Launin eru í engum takt við það sem gerist á launamarkaði sveitarfélaganna, það vitum við grunnskólakennarar. Bæjarfulltrúar geta stemmt stigum við ofurlaunum bæjarstjóra hér í bæ. Fram að þessu virðist ekkert sveitarfélag hafa tekið á þeim málum, þeim til skammar.

Ég skora á bæjarfulltrúa Akureyrarbæjar að skoða málið af alvöru. Grunnskólakennari með 30 ára reynslu nær ekki 600 þúsund krónum í laun á mánuði með samþykki bæjarfulltrúa á Akureyri. Þegar bæjarstjóri verður ráðinn til starfa væri ekki úr vegi að skoða launin í samhengi við laun grunnskólakennara. Laun upp á milljón krónur væri ekki óraunhæft fyrir bæjarstjóra sem stýrir litlu sveitarfélagi eins og Akureyri. Meira að segja vel í lagt. Það eru ríflega ein og hálf laun grunnskólakennara. Hefur bæjarstjóri við eitthvað meira að gera? Alls ekki að mínu mati, það geta allir lifað góðu lífi af milljón króna mánaðarlaunum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá ber bæjarstjóri ekki meiri ábyrgð en grunnskólakennari. Bæjarfulltrúar bera ábyrgð á ákvarðanatöku, bæjarstjórans að framkvæma þær. Oftast ber svo enginn ábyrgð.

Skora hér með á forsvarsmenn bæjarins til að sýna ábyrgð í ákvarðanatöku sinni um laun til handa bæjarstjóra. Höldum launagreiðslunnni innan skynsamlegra marka. Ríðum á vaðið, sönnum og sýnum að við á Akureyri tökum ekki þátt í ofurgreiðslum bæjarstjóra, sem er óþörf.

Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari.

UMMÆLI