„Átti erfitt með að höndla þetta allt saman“

Viðar Skjóldal er 32. ára Akureyringur sem sló í gegn á samfélagsmiðlinum Snapchat á síðasta ári. Þar fylgjast þúsundir með honum spjalla um enskan fótbolta og segja frá lífi sínu. Viðar gengur undir nafninu Enski á Snapchat og segist nú til dags vera kallaður það í daglegu lífi einnig. Á Snapchat setja einstaklingar inn myndir og myndbönd sem fólk getur skoðað í 24 klukkustundir áður en þau hverfa.

Viðar segist hafa fengið hugmyndina að því að byrja á forritinu frá fyrrverandi kærustu sinni sem hafi verið dugleg við að skoða Snapchat. Hún hafi aðallega verið að skoða stelpur sem töluðu um snyrtivörur.

„Ég lá alltaf hliðina á henni og mér leiddist þetta rosalega en þá fékk ég þessa hugmynd að ég gæti nú sjálfur bara farið á Snapchat og talað um eitthvað sem ég hefði áhuga á. Það var enginn að tala um enska boltann og mér fannst vanta eitthvað þannig. Á mínu snappi eru bæði stelpur og strákar sem fylgjast með mér og mér finnst það mjög skemmtilegt.“

Vinnur við það sem hann elskar

„Það skemmtilegasta er að ég fæ að vinna við að tala um það sem mér finnst skemmtilegast og tala um áhugamálið mitt. Að geta unnið við og fengið borgað fyrir að tala um enska boltann er frábært. Snappið mitt hefur þó breyst mikið síðan ég byrjaði og nú er ég farinn að sýna meira frá mínu daglega lífi. Upphaflega ætlaði ég bara að tala um fótbolta en fólk vildi sjá meira frá mér og það hefur bara verið skemmtilegt. Það er sennilega um helmingur fylgjenda minna sem veit ekkert um fótbolta.“

Viðar byrjaði á Snapchat í desember árið 2016 og hefur því verið virkur á forritinu í rúmt ár. Hann segir að margt eftirminnilegt hafi gerst á þessum tíma.

„Einn af hápunktunum var þegar ég náði fyrst þúsund áhorfum. Þá var ég búinn að vera virkur í 6 mánuði og það var alltaf markmiðið. Ég man hvað ég var glaður þegar ég sá þær tölur. Eftir það fór þetta að springa út mjög hratt. Um Verslunarmannahelgina 2017 fór ég á Flúðir og sýndi frá á Snapchat, þarna var ég farinn að sýna meira frá mínu eigin lífi og áhorfendum fjölgaði hratt. Um miðjan október fór ég til Liverpool sem fararstjóri sem var frábær upplifun. Á þessum tíma voru um 16 þúsund manns að fylgjast með mér á Snapchat.“

Ásamt því að vera fararstjóri í fótboltaferðum er Viðar í samstarfi við fyrirtæki sem hann auglýsir á Snapchat aðgangi sínum. Hann hefur einnig verið fastagestur í útvarpsþættinum Brennslunni á FM957.

Lagðist inn á sjúkrahús vegna álags

Viðar segir að lífið sem þekkt andlit sé þó ekki einungis dans á rósum.

„Þetta getur oft á tíðum verið ansi mikið áreiti. Þó svo að ég upplifi í langflestum tilfellum jákvæða hluti í kringum þetta fylgja þessu líka neikvæðar hliðar og ég hef aðeins fengið að finna fyrir þeim. Í kringum Verslunarmannahelgina stækkaði þetta allt saman rosalega hratt. Ég var farinn að fá mikla athygli og gagnrýni. Á sama tíma var ég farinn að drekka of mikið og í sannleika sagt átti ég bara erfitt með að höndla þetta allt saman.“

Þetta endaði á því að Viðar skráði sig inn á sjúkrahús og eyddi sólahring þar.

„Þar var mér sagt að ég væri einfaldlega að fara yfir um vegna álags, streitu, þreytu og áfengisdrykkju. Mér var ráðlagt að taka mér alveg frí frá öllu saman og þá notaði ég ekki Snapchat í viku. Eftir það kom ég tvíefldur til baka og hef staðið mig betur varðandi alla þessa þætti síðan.“

Viðar ásamt Carmen Lind dóttur sinni

Fjölskyldan finnur fyrir frægðinni

Þrátt fyrir frægðina segist Viðar enn vera bara ósköp venjulegur strákur frá Akureyri.

Ég lít ekki á mig sem eitthvað betri en annað fólk og hef aldrei gert. Ég lít ekki á mig sem frægan einstakling og finnst það í raun frekar óhugnanlegt. Þó að maður sé vissulega orðinn þekkt andlit.“

Að vera þekkt andlit á Íslandi hefur haft áhrif á líf Viðars og fjölskyldu hans. Fyrir nokkrum vikum fékk Viðar send myndbönd frá ungum strákum sem sögðu að hann væri ömurleg mannvera og hann ætti að fremja sjálfsmorð á sársaukafullan hátt. Viðar segir að hann megi ekki taka slíka hluti inn á sig og að flestir sem eru frægir í gegnum Snapchat lendi í svipuðu.

„Fólk hefur varað mig við að svona hlutir geta gerst. Ég tók þessu ekki inn á mig í eina sekúndu. Ég vona bara að svona aðilar fái hjálp enda veikir einstaklingar á ferð. Ég hendi þeim bara af Snapchat og held áfram.“

Viðar segir að fjölskylda hans hafi einnig orðið fyrir áreiti eftir að hann varð þekkt andlit en það sé þá aðallega á jákvæðum nótum.

„Það er alveg ljóst að fólk fylgist með mér á Akureyri þar sem fólkið mitt býr. Foreldrar mínir og systkini eru oft spurð út í mig. Ég tek ekki lengur inn á mig þegar fólk gagnrýnir mig því ég er orðin vanur þessu lífi. Ég tek hinsvegar inn á mig þegar fjölskylda mín verður fyrir áreiti og bendi þá fólki á að tala frekar beint við mig ef það hefur eitthvað út á mig að setja.“

Vörulína tengd nafninu Enski væntanleg

Hann segist vona að fólk láti fjölskyldu sína í friði enda séu þau ekki að leita sér að athygli. Hann ætli sér þó að halda ótrauður áfram á Snapchat og segist vera rétt að byrja.

„Maður hefur ofboðslega gaman af þessu og ég ætla mér að halda áfram og ná stærri markmiðum. Ég ætla mér að bjóða upp á allskonar nýjungar á næstunni. Ég er Akureyringur og elska Akureyri og þess vegna ætla ég að gefa ykkur Norðlendingum smá forskot á sæluna en þannig er mál með vexti að ég er búinn að vinna að því undanfarið að gefa út vörulínu sem tengist nafninu Enski. Ég hef verið að vinna í þessu ásamt vini mínum og við erum gífurlega spenntir og vonumst til þess að geta kynnt þetta á allra næstu dögum.“

Hægt er að fylgjast með Viðari á Snapchat undir notendanafninu enskiboltinn.

Greinin birtist fyrst í Norðurlandi Vikublað 11. janúar.

Sambíó

UMMÆLI