Borgin mín – Waterford

Borgin mín – Waterford

Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við fáum að heyra sögur af borgum víðsvegar í heiminum frá Akureyringum sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði. Að þessu sinni segir Kristín Hólm Geirsdóttir okkur frá Waterford í Írlandi.

Sjá fleiri borgir hér.

– Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Ég er í háskólanámi hérna úti að læra, tja, íþróttavísindi er líklega besta íslenska heitið yfir þetta nám. Ég er á mínu síðasta og fjórða ári en ég valdi þessa borg út af þessu sérstaka námi. Það var erfitt að finna nám eins og þetta en ég fann gráður í bæði Englandi og Írlandi. Afhverju ég valdi Írland og þá Waterford er einfaldlega útaf skólagjöldum, England rukkar Íslendinga eins og aðra nemendur sem eru ekki í Evrópusambandinu (þetta var fyrir tíð Brexit) en Írland rukkar mig eins og alla aðra Íra. Ég hafði um þrjá háskóla að velja en valdi Waterford útaf árs langa starfsnáminu sem hinir tveir skólanir buðu ekki uppá. Það var aldrei draumur að búa í Írlandi, það má segja að ég valdi þessa borg einungis til þess að fara í drauma námið og sé ekki eftir því.

– Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

Það er skemmtilegt að segja frá þessu þar sem ég hef búið á þrem mismunandi stöðum hérna í Waterford. Fyrsta árið bjó ég í stúdenta blokk með öðrum nemendum og lifði þessu týpíska studenta lífi sem ég hélt væri bara í bíómyndum. Það var sérstök upplifun en varð orðið þreytt eftir fyrsta árið. Þegar ég var á öðru ári flutti ég inn með tveim samnemum mínum í miðju “ghetto” Waterford. Ég veit ekki hvort þið hafið rekist á þættina “My Big Fat Gypsy Wedding” en ég bjó semsagt hliðiná hjólhýsagarði þar sem þetta fólk kýs að búa. Þarna voru asnar og hestar bundnir við ljósastaura og þetta er líklega eina borgin sem ég hef verið í þar sem ég mæti sultuslökum sólbrúnum hjólhýsaeiganda með stráhatt ríðandi á asnanum sínum, veifandi, brosandi með engar framtennur. Þriðja árið bjó ég í Svíþjóð (starfsnám) en núna á fjórða ári bý ég í blokkaríbúð með vinkonu minni í miðbænum. Hræódýr leigja fyrir hina fínustu íbúð en rafmagn og heitt vatn er dýrt.

– Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?

Alls ekki. Hérna er 50% afsláttur af öllu miðað við Ísland. Mér bregður þegar ég kem heim til Íslands og versla í Bónus.

– Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?

Waterford er elsta borg í Írlandi svo hún skartar gömlum byggingum og er staðsett við sjóinn. Bryggjan hérna er mjög falleg og það eru leifar af gömul rústum hér og þar á milli húsa. Írland á mjög áhugaverða og erfiða sögu svo söfnin og sagan er eitthvað sem fólk dregst að. Kennileiti borgarinnar eru þó helst pöbbastemmingin, en Írar elska bjór og þeir elska pöbbana sína. Waterford skartar einum elsta bar Írlands og Írsk pöbbastemming er eitthvað sem allir ættu að upplifa. Waterford er einnig fræg fyrir Kristal verksmiðjuna hérna þar sem allt er handgert.

– Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Ég vildi að ég væri með einhvern krassandi stað í huga en Waterford er krúttleg lítil borg og ekki erfitt að finna alla þá staði sem þarf að skoða. Ég hinsvegar hvet alla þá sem ferðast til Írlands að fara út fyrir Dublin og skoða minni staðina afþví að þá færðu alvöru bragð af Írskri menningu og hún er stórkostlega öðruvísi.

Kristín Hólm Geirsdóttir á kaffihúsinu fyrir framan kirkjuna

– Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Ég er algjör kaffihúsa perri og Waterford er full af allskonar kaffihúsum og öðrum veitingastöðum. Ég er ekki fyrir stóru keðju kaffihúsin en hef fundið tvö minni, annað þeirra kalla ég “kaffihúsið fyrir framan kirkjuna” og ég veit hreinlega ekki hvað það heitir, sem er hálf asnalegt af mér. Hitt er kallað Hook and Ladder og þar fær ég bestu skonsur (scones) sem ég hef smakkað. Endilega kíkið á “kaffihúsið fyrir framan kirkjuna” og Hook and Ladder ef þið túrið um suður Írland.

– Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?

Írska er stór skrítið tungumál sem ég hef ekki lært en ég tala enskuna. Margir halda að írska sé enska en það er ekki rétt. Írska er eld gamalt tungumál sem flestir Írar kunna, þegar ég heyri þá tala Írsku hugsa ég strax um Sims tölvuleikinn. Enskan er hinsvegar töluð hérna dags daglega og er líklega orðið fyrsta tungumál daginn í dag.

– Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku

Ég hef ferðast víða og Írska menningin er í sér flokk. Mér datt aldrei í hug að Írland sem er svona nálægt Íslandi gæti verið svona rosalega öðruvísi. Írland er gamaldags land og frekar eftir á í mörgu. Ég þarf að hita vatnið í góða klukkustund ef mig langar í heita sturtu tildæmis og margt annað sem ég þurfti að venjast. Voðalega lítið er gert í gegnum tölvur og er veskið mitt fullt af allskonar miðum og kortum sem ég þarf að taka með mér hingað og þangað. Maður er svo vanur því að segja kennitöluna sína heima og allt reddast, hérna þarftu að koma með skjölin. Hérna borðar fólk “kvöldmat” klukkan 16-17 sem er líklega eina stóra máltíðin yfir daginn sem mér finnst stór skrítið. Írar eru með kolsvartan húmor og blóta í öðru hverju orði, mér finnst það hinsvegar mjög skemmtilegt. Ég gæti hlustað á Íra tala endalaust mér til skemmtunar.

Ströndin

– Hvað einkennir heimamenn?

Ég myndi segja að heimamenn séu almennt frekar gamaldags og með því meina ég að karlmaðurinn gerir “karla hlutverkin” og konur gera “konu hlutverkin” ég veit að þetta á varla við í dag en þetta á enþá við sumstaðar í Írlandi og þá sérstaklega hérna. Fólkið hérna er mjög trúað, kurteist, rólegt og spjallar mikið. Ég stundum dett í þvílíkar samræður á meðan ég vel grænmeti í Tesco við konuna hliðin á mér og fer útur búðinni vitandi að sonur hennar sé 35 ára, býr í Dublin, giftur og á tvö börn sem eru tvíburar en dóttir hennar býr enþá heima og langar að læra snyrtifræði.

– Helstu kostir borgarinnar?

Algjör stúdenta borg, háskólinn minn er mjög stór og ég er umkringd nemendum sem gerir stemminguna mjög skemmtilega. Annar kostur er að borgin er ekkert sérstaklega stór en það vantar ekkert. Það besta er hvað allt er grænt og fallegt. Írland er ekki kallað græna eyjan að ástæðulausu.

– Helstu gallar borgarinnar?

Mér dettur ekkert sérstakt í hug nema glæpir hafa margfaldast síðan ég kom á fyrsta ári sem er alltaf neikvætt.

– Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?

Þetta er ekki borg sem ég sé fyrir mér að búa í eftir námið. Ég klára í Maí, kem heim yfir sumarið og flyt til Lincoln í Englandi í September svo ég er strax farin að plana það að búa ekki hérna. Hefði hinsvegar ekki viljað eyða síðustu 4 árum á neinum öðrum stað en hérna í Waterford.

UMMÆLI