Í dag fagnar skólinn minn 30 ára afmæli sínu

Sólveig María Árnadóttir skrifar:

Í dag, 5. september fagnar skólinn minn, Háskólinn á Akureyri 30 ára afmæli sínu. Að því tilefni skrifa ég persónulega kveðju með þakklæti efst í huga.

Á öðru ári mínu í Menntaskólanum á Akureyri fór ég fyrst að hugsa fyrir alvöru hvar ég hefði áhuga á því að stunda háskólanám en ég var þó harðákveðin í því að í Háskólann á Akureyri færi ég ekki. Án þess að hafa kynnt mér skólann þóttist ég vita að grasið væri grænna í höfuðborginni eða erlendis og man ég að flestir samnemendur mínir voru á sömu skoðun og ég.

Tíminn leið og ég skipti um skoðun. Árið 2015 hóf ég nám við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Væntingar mínar voru litlar sem engar í upphafi en ég heillaðist ansi fljótt og það hljómar kannski klisjulega en reynsla mín af Háskólanum á Akureyri hefur farið fram úr mínum björtustu vonum. Í dag er ég sannfærð um að sú ákvörðun að velja Háskólann á Akureyri sé ein sú besta sem ég hef tekið og eru ástæður þess margar. Síðustu ár hef ég fengið fyrsta flokks kennslu frá kennurum sem búa yfir mikilli reynslu og þekkingu á sínu sviði. Kennararnir eru faglegir en í senn persónulegir. Kennarar mínir í menntaskóla brýndu reglulega fyrir okkur að nýta okkur vel það góða aðgengi sem við hefðum af þeim því þannig yrði það ekki í háskóla og best væri að búa sig undir það að vera kennitala á blaði. Það hefur því komið mér skemmtilega á óvart hversu gott aðgengi er að þeim kennurum sem ég hef kynnst við Háskólann á Akureyri, alltaf eru þeir boðnir og búnir til þess að aðstoða nemendur sína eftir fremstu getu en ásamt því er ljóst að metnaður þeirra til þess að sjá árangur hjá nemendum sínum er mikill.

Innan skólans starfa ekki bara færir kennarar. Þar starfar einnig frábært starfsfólk sem er gott að leita til. Allt starfsfólk skólans, ásamt nemendum hans gera skólann að því sem hann er. Það er nefnilega alveg magnað andrúmsloftið í Háskólanum á Akureyri, það er heimilislegt og þar er gott að vera hvort sem það er yfir hábjartan dag eða í skjóli nætur að læra fyrir lokapróf. Ekki má gleyma að nefna öll þau dýrmætu vinasambönd sem hafa orðið til innan veggja skólans en ég er sannfærð um að fyrrum nemendur geti tekið undir þau orð að í Háskólanum á Akureyri eignast maður vini til framtíðar og einhverjir hafa jafnvel fundið ástina innan veggja skólans.

Ásamt því að vera persónulegur skóli er það besta við Háskólann á Akureyri sú staðreynd að innan veggja skólans hafa nemendur sterka rödd og á þá rödd er virkilega hlustað. Nemendur fá tækifæri til þess að taka þátt í háskólasamfélaginu á fjölbreyttan hátt og eru þeir hvattir til áhrifa og þátttöku í samfélaginu öllu. Auðvelda leiðin er þó að láta þessi tækifæri fram hjá sér fara, halda sínu striki og sökkva sér ofan í bækurnar. Þess vegna förum við í háskóla, ekki satt? Ég ákvað að fara ekki auðveldu leiðina. Strax á fyrsta ári greip ég tækifærin og hef ég lært mun meira af þeim heldur en ég bjóst við þegar ég hóf skólagöngu mína. Þegar ég hóf nám sá ég ekki fyrir mér að ég myndi sitja ráðstefnur á vegum Kennarasambands Íslands. Að ég ætti eftir að ferðast víðs vegar um landið til þess að kynna skólann, að ég myndi sitja í stúdentaráði eða gegna embætti innan framkvæmdastjórnar FSHA. Ég vissi einu sinni ekki að Landssamtök íslenskra stúdenta væru til og að hagsmunabarátta stúdenta yrði mér hjartans mál einn daginn og svo mætti lengi telja. Við samnemendur mína og framtíðarnemendur Háskólans á Akureyri vil ég segja: Grípið tækifærin, bjóðið ykkur fram í kynningarnefndina, mætið á viðburði, kynnist fólkinu í skólanum og stökkvið á öll þau tækifæri sem ykkur bjóðast. Við fyrri nemendur sem gripu tækifærin vil ég segja: Takk fyrir ykkar óeigingjarna starf.

Háskólinn á Akureyri, til hamingju með árin þín þrjátíu.
Takk fyrir metnaðinn sem þú hefur til þess að þróast og verða betri. Takk fyrir að vera til staðar fyrir alla nemendur þína og líta á ekki á þá sem kennitölu á blaði. Takk fyrir að bjóða upp á samkeppnishæft nám. Takk fyrir að bjóða upp á einstakt nám, sem ekki er kennt við aðra háskóla á Íslandi. Takk fyrir að vera persónulegur í senn sem þú ert fagmannlegur. Sérstakar þakkir færð þú fyrir að hvetja nemendur þína til þátttöku í samfélaginu og takk fyrir að hvetja nemendur þína til þess að gera heiminn að betri stað.

Rektor, starfsmenn og samnemendur, til hamingju með daginn. Ég hlakka til þess að njóta dagsins með ykkur.
Fyrrum starfsmenn, nemendur, velunnarar skólans og þeir samnemendur sem ekki geta notið með okkur í dag, til hamingju með daginn. Ég trúi því að þið hugsið hlýtt til skólans okkar allra í dag.

Sólveig María Árnadóttir
Varaformaður Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri

UMMÆLI