Prenthaus

Er fegurðin horfin úr skipulaginu?

Rósa Njálsdóttir skrifar

Akureyri er fallegur bær. Bæjarstæðið er fallegt á að líta, mikil gróður- og veðursæld ríkir hér, tíguleg og falleg hús má hvarvetna finna og yfir miðbænum gnæfir Akureyrarkirkja, eitt helsta kennitákn Akureyrar.

Gestir okkar og aðrir ferðamenn tala fallega um Akureyri og ákveðin nostalgía svífur yfir vötnunum í huga fólks, hver man ekki Sjallaböllin, Hótel Kea, Ingimar Eydal og Helenu með stokkinn og torgið eins og það var áður en það var hellulagt.

Á síðustu áratugum hafa mörg gömul hús bæjarins orðið að víkja fyrir öðrum nýrri. Gömul hús sem máttu vita fífil sinn fegurri, kannski ekki þess virði að gera þau upp eða þau hafa þurft að víkja fyrir nýju skipulagi. Sumstaðar standa þessar lóðir auðar og bíða þess hvað verða vill en á öðrum hafa jafnvel verið byggð hús sem engan veginn passa inn í götumyndina. Þess hefur ekki alltaf verið gætt að horfa á heildarmyndina eða að sjarmi gömlu Akureyrar fengi að lifa svo næstu kynslóðir fengju að njóta.

Á góðviðrisdögum og fallegum síðkvöldum má gjarnan sjá bæjarbúa á göngu um bæinn sér til heilsubótar og ánægjuauka. Ferðamenn fara um í hópum, rölta fallegu göturnar okkar, þræða t.a.m. innbæinn og miðbæinn, upp Eyrarlandsveginn og kíkja við í Akureyrarkirkju. Dást að sjarmerandi húsunum og mynda gjarnan fallegar götumyndir og gömlu húsin sem mörg hver hafa verið endurnýjuð og viðhaldið af mikilli natni íbúa þeirra.

Allir sem ferðast hafa til erlendra borga kannast við að upplifa þær á mismunandi hátt, oft tengist það miðbæjarkjörnum og byggingarlist hverrar borgar fyrir sig. Við hrífumst af hversu vel hefur tekist til við enduruppbyggingu þeirra borga sem fyrir skemmdum hafa orðið t.d. vegna stríðsátaka og dásömum þessar fallegu borgir og smábæi þegar heim er komið.

Hér á Íslandi eigum við nokkra bæi sem flestir geta verið sammála um að séu fallegir og sérstakir og þá einkum vegna þess hversu vel hefur tekist til við að varðveita gömul hús og götumyndir. Má þar t.a.m. nefna Ísafjörð og Seyðisfjörð.

Að sjálfsögðu verður að vera framþróun í byggingarlist eins og á öðrum sviðum og verkfræðingar og arkitektar njóta þess að fá frjálsar hendur við hönnun nýrra bygginga. En þeim þarf að velja rétta staði svo þær fái að njóta sín þar sem við á. Við þurfum að vanda valið og stíga varlega til jarðar þegar ákvarðanir eru teknar um endurskipulagningu og uppbyggingu borga og bæja.

Hér á Akureyri hefur undanfarin ár mikil umræða átt sér stað um miðbæinn og endurskipulagningu hans og sitt sýnist hverjum. Mikið verk er fyrir höndum og mikilvægt að vanda vel til verka og ákvarðana. Miðflokkurinn hafnar þéttingu byggðar á kostnað gamalla gróinna útivistarsvæða í bænum. Laga þarf skipulagsmál bæjarins meir að þörfum fólksins og atvinnulífsins sem saman mynda samfélagið Akureyri. Miðflokkurinn hafnar einnig frekari byggð sem þrengir að hafnar- og atvinnusvæðum bæjarins á Oddeyrinni.

Skilum fallegum bæ af okkur til komandi kynslóða. Það er gott að geta litið um öxl þegar frá líður og sagt með stolti: Þetta gerðum við vel!

Rósa Njálsdóttir

Skipar 2. sæti á lista Miðflokksins

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó