Er hægt að baka vöfflur með teppabankara ? Afmælisveisla á N4 í tilefni af hundrað ára afmæli fullveldisins

Er hægt að baka vöfflur með teppabankara ? Afmælisveisla á N4 í tilefni af hundrað ára afmæli fullveldisins

Á degi íslenskrar tungu, föstudaginn 16. nóvember, býður sjónvarpsstöðin N4 upp á afmælisveislu í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands ræðir þar um mikilvægi þessara tímamóta og hvaða sýn hann hefur á embætti forseta og þróun þess. Skólabörn spá í hversdagslega hluti úr fortíðinni og hópur valinna einstaklinga lítur yfir farinn veg og spáir í framtíðina í ljósi fortíðar.

N4 fékk styrk úr sérstökum afmælissjóði á vegum  Alþingis til þess að vinna þátt í tilefni þessara tímamóta. Forseti Íslands er heiðursgestur er viðtalið við hann er tekið í gamla bænum á Grenjaðarstað í Aðaldal. Þar segir hann frá hugmyndum sínum um embætti forseta og hvernig það hefur þróast í tímans rás. Hann segir líka frá mikilvægi fullveldis landsins 1918.

Hluti þáttarins er tekinn upp í gömlu rafstöðinni við Glerá á Akureyri til þess að undirstrika gildi raforkunnar í þróun síðustu  100 ára. Þar voru mætt til leiks þau Jóhanna E Pálmadóttir bóndi og framkvæmdastjóri, Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, Edda Hermannsdóttir hagfræðingur og Hjörleifur Stefánsson, arkitekt. Einnig er rætt við þá Braga Guðmundsson og Pál Björnsson, prófessora við Háskólann á Akureyri um árið 1918 og hlut Jóns Sigurðssonar í baráttunni fyrir sjálfstæði þjóðar.

Minjasafnið á Akureyri hefur stutt við gerð þessa þáttar með ýmsum hætti, m.a. valið gamla hluti til þess að sýna skólabörnum og leyfa þeim að velta fyrir sér hlutverki þeirra. Þar koma fram mörg áhugaverð svör og spurningar. Er til dæmis hægt að baka vöflur með teppabankara og er hægt að nota kortastaujara til þess að mæla fótstærð ? 

“Við höfum lagt áherslu á að gera þáttinn léttan og aðgengilegan fyrir alla aldurshópa og vonum að áhorfendur N4 hafi gaman af því að horfa á þetta efni á degi íslenskrar tungu, deginum sem er tileinkaður Jónasi Hallgrímssyni, einum að þeim sem börðust fyrir sjálfstæði þjóðarinnar”, segir Sigrún Stefánsdóttir umsjónarmaður þáttarins.

Sambíó

UMMÆLI