Fimm ný rit eru komin út í Pastel ritröð

Fimm ný rit eru komin út í Pastel ritröð

Fimm ný rit eru komin út í Pastel ritröð á vegum menningarstaðarins Flóru á Akureyri. Verkin eru eftir fimm ólíka höfunda úr skapandi geiranum og er hvert ritanna gefið út í aðeins eitt hundrað árituðum og númeruðum eintökum. Þau eru þessi:

Pastel 10 Lilý Erla Adamsdóttir: Biða.

Pastel 11 Sölvi Halldórsson: Piltar.

Pastel 12 Ragnhildur Jóhanns: Draumfara Atlas.

Pastel 13 Arnar Már Arngrímsson: Kannski er það bara ég.

Pastel 14 Samúel Lúkas: Eyddu mér.

Verkin eru hönnuð af höfundi ásamt Júlíu Runólfsdóttur hjá Studio Holt, en Júlía setti ritin einnig til prentunar. Ritin eru prentuð hjá Ásprenti á Akureyri.

Þessi fimm nýju Pastelrit bætast við í hóp þeirra Pastelrita sem fyrir eru. Áður hafa komið út níu rit í þessarri sömu ritröð eftir þau Margréti H. Blöndal, Þórgunni Oddsdóttur, Kristínu Þóru Kjartansdóttur, Megas, Hlyn Hallsson, Bjarna Jónsson, Karólínu Rós Ólafsdóttur, Vilhjálm B. Bragason og Hallgerði Hallgrímsdóttur.

Tvö útgáfuhóf verða haldin til að fagna komu þessarra nýju rita. Hið fyrra í Mengi í Reykjavík fimmtudaginn 6. desember kl 17-18 og það síðara í Flóru á Akureyri föstudaginn 7. desember kl 17-18. Höfundar lesa úr eigin verkum og boðið verður uppá fisléttar vetrarlegar veitingar. Allir áhugasamir eru velkomnir og er enginn aðgangseyrir að útgáfuhófunum. Öll þau sem eru áhugasöm um samtal þvert á íslenskar frásagnir, myndlist, bókverkagerð, hversdagsleika og ritlist er sérstaklega hvött til að mæta og að hlýða á höfunda, ræða við þau og rýna í verkin.

Útgáfuhófin eru styrkt af Akureyrarstofu/Menningarsjóði Akureyrarbæjar. Verk í Pastel ritröð eru til sölu í Safnbúð Listasafns Íslands í miðborg Reykjavíkur og í Flóru í miðbæ Akureyrar.

UMMÆLI

Sambíó