Prenthaus

Flammeus gefur út nýtt lag

Flammeus gefur út nýtt lag

Tónlistarmaðurinn Jón Tumi Hrannar-Pálmason gaf síðasta laugardag út lagið Jenny undir listamannsnafninu Flammeus. Lagið er komið á allar helstu tónlistarveitur. Þetta er fyrsta smáskífan af plötunni The Yellow sem er væntanleg í vor.

„Lögin samdi ég (hef verið að dunda við það frá því ég var 14 ára) en núna er ég loksins búinn að smala saman hljómsveit til að útsetja lögin mín og taka þau upp með mér. Hljómsveitina skipa Jóhannes Stefánsson (rafgítar), Guðjón Andri Jónsson (hljómborð) og Hafsteinn Davíðsson (trommur). Sjálfur spila ég (oftast) á rafbassa og syng. Í laginu sem um ræðir spila ég hins vegar á kassagítar og Jóhannes spilar á bassa. Ég fékk pabba með til að syngja bakrödd,“ segir Tumi í spjalli við Kaffið.

Lagið var tekið upp live í stúdíóinu í tónlistaskóla Akureyrar, kórinn sem kemur inn í lokin var tekinn upp sér og settur inn eftir á. Sigfús jónsson, bróðir Guðjóns jónssonar hljómborðsleikara, stýrir upptökum, mixun og masteringu á öllum lögum á plötunni.

„Ég myndi flokka þetta lag sem „folk-rock“, létt og hrátt melódískt rokk. Má síðan búast við nokkuð fjölbreyttri plötu í vor, amk þegar kemur að flokkun niður í tónlistarstefnur.“

Hægt er að fylgjast með Tuma og hljómsveitinni á Instagram undir nafninu flammeusmusic og á Facebook síðunni Flammeus.

Hlustaðu á lagið Jenny

UMMÆLI