Frítími 10- 13 ára barna á Akureyri

Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir

Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir og Lóa Guðmundsdóttir skrifa:

Hjá félagsmiðstöðvum Akureyrar (Félak) er öflugt starf fyrir börn á miðstigi á Akureyri. Öll börn í 5. – 7. bekk geta komið á opið hús í félagsmiðstöðinni í sínum skóla, 2-4 sinnum í mánuði. Á opnum húsum er alltaf eitthvað skemmtilegt um að vera sem skipulagt er af starfsfólki Félak. Öllum er velkomið að taka fullan þátt í opnum húsum eða koma við í styttri tíma og hlusta á tónlist, spjalla, spila, sýna sig og sjá aðra. Opin hús gefa börnunum tækifæri á að taka þátt í félagsstarfi, kynnast nýjum krökkum, efla félagsfærni sína og rjúfa einangrun. Þátttaka í skipulögðu tómstundastarfi sem þessu er einn af lykilþáttum í forvörnum gegn vanlíðan, einelti og áhættuhegðun. Í félagsmiðstöðvunum eru einnig starfræktir ýmsir skemmtilegir klúbbar.

Hvað felst í þessu klúbbastarfi?
Klúbbastarfið er viðbót við opna starfið, þ.e. ef þörf eða áhugi er á að auka virkni barnsins þá er boðið upp á ýmsa klúbba hjá Félak allt árið um kring. Á þessum aldri þroskast börnin mjög hratt og miklar breytingar verða á félagslegu umhverfi þeirra. Því er sérstaklega mikilvægt að hlúa að þeim einmitt á þessu æviskeiði áður en unglingssárin hefjast. Í klúbbunum er unnið með smærri hópa en á opnum húsum og því enn betra tækifæri til að efla sjálfsmynd og félagsfærni barnanna.

Lóa Guðmundsdóttir

Dagskráin í klúbbnum er ákveðin í fyrsta tímanum og börnin taka sjálf þátt í að ákveða hvað er gert. Allar hugmyndir eru ræddar en þau þurfa sjálf að komast að því með aðstoð starfsmanna hvort hugmyndin sé uppbyggileg og framkvæmanleg. Með þessu móti erum við að gera þau meðvituð um að nota frítíma sinn á skynsaman hátt og á sama tíma að taka þátt í lýðræðislegum vinnubrögðum. Þau hafa stjórn á því sem þau eru að taka þátt í og rödd þeirra heyrist. Dæmi um það sem hefur verið á dagskrá í klúbbum er bakstur, feluleikur, dvergafótbolti, ratleikur, kahoot, just dance og margt fleira.

 

Sumarklúbbar
Í fyrra sumar var í fyrsta skipti boðið upp á klúbba fyrir miðstig. Þeir gengu vel og því hefur verið ákveðið að bjóða upp á þessa klúbba, Félagsmiðstöðvarfjör, í sumar. Um er að ræða tvö tímabil og kostar hvert þeirra 5000 krónur, en hvert tímabil er 2 vikur eða 9 skipti í 2,5 klst í senn. Fyrra tímabilið er 12.júní til 22. júní og seinna tímabilið er 24. júlí til 3. ágúst. Skráning og nánari upplýsingar hjá olafíag@akureyri.is og fanneykr@akureyri.is

 

UMMÆLI