Furðulegt háttalag fyrirtækja um hátíðirnar

Elís Orri Guðbjartsson er meistaranemi í alþjóðastjórnmálum við London School of Economics and Political Science (LSE). Þetta er fyrsti pistillinn hans sem birtist á Kaffinu.

Elís Orri Guðbjartsson

Elís Orri Guðbjartsson

Jóhannes horfir út um gluggann á myrkrið sem umlykur allt. Þrátt fyrir að klukkan sé að ganga tíu eru fáir bílar á ferli, sem er skiljanlegt þar sem Fyrirtækið er staðsett í botnlanga. Í birtuglætunni sem ljósastaurarnir í götunni gefa frá sér sést hvernig fönninni kyngir niður.

„Jói,“ heyrist kallað innan af lagernum, en Jóhannes er alla jafna kallaður Jói af vinnufélögunum. „Varstu búinn að græja jólagjafir handa kvikindunum?“

Kaldur sviti rennur niður bakið á Jóhannesi þegar hann hugsar til þess að hann eigi enn eftir að versla gjafir handa börnum sínum tveimur. „Ekki enn,“ kallar hann á móti. Hann ræskir sig áður en hann bætir því sjálfsöruggur við að þau Dísa, konan hans, séu með nokkrar gjafir í huga.

Bjarni stekkur fram af lagernum. „Við Jónína voru að klára að pakka inn öllum gjöfunum í gær,“ segir hann svo skælbrosandi að hann lýsir upp kaffistofuna. Bjarni er að nálgast fertugt, drengur góður og hefur unnið nær alla sína tíð í Fyrirtækinu. Kláraði viðskiptafræðina í Háskóla Íslands, fékk starfið hér og hefur átt í sig og sína síðan. „Þetta er enginn smá helvítis hellingur!“ bætir hann gáttaður við. Hrynjandinn í setningunni var þannig að nú vissi Jóhannes að sögustund var í vændum. „Ekki nóg með það að við kaupum gjafir handa okkar dýrum, heldur verslum við náttúrulega líka fyrir Gauta bróðir og börnin hans. Þú manst eftir Gauta bróðir er það ekki? Þú varst byrjaður að vinna þegar Gauti kom alltaf í kaffi, var það ekki? Hálf sköllóttur. Bíddu aðeins.“ Jóhannes ranghvolfir augunum á meðan Bjarni rífur upp símann. „Hérna, þessi. Þú manst eftir þessum?“ Bjarni hefur opnað Facebook-prófíl bróður síns og birtist nú þessi flennistóra mynd af bústnum, sköllóttum, sólbrenndum, manni fyrir framan það sem virðist vera subbulegur veitingastaður einhvers staðar í útlöndum sem ber nafnið „Tropical Tenerife.“

„Við erum ekki líkir, ha? Hann ákvað að skilja öll góðu genin eftir fyrir mig!“ Bjarni rekur upp hlátur áður en hann nær andanum og heldur áfram. „Allavega fyrir Gauta og fjölskyldu, og Ingibjörgu litlu systur, en hún er sem betur fer bara ein ennþá. Sem er líka eins gott því systkinin hennar Jónínu eru náttúrulega fjögur. Fjögur! Og allt barnafólk! Ég hef straujað kortið mitt oftar síðustu vikuna en skyrturnar mínar frá fermingu!“ Þetta var klassískur brandari af hálfu Bjarna. Hann er óspjallaður brandarakarl af gamla skólanum. Jóhannes langar að hringhvolfa augnum en veit að hann er neyddur til að brosa, annað væri einfaldlega skepnuskapur.

„Og þið kaupið bara handa þeim öllum? Systkinunum og börnum og bara..“ áður en Jóhannes nær að klára spurninguna til fulls grípur Bjarni fram í.

„Já, við förum ekki að skilja neinn útundan. Það má ekki.“

Jóhannes horfir ofan í tóman kaffibollann og veltir því fyrir sér hvernig þau hjónin eigi að fara að því þessi jólin. Það var komið ár síðan að Dísa varð óvinnufær vegna bílslyssins og þeim hefur reynst erfitt að brúa bilið um mánaðarmótin allar götur síðan. Þau eiga rétt svo nóg fyrir leigunni og mat, en jafnvel þá verða þau að halda vel að sér peningunum svo að þau endi réttu megin við núllið. Þó Jóhannes hafi látið lítið á sér bera og staðið sína plikt og rúmlega það, var hann búinn að kvíða þessari stund, jólunum, í þrjá mánuði. Meira að segja desemberuppbótin sem hann fékk í síðustu viku gerði lítið annað en að greiða niður sjúkraþjálfunina hennar Dísu.

„Nei,“ segir Jóhannes. „Auðvitað má ekki skilja útundan.“

„Kæri Jólasvein,“ hefst bréf sem Albert litli skrifaði handa jólasveininum. Albert var að klára annan bekk og hlakkar gríðarlega til jólanna, rétt eins og systir sín sem er tveimur árum eldri. Á hverjum einasta morgni vakna þau spennt og rjúka beint með trýnið út í gluggasyllu. Albert sá sér leik á borði og laumaði stígvélinu sínu út í glugga, þar sem honum fannst lógískt að jólasveinninn hefði þá pláss fyrir stærri og meiri gjafir. Hann skildi í það minnsta ekkert í systur sinni að hafa annan balletskóinn út í glugga, þar sem að þá væri nú lítið sem ekkert pláss fyrir alvöru gjafir.

„Af kverju fæ ég svona mikið af mandarínum?“ heldur Albert litli áfram. „Mér finst þær ekki einu sinni það góðar.“ Það var að vísu haugalýgi, en hann vissi ekki hvort jólasveinninn vissi það eða ekki. „Af kverju fá Siggi og Gunni og Freyja og Kata æfón og æpadd en ég ekki neitt? Mér finst þetta svo leiðilegt.“

Það var aftur á móti heilagur sannleikur. Alberti fannst fátt leiðinlegra en að mæta í skólann og það fyrsta sem krakkarnir í bekknum ræddu var hvað sveinki hefði skilið eftir í glugganum í þetta skiptið. Eftir fyrstu fjóra dagana tók Albert upp á því að ljúga blákalt og miskunnarlaust að bekkjarfélögum sínum. Það þykir ekkert öfundsvert að fá mandarínur upp á hvern einasta dag, þá eru þær farnar að þjóna sama hlutverki og kartöflurnar.

„Ég fékk sko ferðahátalara,“ segir hann einn morguninn en þann næsta montar hann sig af spjaldtölvum eins og hinir bekkjarfélagarnir, sem hann „má samt ekki koma með í skólann því hún á að vera heima.“

Umsjónarkennarinn hefur tekið eftir umtalsverðum breytingum í hegðun Alberts upp á síðkastið, en grunar að hann sé bara svona yfirspenntur fyrir jólunum.

Bárður yfirmaður sparkar upp hurðinni á kaffistofunni í hádeginu, þar sem allir starsfmenn Fyrirtækisins sitja og ýmist klára að borða, lesa blöðin eða leggja kapal. Öllum dauðhrekkur í kút þegar hann birtist inn með slíku offorsi.

„Jæja herramenn,“ segir hann með þjóðlegu þjósti. „Ég veit að það hefur ekki tíðkast hingað til að gefa jólabónusa en þar sem framleiðnin hefur aukist sem nemur þyngd ungfrú Ísland, þ.e. FEITT, þá sá ég til þess að þið fengjuð eitthvað fyrir ykkar snúð!“

Mennirnir á kaffistofunni hlæja, klappa og hrópa fagnaðaróp allt í senn. Enginn brosir breiðar en Jóhannes. „Nei. Nei! Þetta getur ekki verið! Þetta getur ekki verið að gerast! Jólunum er bjargað!“ hugsar hann og á þessari stundu er þungu fargi af honum létt. Töluvert þyngra fargi en Arna Ýr gæti nokkurn tímann vigtast. Hann klappar svo fast saman lófunum að hann gæti fullhlaðið rafmagnsbíl með orkunni sem myndast.

Í þann mund sem fagnaðarlátunum linnir og Bárður gerir sig líklegan til að hefja máls á nýjan leik hringir síminn og byrjunarstefið í Smoke on the Water með Deep Purple ómar um kaffistofuna. „Augnablik herramenn!“ heyrist í Bárði áður en hann snýr sér við og gengur út um dyrnar. „Sæll meistari!“ er það síðasta sem heyrist áður en hurðin lokast á nýjan leik.

Mennirnir byrja að spjalla sín á milli. Þar sem að sumir komust ekki á rjúpur þetta árið verður hægt að nýta jólabónusinn til þess að greiða vel völdum veiðimönnum fyrir nokkur stykki, enda varla jól án þess að rjúpa sé á borði. Aðrir sjá fyrir sér að lauma eyrnarlokkum frá Sif Jakobs í jólapakkann handa frúnni eða hvort styrkja ætti björgunarsveitirnar með kaupum á stærri flugeldapakka og enn aðrir velta því upp hvort nú sé ekki kominn tími til að setja upp hillur og dytta að í bústaðnum.

Í huga Jóhannesar komst ekkert nema eitt að. „Jólagjafir! Við getum keypt jólagjafir!“ Hann sá útkrotaða Toys’R’us bæklinginn fyrir sér á eldhúsborðinu sem þau systkin voru vandlega búin að merkja hvaða leikföng þeim langaði í. Svo niðursokkinn var hann í eigin hugsanir að hann tók ekki einu sinni eftir því þegar Bjarni byrjaði að tala um golfhringinn sem Gauti bróðir fór á vel undir pari á Tenerife um árið. Núna var ekki tími fyrir neitt annað en að fletta bæklingnum í huganum og velja á milli leikfanganna.

„Gleðifréttir. Jólunum er reddað! Við vorum að fá jólabónus frá Fyrirtækinu og ég kem við í leikfangabúð á heimleiðinni!“ stóð í SMS-skilaboðum frá Jóhannesi til Dísu. Jóhannes vissi að hann fengi ekki svar strax þar sem Dísa var vanalega í sjúkraþjálfun í hádeginu, en mikið sem hann hlakkaði til að fá svar frá henni.

Áður en mennirnir næðu að setja inn færslur á Skotveiðispjallið á Facebook að óska eftir rjúpum, hringja í Rhodium og versla eyrnarlokka eða hafa samband við Ikea og velja hæfilegar hillur í bústaðinn birtist Bárður aftur í dyragættinni. „Afsakið þetta herramenn!“ Þegar þarna var komið við sögu höfðu liðið rúmlega þrjár mínútur og því mesti spenningurinn horfinn. „Allavega, eins og ég var að segja áðan finnst mér að þið ættuð að fá jólabónus í ár,“ segir hann brúnaþungur, snarþagnar og horfir alvarlegur yfir salinn. „Hvað?“ hrekkur upp úr honum og bros færist yfir á andlitið. „Eruð þið ekki sammála því?“

Hróp, köll og blístur heyrist á nýjan leik og það má sjá hvernig Bárður nýtur þess að vera miðpunktur athyglinnar. „Það hélt ég líka!“ Hann sveiflar höndum og biðlar til mannskapsins að hann ætli að hefja máls á nýjan leik. „Allavega, allavega. Ég var að ræða við stjórnina og þau tóku undir með mér að við ættum að innleiða jólabónusa í ár.“ Enn á ný er flautað og klappað. „Þið getið valið á milli ostabakka frá MS eða kjötkörfu frá Kjarnafæði.“ Flautið snarþagnar samstundis og klappið hættir sömuleiðis. Mennirnir brosa vandræðalga. Þetta var ekki það sem þeir höfðu í huga. Smoke on the Water hefst á nýjan leik og Bárður þýtur út.

„Ostabakki frá MS eða kjötkarfa frá Kjarnafæði, eða kjötkarfa frá Kjarnafæði, eða kjötkarfa frá Kjarnafæði..“ síðasta setningin ómar í höfðinu á Jóhannesi. „Eða kjötkarfa frá Kjarnafæði. Eða kjötkarfa frá Kjarnafæði?“ Hann horfir stjarfur á spilastokkinn á borðinu.

„Þar fór það,“ heyrist í mönnunum. Allir eru á eitt sammála um að þessi ákvörðun er ákveðinn skellur. Eina stundina sáu þeir vellystingar og ánægju fyrir sér, þá næstu sitja þeir uppi með ostabakka eða kjötkörfu. „Ostabakkar eru samt ótrúlega fín gjöf,“ heyrist í einum á meðan að annar bætir við að kjötkarfan frá Kjarnafæði sé hin allra ljúffengasta.

Síminn hjá Jóhannesi titrar og hann sér að hann hefur fengið skilaboð frá Dísu. Hann finnur hvernig fingurnir skjálfa þegar hann opnar skilaboðin. „Ég elska þig, Jóhannes.“

Jóhannes kyngir munnvatni og veltir fyrir sér hvernig hann eigi að koma sér úr þessu.

Einhvern veginn grunar mig að kjötkörfur og ostabakkar séu enn vinsæll jólabónus hér á landi. Þrátt fyrir að bónusinn sé hinn allra veglegasti, enda lítið út á hann að setja, er þetta gjörningur sem ég hef aldrei skilið, fyrst fyrirtæki eru umbuna starfsmönnunum á annað borð. Hvernig í ósköpunum geta fyrirtæki réttlætt það að gefa öllum sínum starfsmönnum sama bónusinn, þrátt fyrir litlar sem engar líkur séu á því að allir muni njóta hans? Um er að ræða ólíka einstaklinga með ólíkan smekk og ólíkar þarfir.

Við getum talið okkur ótrúlega lánsöm hér á landi að einstaklingar hvaðanæva að úr heiminum, með mismunandi trúarbakgrunn, hafa ákveðið að setjast hér að og stofna fjölskyldu. Það er dýrmætt og auðgar flóru landsins, en mörg þeirra láta t.a.m. svínakjöt sér ekki til munns. Hér á landi búa einstaklingar sem borða ekki kjöt, eða finnst það ekki gott, þ. á m. vegans og grænmetisætur. Hér á landi býr fólk með laktósaóþol sem getur því ekki innbyrt mjólkurvörur, þ.m.t. osta.

Á Íslandi býr heill hellingur af einstaklingum sem hefur nákvæmlega ekkert við ostabakka, kjötkörfu eða hverja þá gjöf sem fyrirtæki gefa starfsmönnum sínum, og því finnst mér með öllu óskiljanlegt hvað stendur í vegi fyrir því að einstaklingum sé einfaldlega umbunað í peningum (eða gjafakortum, til að forðast sköttun.). Ég velti því fyrir mér hvort sömu einstaklingar og sjá ekkert að því að starfsmönnum séu færðir ostabakkar eða kjötkörfur í jólagjafir myndu réttlæta gjafirnar jafn ötullega ef þær væru tveir pokar af tuttugu og fimm 42. gramma haglabyssuskotum frá Hlaði eða gönguísaxir frá Everest. Ég hugsa ekki.

Af hverju umbunum við ekki einstaklingum með peningum? Þá geta þeir verslað hvað það sem hugurinn girnist, hvort heldur sem það eru kjötkörfur, ostabakkar, haglabyssuskot eða leikföng úr Toys’R’us.


Þetta er aðsendur pistill. Ef að það leynist penni innra með þér eða eitthvað brennur sérstaklega á þér, þá skaltu ekki hika við að senda á okkur fyrirspurn á kaffid@kaffid.is eða hafa samband á Facebook síðunni okkar.

Sambíó

UMMÆLI