Halló-vín!

Ingibjörg Bergmann skrifar:

Þá er október alveg að klárast. Október er bara venjulegur mánuður fyrir mörgum. Tíminn þar sem maður þarf að öllum líkindum að skipta yfir í vetrardekk og súkkulaði-jólasveinarnir sem enginn kaupir eru loksins komnir í hillur í Hagkaup, enda ekki seinna vænna.
Fyrir öðrum þýðir október að hrekkjavakan nálgast.
Það er mjög umdeilt á Íslandi hvernig og hvort Halloween eigi að halda hátíðlega. Sumir blóta þessari amerísku hátíð í sand og ösku meðan aðrir telja þetta besta hátíðardag ársins.

Persónulega finnst mér Hrekkjavakan bara ágætis viðbót því eins og sönnum íslendingi sæmir segir maður aldrei nei við tilefni til drykkju. Þó finnst mér samt heldur grimmt í rassinn gripið þegar krakkarnir eru farnir að betla nammi á þessari hátíð líka. Þau hafa ekki einu sinni fyrir því að þýða ,,trick or treat“ yfir á góða íslensku. Þau ætlast bara til þess að venjulegt fólk fari að kaupa nammi og gefa þeim? Svona þegar þú ert tiltölulega nýbúin að ná Bjarnarstaðarbeljunum út úr hausnum á þér eftir að það er búið að sitja fast þar síðan í mars.  Ef þau gerðu að minnsta kosti tilraun til þess að þýða þetta þá ef til vill mundi maður gefa þeim nammi. Samt ekki. Þau hafa sinn öskudag og mega alveg láta þetta í friði. Hrekkjavakan er nefnilega dagur okkar fullorðna fólksins.

Við getum loksins klætt okkur upp í búning, drukkið frá okkur allt vit og klínt því á hátíðardag. Er það ekki nákvæmlega þess vegna sem hátíðar eru yfir höfuð ennþá til?
Það er allavega að öllum líkindum ekki til hátíð á Íslandi þar sem ekki er vín og matur. Nema kannski bolludagur og sprengidagur, en það er væntanlega bara vegna þess að fólk étur sína eigin líkamsþyngd og hefur ekkert afgangspláss fyrir vín. Aðrir hátíðardagar eru bara afsökun fyrir víndrykkju, og þar er hrekkjavakan engin undantekning.
Hinsvegar leyfir hrekkjavakan svo miklu meira en t.d. páskarnir. Á páskunum er það ekki vel séð, eða örugglega yfir höfuð ekki gert, að klæðast sem ,,slutty“ páskakanína eða djarfur Jesú.  Á Hrekkjavökunni getur þú klætt þig nákvæmlega eins og þú vilt og klínt því á hátíðina. Hvort sem það er kanína, slutty uppvakningur eða hreinlega Guð.
Hrekkjavakan er bara algjörlega nýr og velkominn vettvangur fyrir okkur unga fólkið því að á öskudeginum gat maður vissulega ekki drukkið vín.

Aðrir láta sér þó nægja að klæða sig upp sem ofurhetjur, kvikmyndapersónur eða annað slíkt og eru þá harðlega gagnrýndir fyrir að vera ekki nógu hrollvekjandi þar sem þetta er nú einu sinni hrekkjavaka. Hverjum er ekki sama? Við erum öll í leit að sama markmiðinu; að vera drukkin í búning.

Eitt er þó alveg víst, að þú munt aldrei gera öllum til hæfis. Það eina sem við vitum er að það er alltaf skemmtilegra að vera ekki maður sjálfur. Þannig að drekktu það sem þú vilt, vertu í því sem þú vilt og hlægðu að öðrum í hljóði. Svo skálum við saman fyrir Ameríku og byrjum hægt en örugglega að undirbúa Þakkargjörðarhátíðina líka. Bandaríkjamenn eiga ekkert einkarétt á henni og það er um það bil það eina sem við eigum eftir að taka frá þeim. Við þurfum fleiri víndaga á Íslandi.

UMMÆLI

Sambíó