Prenthaus

Háskólinn á Akureyri 2023 – Hvað svo?

Sólveig María Árnadóttir skrifar:

Samfélagið sem við búum í breytist ansi hratt og þátttakendur þess þurfa að vera tilbúnir til þess að taka þeim miklu breytingum sem bíða okkar. Það er því ánægjulegt hversu framsækin stefna Háskólans á Akureyri er. Stefnan rímar í raun mjög vel við þau orð sem sögð voru um Háskólann á Akureyri á Nýársþingi LÍS, Landssamtaka íslenskra stúdenta, um liðna helgi en þar voru aðilar sammála því að HA væri án efa sá háskóli sem væri í hvað mestri sókn á Íslandi í dag.

Ég sit í framkvæmdastjórn LÍS og fulltrúar samtakana – sem eru nemendur allra háskóla landsins auk fulltrúa námsmanna erlendis – tala til samfélagsins fyrir hönd allra íslenskra stúdenta. Innan samtakanna koma saman ólíkar raddir og reynslusögur úr ólíkum skólum sem varpa gjarnan ljósi á þætti sem mætti gera betur. En þó gera þessar sögur það í flestum tilvikum að verkum, að ég verð alltaf stoltari af því að vera nemandi við Háskólann á Akureyri. Þá get ég sagt við samstarfsaðila mína „sko í HA..“

Það eru helst þrír þættir sem nemendur hinna háskólanna öfunda okkur af. Þessir þættir eru: Persónulegt námsumhverfi þar sem lagt er upp úr þjónustu við nemendur, jafnrétti til náms í gegnum sveigjanlegt nám og síðast en ekki síst hvatning.

Þetta eru þættir sem skipta nemendur miklu máli og því er athyglisvert að einblína á þá við hlið stefnu skólans til ársins 2023. Áfram á að leggja ríka áherslu á persónulegt námsumhverfi og ég held að ég tali fyrir hönd allra nemenda HA þegar ég segi að það sé mikið fagnaðarefni. Ég sjálf valdi HA vegna þess sem ég hafði heyrt um persónulegt námsumhverfi og stuðning við nemendur. Þær sögur hafa staðist allar mínar væntingar og eru þetta þeir þættir sem ég byrja alltaf á að nefna, þegar ég reyni að sannfæra framhaldsskólanemendur landsins um að koma í HA. Þetta eru einnig þeir þættir sem þeim nemendum finnst oftast hvað mest heillandi, það skiptir nemendur nefnilega máli að vera meira en bara kennitala á blaði. Þetta atriði er þó eflaust ein stærsta áskorunin, þegar horft er til lengri tíma. Fleiri nemendur eru skráðir í námskeið en áður og þeim kennurum sem kenna stærstu námskeiðin, finnst eflaust erfitt að efla þennan persónulega þátt. Þetta á sérstaklega við um námskeið þar sem að fjarnemar eru í meirihluta. Lítið uppbrot á kennslustund getur skipt sköpum fyrir alla nemendur, hvort sem þeir eru staðar- eða fjarnemar og persónulegur tölvupóstur í upphafi námskeiðs getur gefið nemendum mun meira en kennara grunar. Auk þess sem mikilvægt er að hugsa út fyrir kassann og þá sérstaklega, að nýta lotur til einhvers annars en beinna fyrirlestra og glærusýninga.

Leggja á áherslu á sveigjanlegt námsframboð í grunn- og meistaranámi við skólann. Sá þáttur eykur að mínu mati jafnrétti til náms og er gríðarlega mikilvægur. Háskólinn á Akureyri er leiðandi þegar kemur að sveigjanlegu námsframboði og er von mín sú, að menntamálaráðuneytið og samfélagið í heild meti það að verðleikum.

Þriðji þátturinn sem ég nefndi að við værum öfunduð af, er hvatning. Með því á ég við hvatningu frá kennurum og starfsfólki til þess að gera vel. Hvatningu til þess að fara til dæmis í skiptinám. Innan LÍS hefur meðal annars verið rætt um það að skólar geri nemendum sínum erfitt að nálgast skiptinám, þeir fái litla aðstoð og enga hvatningu. Í raun sé eins og skólarnir séu í einhverjum tilvikum hræddir við að missa nemendurna frá sér. Hér er sagan þó önnur. Við erum hvött til þess að fara í skiptinám eða til þess að taka námskeið í samstarfi við erlenda háskóla. Því er sú alþjóðavæðing sem vísað er í, í stefnunni, mikilvæg fyrir nemendur skólans og ætti að skila sterkari og víðsýnni einstaklingum út í samfélagið.

Það eru þó ýmsar stórar áskoranir sem bíða okkar. Ójafnt kynjahlutfall nemenda við skólann er með stærri áskorunum sem takast þarf á við. Þetta vandamál á ekki einungis við um HA heldur eru konur í háskólum landsins alls staðar mun fleiri en karlar. Við gætum gripið til sterkra aðgerða og til dæmis meinað konum aðgang að skólanum í einhvern tíma. Væri það ekki eitthvað? Ég tel að í þessu samhengi þurfi að horfa til ýmissa átta. Námsframboð er eitt en skólinn stefnir á að bjóða upp á tæknifræði frá árinu 2020, kannski er það námsleið sem hentar körlum vel. Dæmið er þó ekki svo einfalt, í Háskólanum í Reykjavík er tölvunarfræði til dæmis eina námsleiðin þar sem karlar eru fleiri en konur og sá skóli býður upp á fjölda greina sem oft eru skilgreindar sem karlagreinar af samfélaginu. Við þurfum að grafa svo miklu dýpra en bara í námsframboðið. Hvers vegna er brottfall karla hærra en brottfall kvenna? Höfðar kennslan sjálf, kennsluhættir og námsmat meira til kvenna en karla?

Þessari áskorun fylgja tækifæri. Ég tel til dæmis að kennaradeild skólans ætti að fara í stórsókn hvað þetta varðar. Af samfélaginu er kennarastarfið skilgreint sem kvennastarf og því þarf að breyta. Sem nemandi í kennaradeild velti ég því fyrir mér hvers vegna sé ekki boðið upp á tæknimiðaðra nám, hvar er nýsköpunin og forritunin? Þetta eru þættir sem kennarar framtíðarinnar þurfa að geta lagt áherslu á. Kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri er fyrsta flokks og erum við sérstaklega öfunduð af henni. Hér er tækifæri til samnýtingar. Kennaranám með áherslu á tækni og forritun, er það ekki eitthvað sem samfélagið kallar eftir? Reyndar tel ég að allar deildir innan HA ættu að nýta sér þær stuttu boðleiðir sem hér eru, í samvinnu við Kennslumiðstöðina geta deildir til dæmis stefnt að því að verða sveigjanlegri og framsæknari í námskeiðsvali sínu.

Fjöldi nemenda í heild sinni er önnur stærsta áskorunin sem bíður okkar. Við stefnum ekki að því að verða fleiri en 2.500 en erum þegar um 2.000. Haldi þróunin áfram líkt og síðustu ár, án þess að gripið verði til aðgerða, verðum við komin vel yfir 2.500 nemendur árið 2023. Því þarf að myndast sátt um það til hvaða aðgerða eigi að grípa. Helst myndi ég vilja byggja nýja byggingu, stækka skólann, fjölga starfsfólki og vélmennum fyrir fjarnema og svo mætti lengi telja, en dæmið er víst ekki svo einfalt. Gæði náms og kennsla eiga að vera í forgrunni. Ég ætla ekki að taka afstöðu hér til þess hvort ég kjósi inntökupróf eða klásus en þó held ég að við getum öll verið sammála um að það þurfi að grípa til einhverra aðgerða og er mikilvægt að stúdentar séu með í þeirri vinnu frá upphafi.

Þegar upp er staðið er ljóst að það eru spennandi tímar fram undan þar sem takast þarf á við krefjandi áskoranir. Með styrkingu innviða mun Háskólinn á Akureyri spjara sig vel, hér er öflugt starfsfólk og ég vona að nemendur framtíðarinnar muni láta sig mál háskólasamfélagsins varða og taka þátt í mikilvægri uppbyggingu þess. Ég spyr mig hinsvegar hvort ekki sé kominn tími á að setja á laggirnar heildstæða menntastefnu fyrir landið, þvert á stofnanir. Vegna þeirra miklu breytinga sem bíða okkar tel ég mikilvægt að hafist verði handa við gerð slíkrar stefnu, sem allra fyrst, með aðkomu stúdenta. Miðað við framtíðarsýn Háskólans á Akureyri og miðað við þá stefnu sem Eyjólfur hefur kynnt, ætti skólinn að geta verið ákveðin fyrirmynd í mörgum efnum í slíkri stefnu. Þar ber til dæmis að nefna að Háskólinn á Akureyri getur og á að vera leiðandi fyrirmynd þegar kemur að umhverfismálum og jafnrétti til náms. Stefnan lokar ekki augunum fyrir þeim hröðu breytingum sem samfélagið stendur frammi fyrir, hún tekur á krefjandi áskorunum og er í takt við tímann.

Það er eflaust rétt sem ég nefndi hér áðan, Háskólinn á Akureyri er í stórsókn. Í þessari sókn er þó mikilvægt að efla þá þætti sem gera Háskólann á Akureyri að því sem hann er. Við megum ekki vanmeta eitthvað sem okkur þykir jafnvel sjálfsagt í dag og þrátt fyrir misjafnar skoðanir, að þá er mikilvægt að skólinn haldi í persónulegt námsumhverfi og leggi upp úr þjónustu við nemendur sína. Þættirnir sem ég nefndi að fulltrúar hinna háskólanna, öfundi okkur af, eru þættir sem ég er stolt af. Mikilvægir þættir sem Háskólinn á Akureyri ætti að halda fast í um ókomna tíð.

Höfundur er varaformaður Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri (FSHA)


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu okkur póst á kaffid@kaffid.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó