Hilda Jana hættir á N4 og snýr sér að pólitíkinni

Hilda Jana Gísladóttir er oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri.

Hilda Jana Gísladóttir, fjölmiðla- og athafnakona, leiðir lista Samfylkingarinnar á Akureyri fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar. Framboðslisti Samfylkingarinnar var samþykktur einróma á aðalfundi félagsins í gærkvöldi. Hilda Jana hefur starfað í fjölmiðlum undanfarin 18 ár meðal annars sem fréttamaður á Ak­sjón, RÚV og Stöð 2. Frá ár­inu 2009 hef­ur hún starfað á N4 sem framkvæmdarstjóri og sjónvarpsstjóri. Hilda Jana var árið 2014 til­nefnd til Eddu­verðlaun­anna í flokki sjón­varps­manns árs­ins og árið á und­an var þáttasería sem hún gerði, „Auðæfi hafs­ins“, til­nefnd til Eddu­verðlauna í flokki frétta- og viðtalsþátta árs­ins. Hilda Jana er kenn­ara­menntuð frá Há­skól­an­um á Ak­ur­eyri og hefur verið sérstaklega áberandi í fjölmiðlum á Norðurlandi. Hilda Jana staðfesti fréttirnar á facebooksíðu sinni í gærkvöldi í einlægum pistli þar sem hún þakkaði fyrir samfylgdina í fjölmiðlum og segist hlakka til að takast á við nýjar áskoranir í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hér að neðan má lesa pistilinn í heild sinni:

Ég hef tekið þá ákvörðun að bjóða fram krafta mína fyrir hönd Samfylkingarinnar í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég hef ávallt haft mikinn áhuga á samfélaginu mínu og þar af leiðandi stjórnmálum, það er einmitt þess vegna sem ég heillaðist upphaflega af því að starfa í fjölmiðlum. Ástæða þess að ég vil taka þetta skref með Samfylkingunni er einfaldlega sú að sá flokkur hefur oftast hugmyndafræðilega verið mér næstur, þá ekki síst mikilvæg áhersla á jöfnuð í samfélaginu okkar. Á starfstíma mínum í fjölmiðlum hef ég lagt áherslu á hlutleysi í flokkapólitíkinni, þó svo að á N4 hafi sem betur fer grímulaus landsbyggðapólitík verið hluti af starfinu. Ég hef verið svo einstaklega heppin að fá að kynnast samfélaginu okkar frá ýmsum hliðum á þeim 18 árum sem ég hef starfað í fjölmiðlum á Akureyri og ég er viss um að sú reynsla og þekking geti nýst vel í bæjarmálunum, fái ég til þess umboð kjósenda. Ævintýralegt ferðalag mitt með N4 er því á enda og vil ég á þessum tímamótum þakka samstarfsfólki og viðmælendum stöðvarinnar fyrir einstaklega eftirminnilegan og lærdómsríkan tíma. Helst af öllu vil ég þó þakka áhorfendum um land allt samfylgdina, ótrúlegan stuðning og jákvæðni í gegnum árin.

Sjá einnig: 

Hilda Jana leiðir lista Samfylkingarinnar

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó