Hinn óbærilegi einmanaleiki

Inga Dagný Eydal skrifar:

Ég þekki ekki raunveruleika þess að vera veik á geði.

Eða kannski geri ég það, eða ég veit það í rauninni ekki. Í mínum veikindum hef ég þurft sálfræðimeðferð, þjónustu geðlæknis, ég nota geðlyf, ég hef ekki getað unnið í tvö ár vegna andlegra og líkamlegra veikinda,- en ég upplifi mig ekki geðveika, ég hef ekki ranghugmyndir, ég get hlegið, elskað og iðjað ýmislegt þótt í litlu sé.

Ég upplifi hinsvegar að taugakerfið mitt er örþreytt og sjúkt, úthaldið er lítið og einkennin eru m.a. einkenni sjúklegrar streitu og kvíða. Líklega er það þó að einhverju leyti geðrænn kvilli og líklega gildir þessi upplifun mín um meirihluta þeirra sem hafa slíka greiningu.

Kannski skiptir það heldur ekki öllu máli en undanfarið hef ég upplifað raunveruleika geðsjúkra á eigin skinni að einhverju leyti. Ég skynja einmanaleika þess sem hefur verið veikur nógu lengi til þess að bæði hann sjálfur og umhverfið sé komið með upp í kok á sjúkleikanum.

„Hvers vegna í ósköpunum er ég ekki orðin frísk?” er spurningin eilífa sem maður lætur dynja á sjálfum sér. Aðrir eru líklega orðnir þreyttir á að spyrja hvort maður sé nú ekki að hressast og hvernig maður hafi það, andlegir kvillar geta verið svolítið spennandi og gaman að heyra að aðrir geti þó verið aumari en maður sjálfur en svo fer glansinn af. Kunningjarnir hætta að bjóða heim eða mæta í kaffi enda lítið spennandi að spjalla við þann sem á ekkert daglegt líf annað en endurhæfinguna sína og hefur frá litlu að segja nema eigin líðan.

Fáir og nánir vinir halda sambandi og fjölskyldan svíkur ekki og maður reynir að finna aðra hluti til að tala um og vera svolítið hress og upprifinn út á við. Það tekur þó mikið á og „hressileikinn” getur þýtt mikla vanlíðan og langt þreytutímabil á eftir.

Meðferðaraðilarnir sýna ótrúlega þolinmæði en kerfið tikkar og það líður að því að hlutirnir fari að verða erfiðari viðfangs ef endurhæfingin fer ekki að skila meiri og betri árangri.

Á þessum stað er ótrúlega mikilvægt að eiga samneyti við þá sem skilja, þá sem eru á sömu vegferð og vita hvernig þér líður. Þá sem vita líka að þú ert sama manneskjan og áður þrátt fyrir veikindin, þú hefur haldið fullri greind, húmor og persónuleika og gildið þitt er síst minna en áður. Jafnvel meira þar sem bæst hefur í reynslubankann og bæði víðsýni, auðmýkt og virðing fyrir fólki í sömu sporum hefur aukist töluvert. Og ef mér líður svona núna þá get ég ekki ímyndað mér hvernig fólki sem hefur einangrast eftir margra ára veikindi, hlýtur að líða.

Aldrei í lífinu er þá mikilvægara að eiga öruggt skjól til að æfa félagsleg tengsl, til að stunda félagslíf og tómstundir og þar sem þú sækir stuðning frá jafningjum. Þar sem það er óhætt að deila upplifunum af veikindum án þess að vera „leiðinleg”.

Ég er heppin. Ég á fáa en góða vini sem nenna ennþá að hlusta og sýna áhuga og ég á yndislegan og þolinmóðan mann. Ég er meira að segja að eignast nýja vini sem deila með mér reynslu úr þessum áður óþekkta heimi.

Staður sem veitir slíkt og jafnframt faglegan stuðning er mikilvægur hluti batans hjá flestum og hjálpar geðsjúkum á annan hátt en nokkur heilsugæsla eða geðdeild getur gert. Slíkur staður þarf hinsvegar opinberan fjárstuðning en ég trúi einlæglega að það spari samfélaginu mun meira þegar upp er staðið.

Ég heimsótti Hugarafl í Borgartúni á meðan ég var enn frísk og í fullu starfi sem stjórnandi í heilbrigðiskerfinu og ég gleymi seint hversu djúpt það starf snart mig, sem þar fór fram.

Það ríkir stundum eilítill hroki í heilbrigðiskerfinu og margir þar eru fljótir að kveða upp þann dóm að bati geti ekki falist í öðru en lækningaraðferðum sem hafa hlotið náð í vísindaheiminum og eru sannreyndar. Því skuli opinbert fé ekki notað til að styrkja neina aðra starfsemi.

Mín reynsla segir mér að þegar bati er ekki endilega raunhæfur þá er ýmislegt annað sem bætir lífsgæði geðsjúkra s.s. styrking sjálfsmyndar, efling félagslegra tengsla, kærleikur, umhyggja og styrkurinn sem kemur frá útréttum vinahöndum.

Látum af vísindalegum hroka sem samfélag og styrkjum starf sem sannarlega hefur borið góðan árangur, það bera notendur Hugarafls vitni um.

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

 

UMMÆLI

Sambíó