„Hugsaði með mér hvort þetta væri ekki bara orðið gott.“

Beggi Skans, eins og hann er jafnan kallaður

Beggi Skanz, eins og hann er jafnan kallaður

Bergvin Þór Gíslason, leikmaður Akureyrar er að margra mati einn besti leikmaður Olís deildar karla í handbolta. Bergvin hefur þó verið afar óheppinn með meiðsli undnfarin ár en hann er nú frá keppni vegna bakmeiðsla. Kaffið settist niður með Bergvin og ræddi við hann um framhaldið.

„Stefnan á comeback inn á völlinn er ekki fyrr en eftir áramót. Fyrsti leikur minn í Olísdeildinni á þessu tímabili fyrir Akureyri verður því ekki fyrr en í febrúar, þegar landsleikjapásan er búin,” segir Bergvin þegar við spyrjum hann hvenær við megum eiga von á honum á völlinn á nýjan leik.

Segja má að óheppnin hafi elt Bergvin en eftir þrálát meiðsli á öxl náði hann að spila stóran hluta af síðasta tímabili og endaði sem markahæsti leikmaður liðsins auk þess að vera valinn bestur á lokahófi félagsins. Brjósklos í baki tók sig þá upp í sumar sem hefur valdið því að hann hefur ekkert náð að spila á þessu tímabili.

„Ég verð að viðurkenna að eftir að ég fékk staðfesta greiningu á meiðslunum varð ég ansi svartsýnn og hugsaði með mér hvort þetta væri ekki bara orðið gott.“

„Á síðustu fjórum árum hef ég átt við erfið og langvarandi meiðsli sem hafa haldið mér mikið frá æfingum og keppni. Ég ákvað það þó samt sem áður að gefa þessu einn séns í viðbót og er farinn að hlakka ólýsanlega mikið til að fá að hefja æfingar aftur að nýju.”

Bergvin í baráttunni

Bergvin í baráttunni

Bergvin er þrátt fyrir þessi meiðsli hvergi banginn og setur stefnuna hátt. „Ég held að það sé draumur og markmið flest allra íþróttamanna að skella sér á vit ævintýranna og fá að upplifa að fara í atvinnumennskuna og spila á meðal þeirra bestu. Hvað mig varðar í dag þá er ég einungis að einblína á litlu sigrana, þ.e. að koma mér inn á völlinn og haldast heill.”

Akureyri Handboltafélag byrjaði tímabilið afar illa og voru svartsýnustu menn farnir að spá því að liðið myndi falla. Bergvin segir þó að liðið eigi nóg inni og hafi sýnt í síðustu leikjum að þeir geta unnið hvaða lið sem er. „Eftir vægast sagt slaka byrjun eru strákarnir farnir að stíga upp og það er búið að vera allt annað að horfa á liðið seinustu leiki,” segir Bergvin að lokum.


UMMÆLI