Húsnæðisverð hækkar mest á Akureyri

Húsnæðisverð hækkar mest á Akureyri

Húsnæðisverð hækkaði alls staðar á landinu í nóvember. Mesta hækkunin á raunverði íbúðarhúsnæðis varð á Akureyri en þar hefur verið stöðug umframeftirspurn eftir húsnæði undanfarið.

Í mánaðaskýrslu Íbúðalánasjóðs sem kom út nýverið kemur fram að kaupsamningum fækkar á höfuðborgarsvæðinu en fjölgar á öðrum landsvæðum.

Á Norðurlandi er að finna mestu hlutfallslegu aukningu milli ára, en þar hefur 26% fleiri kaupsamningum verið þinglýst það sem af er ári samanborið við sama tíma fyrir ári síðan. Í október var 104 kaupsamningum þinglýst á Norðurlandi sem er áþekkur fjöldi og á Suðurlandi en þar var 112 kaupsamningum þinglýst í október.

„Það hefur verið gríðarlega mikil hækkun, sérstaklega á þessu ári. En síðastliðin þrjú, fjögur ár hefur verið mikill hækkunarfasi. Þetta byrjaði 2014 og hefur hækkað jafnt og þétt. Aðalskýringin er að 2009, 2010, 2011 og 2012 var náttúrulega nánast engin fasteignasala á landinu, eða mjög lítil allavega. Þannig að það myndaðist ákveðin kaupþörf þannig að hún er að springa út og gerir það bara með fullum krafti núna í ár,“ segir Arnar Birgisson, sölustjóri hjá Eignaver í samtali við Stöð 2.

Arnar segir að þær eignir sem kaupendur leiti sér að séu af öllum stærðum en töluvert er af nýbyggingum sem hafa selst vel. Hann segir mun meiri sölu í dag en á árunum fyrir hrun. Hann segir meðal fermetraverð um 300.000 krónur

„Það er meiri sala í dag, það er bara þannig. 2006 til 2007 sem við erum oft að miða okkur við, núna er bara meiri sala.“
Í skýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að íbúum Akureyrar hafi fjölgað jafnt og þétt en í byrjun október bjuggu þar 18.710 manns. Hefur þeim fjölgað um 220 á fyrstu 9 mánuðum ársins. Til samanburðar fjölgaði íbúum um 140 á sama tíma 2016. Arnar segir að fljótlega muni fasteignamarkaðurinn á Akureyri ná jafnvægi og að ekki sé mikið um yfirboð í fasteignakaupum.

UMMÆLI