KIA

Hvað varð um Tom á Myspace?

Hann er vinalegur hann Tom

Hann er vinalegur hann Tom


Myspace er samskiptamiðill sem stofnaður var 
í júlí árið 2003 af þeim Tom Anderson og Chris DeWolfe. Miðillinn sló strax í gegn og varð vinsæll um allan heim.

Við Íslendingar fórum að nota miðilinn í miklum mæli árið 2006 en hann varð mjög vinsæll hja ungu fólki. Fyrir þá sem ekki muna eftir Myspace, þá var hann ekki ósvipaður Facebook, nema samskipti fóru fram á veggjum notenda og fyrir allra augum ásamt því að þú gast flokkað vini þína eftir mikilvægi.

Flokkunin fólst í því að þú áttir að raða upp hverjir voru þínir bestu vinir og sú regla skapaðist að sá sem þú taldir þinn besta vin settir þú fremst og svo koll af kolli.

Það er reyndar það sem ég sakna mest við Myspace en með því að fjarlægja einhvern náinn þér úr Top friends gastu sent skýr skilaboð. Við áttum þó öll einn besta vin á Myspace og það var Tom. Hann skipaði efsta sæti allra, hvort sem manni líkaði betur eða verr.

Með tímanum fór maður að kunna vel við Tom og ég leit á hann sem náinn vin. Árið 2008 verður Facebook æði á Íslandi og við stökkvum öll á þann vagn og skiljum Tom eftir með sárt ennið. Fyrsta árið trúði ég því reyndar að Facebook væri bóla og við Tom myndum sameinast á ný en svo varð heldur betur ekki. En hvað varð um Tom?

Strax árið 2009 hafði Facebook tekið algera forystu á markaðnum og var með meira en tvöfalt fleiri notendur en Myspace. Okkar maður gafst upp og yfirgaf fyrirtækið í kjölfarið og fór að leita að sínum innri manni. Við tók starf sem ráðgjafi hjá fyrirtæki sem kallar sig RocketFrog en það fyritæki hannaði veðmála snjallforrit fyrir Facebook. Tom sem hafði skilið við Myspace með fulla vasa af peningum ákvað að stofna hafnaboltalið í Las Vegas árið 2010 en það gekk því miður ekki upp.

Árið 2011 fann svo Tom ástríðuna á ný þegar hann fór að taka myndir. Líf hans tók stakkaskiptum og Tom varð hamingjusamur á ný. Nú ferðast hann um heiminn og tekur fallegar myndir. Myndirnar sem kappinn tekur eru afar glæsilegar en þær má sjá á Instagram síðu Tom.

UMMÆLI

Sambíó