Íslensk vefsíða býður upp á nammiskipti

Rís

Íslenska ferðasíðan Must See in Iceland er byrjuð að bjóða upp á nýjung á heimasíðu sinni, nefnilega nammiskipti. Nammiskiptin virka þannig að þeir sem eru búsettir erlendis, hvort sem það eru Íslendingar eða útlendingar, geta fengið nammi sent frá Íslandi og sent á móti nammi frá landinu sem þeir eru búsettir í til Must See in Iceland. 

 
„Hugmyndin kviknaði á spjallborði um Ísland á vefsíðunni Reddit. Þar var einn bandarískur maður að leita að aðila til að senda sér Appollo lakkrís til að koma eiginkonu sinni á óvart, en hún féll fyrir lakkrísnum þegar þau hjónin voru á ferðalagi um landið. Ég sá þessa bón og vildi endilega hjálpa honum. Það þróaðist síðan út í að við ákváðum að skipta á nammi. Ég sendi honum lakkrísinn og fékk í staðinn alls kyns gotterí frá Bandaríkjunum. Það var ekki lengi að klárast,“ segir Lilja Katrín Gunnarsdóttir, ritstjóri Must See in Iceland. 
 
Nú í vikunni fékk Lilja nammi frá Hollandi eftir að hafa sent hollenskri konu páskaegg og ýmislegt kruðerí. Ein bón um nammiskipti er í vinnslu til viðbótar við Kanada og vonast Lilja til að geta státað sig að því að hafa sent nammi um heim allan áður en árið er liðið.
 
„Það eru mjög margir sem hafa forvitnast um þetta athæfi okkar hjá Must See in Iceland, bæði útlendingar og Íslendingar. Skemmtilegast er þegar fólk leyfir mér að koma sér á óvart í nammivali en það er líka mjög gaman að fá pósta frá útlendingum sem hafa fallið fyrir einhverju sérstöku, íslensku nammi á ferðum sínum um Ísland. Þá hefur kannski dreymt lengi um að bragða á því aftur og það er geggjað að geta látið þann draum rætast,“ segir Lilja.
 
Framkvæmd nammiskiptanna er einföld. Lilja hefur yfirleitt miðað við að eyða 5000 íslenskum krónum, að meðtöldum sendingarkostnaði, í nammið og sá sem hún skiptir við eyðir sirka sömu upphæð. Lilja tekur glöð við öllum óskum og reynir að uppfylla þær allar. Síðan er pakkinn sendur af landi brott og beðið í örvæntingu eftir að hann skili sér á áfangastað. Meira er hægt að lesa um nammiskiptin á heimasíðu Must See in Iceland.
 
Must See in Iceland opnaði í janúar á þessu ári og hefur vakið athygli um heim allan. Hún hefur nú þegar unnið til tveggja, alþjóðlegra verðlauna: Viðurkenningu fyrir lofsverða vefsíðu hjá Awwwards og Sérstakt hrós frá CSS Design Awards  Þá hefur hún einnig verið tilnefnd sem vefsíða dagsins hjá Design Nominees.

UMMÆLI