Kjass gefur út sína fyrstu hljómplötuFanney starfar sem tónlistarkona á Akureyri og sækir tónlistararf sinn til Mývatnssveitar þar sem hún ólst upp.

Kjass gefur út sína fyrstu hljómplötu

Rætur er fyrsta útgefna hljómplata Kjass. Lágstemmdir djasshljómarnir eru undir sterkum áhrifum frá íslenskri þjóðlagatónlist og passa afar vel með fyrsta kaffibolla á sunnudagsmorgni eða eða til að ylja sér við á dimmu vetrarkvöldi.
Það er langt frá því sjálfsagt að ung kona úr Mývatnssveit geti gefið út sína eigin hljómplötu en nútímatæknin hefur þó gert ýmislegt mögulegt, meðal annars að gera listafólki kleyft að kynna verkefni sín á Karolinafund og það er óhætt að segja að það hafi gengið vel í tilfelli Fanneyjar Kristjáns sem náði söfnunarmarkmiði sínu vel fyrir tímamörk.

„Eftir að hafa hlustað á hana tvisvar í röð var ég orðinn svo ljúfur að mig langaði mest til að gera góðverk, það var ekki fyrr en ég var búinn að blasta Bastards með Motörhead og hlusta á Born to raise hell tvisvar að ég varð eðlilegur aftur.“
Þetta eru áhrifin sem fyrsta hljómplata Kjass hafði á rokkhundinn og Akureyringinn Kristján Pétur Sigurðsson. Hann ásamt öðrum sem keypt höfðu plötuna á Karolinafund fékk eintakið afhent á Akureyrarvöku um nýliðna helgi.

Fyrstu skrefin við gerð hljómplötunnar voru tekin árið 2012 þegar Fanney setti saman hljómsveitina Kjass. Að hljómsveitinni stóðu Anna Gréta Sigurðardóttir, Mikael Máni Ásmundsson, Birgir Steinn Theodorsson, Óskar Kjartansson ásamt Fanney sem ásamt hljómsveitarstjórn útsetti lögin og söng. Kjass hefur síðar þróast og er orðið listamannsnafn Fanneyjar. Upptökur við hljómplötuna fóru fram í tveimur hlutum, fyrst  árið 2012 með hljómsveitinni og síðan 2017, en í það skipti eingöngu með Önnu Grétu og Tómasi R. Einarssyni. Hljómplatan verður aðeins gefin út í 500 eintökum og útgáfan er styrkt af Hljóðritasjóði Rannís, Sparisjóði suður Þingeyinga og Menningarsjóði FÍH

Meira um fólkið á bakvið plötuna: 
Fanney starfar sem tónlistarkona á Akureyri og sækir tónlistararf sinn til Mývatnssveitar þar sem hún ólst upp. Hún nam við tónlistarskóla FÍH og hlaut meðal annars styrk úr sjóði Vilhjálms Vilhjálmssonar. Hún hefur gert djassútsetningar af íslenskum þjóðlögum, haldið fjölda tónleika jafnt með eigin tónlist og tónlist annara og samið tónlist fyrir kvikmyndir.

Anna Gréta stundar nám í píanóleik við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi. Hún var valin bjartasta vonin í djass og og blús á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2014. Meðfram náminu er hún dugleg að koma fram í Svíþjóð og hefur starfað með mörgum af fremstu djasstónlistarmönnum Svía.

Gítarleikarinn Mikael Máni stundar nám við Tónlistarkonservatíuna í Amsterdam, hann þykir einn efnilegasti gítarleikari landsins og gaf á síðasta ári, ásamt Marínu Ósk, út plötuna Beint heim.

Birgir Steinn stundar nám í bassaleik við The Jazz Institute í Berlín og kemur reglulega fram með Stórsveit Reykjavíkur.

Trommuleikarinn Óskar Kjartansson starfar í Reykjavík þar sem hann spilar meðal annars með hljómsveitunum DÓH tríó, Skarkala og Óreglu.

Bassaleikarinn Tómas R. Einarsson er kunnur fyrir tónlist sína. Hann hefur gefið út 20 plötur með eigin tónlist og flutt hana víðsvegar um heiminn. Latíntónlist Tómasar hefur vakið athygli víðsvegar um heiminn og hljómplötur hans unnið til verðlauna. Leiðir Tómasar og Fanneyjar lágu saman við gerð plötunar Mannabörn þar sem hann fékk til liðs við sig m.a. Sönghópinn við Tjörnina, sem Fanney tilheyrði á námsárum sínum í Reykjavík.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó