„Litla ljót-ævintýraleikur með söngvum”

Inga Dagný Eydal er Norðlendingur á besta aldri sem starfað hefur m.a. við hjúkrun, kennslu og tónlist. Hún býr í Eyjafjarðarsveit ásamt eiginmanni og hundi og sinnir eigin endurhæfingu og sköpun s.s. í ljósmyndun og skrifum, matargerð og listmálun. Veltir gjarnan vöngum yfir tilverunni, mannlífinu og vitleysunni í sjálfri sér og skrifar niður í pistla. Þetta er fimmti pistill hennar fyrir Kaffið.is.

Ég var feita stelpan. Ég var Litla-Ljót. Fyrir þá sem ekki þekkja þann ágæta barnasöngleik þá fjallaði hann um indíánastelpuna Litlu-Ljót sem var samfélagslega útskúfuð vegna þess að hún uppfyllti ekki þær útlitskröfur sem gerðar voru í indíánaþorpinu. Það var ekki fyrr en hún Litla-Ljót fór djúpt inn í skóginn að ráði skógardísarinnar og þvoði sér úr töfratjörninni að hún öðlaðist þá fegurð sem nauðsynleg er talin hverri lítilli stúlku og þá auðvitað sanna hamingju og aðdáun allra þorpsbúa.

Þetta var auðvitað algengt þema í ævintýrum. Ungar stúlkur glímdu við ýmiskonar útlitsvandamál, voru óhreinar (Öskubuska) eða áttu bara tötra að klæðast en ævintýrið endaði yfirleitt á því að þær urðu fagrar og hamingjusamar. Litla-Ljót hafði kannski til að bera óvenju berorð skilaboð, þar sem söngvarnir sem sungnir voru af engilfögrum barnaröddum- „þú ert ljót Litla-Ljót, við erum fríðar”, „þótt þú fengir nýja skó og fötin fín, -þú forljót værir engu að síður rýjan mín”, innihéldu meiri dómhörku en í gömlu ævintýrunum. Litla-Ljót var of ljót til að falleg föt eða venjulegur þvottur gætu nokkru bjargað….ekki einu sinni að hún væri kannski ofsalega góð eins og stundum dugði til.

Jafnvel í minni æsku sem var án tónlistarmyndbanda, alnets, samfélagsmiðla og snjallsíma, gátu skilaboðin um rétta útlitið verið sterk. Skilaboðin um Litlu-Ljót og önnur af sama toga gengu beint inn í sál stórrar og klunnalegrar stelpu og skildu eftir aldeilis rammskakka mynd af því hvers virði hún var Ekki svo að skilja, ég var heppin og veröldin var bæði betri og einfaldari í þá daga. Ég átti góða fjölskyldu og ég hafði hæfileika sem gerðu það að verkum að ég fékk að vera með í ýmsu sem annars var kannski svolítið frátekið fyrir „sætu” og vinsælu stelpurnar. En skilaboðin voru samt þarna og höfðu áhrif. Ég hafði ákaflega gaman af því að dansa og fór á hverju ári í dansskóla. Ég meira að segja lét það ekki stöðva mig að mæta yfirleitt afgangi þegar boðið var upp, ég vissi jú alveg að ég væri ekki þannig útlits að strákarnir hefðu mikinn áhuga á að dansa við mig. Hinsvegar man ég vel eftir því hversu ósanngjarnt mér þótti að vera aldrei valin til að sýna dans í lok námskeiðsins. Það voru aðeins útvaldir sem fengu að sýna foreldrum og öðrum árangur námskeiðsins og feitar stelpur voru ekki valdar. Ég var eiginlega sannfærð um að ég gæti alveg dansað, ég æfði mig mikið og vandaði mig og vonaði í hvert skipti að ég hlyti náð fyrir augum danskennarans. Það var reyndar systir hans sem yfirleitt sá um valið en hún kenndi líka dans. Hún var afskaplega grönn og einhvernvegin öðruvísi en konurnar sem ég þekkti á Akureyri og hún gekk á röðina og benti á hinar heppnu með löngum fingri, – „þú, þú, þú og þú”. Hún var greinilega ekki góð í því að muna nöfn. Og aldrei var ég valin og á hverju ári sveið það sárt. Það var einhvernvegin erfiðara að fullorðið fólk skyldi staðfesta skilaboðin úr ævintýrunum.

Það að alast upp með slaka líkamsímynd hefur áhrif sem vara oftast langt fram eftir ævinni og það getur kostað mikla vinnu og þrotlausa að  létta þann bakpoka. Og jafnvel þótt skilaboðin breytist,- ég átti eftir að léttast mikið og upplifa hvernig mat annarra á mér breyttist með hverju kílói sem fauk,- þá sitja áhrifin eftir. Tilfinningin um það að vera ekki nógu góð, að vera „Litla-Ljót”. Og ennþá síðar uppgötvaði ég að hamingjan fólst ekki í því að léttast, að maður getur verið í kjörþyngd án þess að vera hamingjusamur og að töfralindin býr innra með manni sjálfum. Skítt með það þótt danskennarinn velji aðra í sýningarhópinn!

Það sem mér finnst eiginlega sárast er að skilaboðin hafa ekki breyst til hins betra, þau eru bara háværari og grimmari en nokkru sinni fyrr þannig að Litla-Ljót og allt indíánaþorpið blikna í samanburðinum. Ekki vildi ég vera lítil stúlka í dag. Þrýstingur frá samfélagsmiðlum, fataframleiðendum, jafnöldrum, auglýsendum….upptalningin er endalaus. Enda er það svo að átta ára gamlar stúlkur tala opinskátt um megrun eins og raunverulegan hluta af tilverunni og þekkja alls kyns ráð til þess að verða grennri. Þrýstingurinn er að vera grennri, grennri og svo ennþá grennri….og sætari, með lengri augnhár, hærri kinnbein, færri líkamshár, minni en með stærri brjóst og já umfram allt grennri! Og því miður sýnist manni það vera svo að „sætu” stelpunum fækkar og þeim sem alast upp með slaka líkamsímynd og tilfinningu um að duga ekki til, þeim fjölgar.

Þetta er hinn sorglegi veruleiki. Heimurinn hampar þeim fallegu meira en nokkru sinni og fátt virðist vera til bjargar. Það þarf hinsvegar þorp til að ala upp barn og við getum sem þorp (indíánaþorp), auðvitað breytt heilmiklu þótt við breytum ekki heiminum. Við getum t.d. hætt að hamra sífellt á því að litlar stelpur séu „sætar”. Við getum lagt það á okkur að reyna að muna hve innrætingin getur verið sterk og við getum reynt sem fullorðnir einstaklingar að vinna gegn þessari innrætingu. Við getum lagt áherslu á að kenna börnum um mikilvægi fjölbreytileikans og hvetja þau til að njóta þess að vera þau sem þau eru. Við getum hrósað stelpum meira fyrir hugrekki, þrautseigju og frumkvæði og minna fyrir útlit. Við getum jafnvel byrjað á okkur sjálfum og verið góð fyrirmynd í því að leggja áherslu á að rækta aðra og skemmtilegri eiginleika í og hætta að hafa alltaf allar heimsins áhyggjur af útlitinu. Kennum mikilvægi hreysti og hreyfingar, frekar en mikilvægi þess að vera grannur.

Dætur okkar eiga að taka allt það pláss sem þær kæra sig um, hafa eins hátt og þeim sýnist og engin þeirra á að þurfa að vera Litla-Ljót.

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

Greinin birtist upphaflega á  raedaogrit.wordpress.com/

Sjá einnig:

Aðventublús

Dúkkulísuleikur

Að púsla hamingjunni

Að segja „seytt rúgbrauð”!

 

Sambíó

UMMÆLI