Margir Akureyringar reiðir yfir nýjum reglum um snjómokstur og snjómoksturleysi síðustu dagaMynd fengin á facebooksíðu Finnur ehf.

Margir Akureyringar reiðir yfir nýjum reglum um snjómokstur og snjómoksturleysi síðustu daga

Akureyringar hafa verið duglegir að tjá sig á samfélagsmiðlum síðustu daga en það hefur sjaldan sést jafn mikill snjór á Akureyri eins og undanfarið. Gríðarmiklum snjó kyngdi niður á Norðurlandinu síðustu daga og mikil ófærð hefur verið víðsvegar í þéttbýli og margar íbúðagötur á Akureyri verið ófærar. Veðurstofan mældi t.a.m. 105 cm snjódýpt á mánudagsmorgun.
Nokkrir tugir snjótækja eru í vinnu á vegum bæjarins og verktaka til að moka götur núna í vikunni. Enn eru fjölmargar götur og bílaplön sem á eftir að moka og eru illfær fólksbílum. Það tekur trúlega alla vikuna að gera bæinn almennilega færan.

Óheimilt að hrúga snjó af einkalóðum nema á skilgreind snjólosunarsvæði 

Á heimasíðu Akureyrarbæjar í síðustu viku var athygli bæjarbúa vakin á því að óheimilt er að hrúga upp snjó af einkalóðum í botnlanga gatna, á gangstéttir eða aðra hluta gatna þar sem vegfarendur eiga leið um. Hægt er að losa snjó á skilgreindum snjólosunarsvæðum í bæjarlandinu. Búið er að kynna snjólosunarsvæðin fyrir snjómokstursverktökum í bænum og birt var kort yfir sérstök snjólosunarsvæði fyrir almenning.

Þessi mynd, sem deilt var inn á gys.is., hefur gengið hratt um samfélagsmiðla. Um er að ræða auglýsingu sem búin hefur verið til í gríni eins og hún komi frá Akureyrarbæ.

Þetta hefur lagst mjög illa í marga Akureyringa sem telja bæinn ekki hafa brugðist við þessari miklu snjókomu með nægilega skilvirkum og snöggum hætti. Enn fremur spurja margir hvert þeir megi losa snjóinn af lóðum sínum, hvort það þurfi að leigja sér kerru til að keyra snjóinn út í sjó eða hvað.

Hér er brot af þeim kommentum sem hafa birst í kjölfar snjókomunnar miklu og nýjum snjólosunarsvæðum: 

Losunarsvæði við jólasveinabrekkuna?? Leiksvæði barna…..Eruð þið búin að hugsa þetta til enda?

Ætli það komi klippikort inn á snjólosunarsvæðin. Eða má setja með lífrænum úrgang?

Mesta djók sem til er.

Já snjómoksturinn…. fyrst það er búið að opna á það hér þá langar mig nú til að koma á framfæri óánægju minni með sparnaðinn yfir alla helgina. Líkt og þú bendir á þá er ástandið með eindæmum slæmt. En að nýta ekki laugardaginn og sérstaklega sunnudaginn til að moka, á meðan miklu minni umferð er um götur bæjarins, finnst mér slakt.
P.S. Klettastígurinn minn er einungis búinn að vera fær sérútbúnum og fullbreyttum jeppum, þó aðeins helminginn af götunni. Jú eða þá sérútbúinn og fótgangandi.

Því miður ætla ég að taka þátt í kvörtunum hér. Það er ekki bara að lítið hafi verið mokað heldur er það ekki vel gert, mikið um ójöfnur þar sem mokað hefur verið þvert á götur og þá geta litlir bílar skemmst. Það hlýtur að hafa sparast eitthvað í mokstri af því ekkert snjóaði fyrr en nú. Mér finnst að bærinn geti bætt sig verulega á þessu sviði!

Verð því miður að taka undir varðandi snjómoksturinn. Bý í Gránufélagsgötu rétt við leikskólann Iðavöll og hér hefur ekkert verið mokað. Foreldrar á leið í leikskólann festu sig nokkrir hérna í dag og umferð gangandi og akandi þurfti að fara um sömu þröngu ófærurnar með tilheyrandi hættu fyrir gangandi vegfarendur sem margir eru ung börn. Þá var ekið illa á kyrrstæðan bíl í bílastæði við götuna þar sem ökumaður missti stjórn á bílnum sínum í ófærunum. Þetta hefur aldrei orðið svona slæmt sama hve mikið hefur snjóað og framkvæmd moksturs var til sóma hérna fyrir örfáum árum síðan.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó