Prenthaus

Oddvitar í nærmynd – Hver eru helstu baráttumál flokksins?

Nú styttist óðfluga í bæjarstjórnarkosningar og því mikilvægt að kjósendur kynnist frambjóðendum sem best. Norðurland vildi leggja sitt af mörkum og tók stutt viðtöl við oddvita allra flokkanna sem eru í framboði á Akureyri. Í samstarfi við Kaffið verða niðurstöðurnar birtar hér í Kosningakaffinu.

Það getur verið erfitt að gera upp hug sinn hvern á að kjósa. Mörgum finnst baráttumál flokkana vera svipuð og erfitt að gera upp á milli. Oftar en ekki geta frambjóðendur í stjórnmálum fest sig í að tala um hvað má bæta, hvað væri draumamarkmið en ekki nákvæmlega hvernig á að bæta hlutina og ná þessum markmiðum. Það er gefið að allir flokkarnir vilja gera betur fyrir bæinn á mörgum sviðum en hvernig ætla þeir að gera það? Hvað aðskilur flokkana?
Frambjóðendur voru allir spurðir sömu krefjandi spurninganna og niðurstöðurnar má sjá hér að neðan:

Hver eru helstu baráttumál flokksins fyrir komandi kosningar?

FRAMSÓKN: Við leggjum mikla áherslu á málefni barna og fjölskyldna og skólamál eru okkur hugleikin. Við viljum stefna að leikskólaaldri frá 12 mánaða aldri og leggjum áherslu á að bæta aðbúnað og sálfræðiaðstoð inni í skólum, svo dæmi séu tekin.  Þá teljum við afar mikilvægt að hlúa betur að starfsmönnum sveitarfélagsins, viljum skoða möguleika á styttingu vinnuvikunnar og skoða úrbætur á starfsaðstæðum og vinnufyrirkomulagi. Í málefnum aldraðra er brýnt að ná fram framtíðarlausn Öldrunarheimilanna og á sama tíma þarf að marka stefnu í málefnum aldraðra til framtíðar.

L-LISTINN:
L-listinn vill bæta lífskjör allra bæjarbúa, ekki síst ungs fólks og barnafjölskyldna. Við leggjum ríka áherslu á að leysa dagvistunarmál með fjölbreyttum leiðum allt frá því að fæðingarorlofi lýkur. Við viljum að skólabærinn Akureyri verði með framúrskarandi skóla sem allir landsmenn horfa til. Við viljum halda áfram að vera í forystu í umhverfismálum. Við teljum að þétt öryggisnet sem grípur þá sem þurfa séu sjálfsögð mannréttindi og nauðsynlegt til þess að við getum byggt upp gott samfélag, útrýmum fátækt. Grundvallarforsenda fyrir bættri þjónustu er betri tekjustofn. Akureyri hefur aðstöðu til að gera frábæra hluti, hér er búið að fjárfesta vel í innviðum. Við ætlum að taka þátt í að byggja upp fjölbreyttar leiðir í húsnæðismálum fyrir unga jafnt sem aldna og viljum að geðheilbrigðisþjónustan verði til fyrirmyndar. Þá teljum við að bærinn eigi að taka þátt í verkefnum sem skila tekjum og viljum því taka beinan þátt í að koma á millilandaflugi.

MIÐFLOKKURINN: T.d. málefni barna í leik- og grunnskólum, málefni eldri borgara, atvinnulífið og síðast en ekki síst hamingja og velferð íbúanna allra.

PÍRATAR:
Valdefling fólks skiptir höfuðmáli fyrir nærsamfélagið. Að einstaklingur, sama hvar hann er staddur í litrófi samfélagsins, finni að hann geti haft áhrif og skipti máli. Þetta ásamt raunverulegu gagnsæi á rekstri og stjórnun bæjarfélagsins eru þeir lykilþættir sem við Píratar teljum nauðsynlegasta til að búa samfélag í sátt og samlyndi.

SAMFYLKINGIN:

Leikskóli fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Styttum biðtíma eftir sérfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni og bætum stoðþjónustu leik- og grunnskóla.

  • Gerum alla þjónustu við aldraða sveigjanlegri og fjölbreyttari. Bjóðum upp á sérhæfða ráðgjöf fyrir aðstandendur fólks með heilabilun.
  • Hækkum frístundastyrkinn í 50.000 krónur. Ónýttir frístundastyrkir renni í sjóð sem nýttur er til að styrkja börn og ungmenni sem ekki njóta skipulegs frístundastarfs.
  • Förum í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar og gerum rannsóknir á árangrinum sem svo gæti nýst almennum launþegum í kjaraviðræðum.
  • Verðum plastpokalaust samfélag með aðstoð fyrirtækja og bæjarbúa og leggjum áfram áherslu á sjálfbæra þróun og vistvænan miðbæ.
  • Berjumst fyrir réttlátari skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga til að bæta almannaþjónustuna.

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN:

  • Öll börn komist í leikskóla við eins árs aldur og styttri sumarlokanir.
  • Tryggja Akureyri sem fýsilegan valkost fyrir fyrirtæki.
  • Snyrtilegur umhverfisvænn bær og markvissar aðgerðir til þess að draga úr plastmengun.
  • Ábyrgur rekstur bæjarins, vandaðar áætlanir og áhersla á rafræna stjórnsýslu.
  • Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kvíða og þunglyndi hjá börnum og unglingum og sálfræðiþjónusta innan skóla aukin.
  • Áhersla á heilsueflingu eldri borgara.
  • Akureyrarvöllur verði til framtíðar fólkvangur fyrir bæjarbúa og gesti og byggt verði bílastæðahús í miðbænum.
  • Staðsetning upplýsinga- og samgöngumiðstöðvar verði ákveðin og hún byggð.
  • Hækka frístundastyrk fyrir börn og unglinga í 50.000 kr. á ári.
  • Bjóða upp á tómstunda- og íþróttastarf í frístund grunnskólanna.

 VINSTRI GRÆN: Umhverfismál, málefni barnafjölskyldna, lýðheilsa og bætt menntakerfi. Í stuttu máli sagt viljum við betra samfélag sem byggir á jöfnuði, samvinnu og virðingu í samskiptum. Við viljum einbeita okkur að því að leysa þau vandamál sem að okkur steðja og tengjast fyrst og fremst mikilli streitu og álagi.

UMMÆLI

Sambíó