KIA

Orkudrykkjaneysla unga fólksins: „Við erum að sjá leiðinlegar tölur“

Orkudrykkjaneysla unga fólksins: „Við erum að sjá leiðinlegar tölur“

Ungmenni á Akureyri neyta mun meira af orkudrykkjum heldur en jafnaldrar þeirra annarsstaðar á landinu, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar Ungt fólk sem rannsóknarmiðstöðin Rannsókn og greining stendur fyrir. Þar kemur fram að um 30% ungmenna í þremur elstu bekkjum grunnskóla á Akureyri drekki orkudrykk daglega, en landsmeðaltalið í þeim aldurshópi er um 10%. Þá kemur í ljós enn meiri munur þegar að 10. bekkurinn er skoðaður sérstaklega, þar sem 48% ungmenna á Akureyri sögðust drekka einn eða fleiri orkudrykki daglega, meðan að landsmeðaltalið var aðeins 14%.

Guðmundur Ólafur Guðmundsson, forvarnar- og félagsráðgjafi og Sandra Ásgrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur, voru gestir í Föstudagsþættinum á N4 til þess að ræða orkudrykkjaneyslu unglinga á Akureyri. Ítarlegt viðtal við þau má finna í N4 dagskránni með því að smella hér.

Smelltu hér til þess að horfa á viðtalið í Föstudagsþættinum.

Mikil aukning á stuttum tíma

„Ég myndi vilja kalla eftir frekari rannsókn til þess að athuga þetta mál betur. Til þess að kanna viðhorf gagnvart orkudrykkjum og hvernig neysla þeirra hefur aukist bæði meðal ungmenna og fullorðinna,“ sagði Guðmundur. Rannsóknin hefur verið gerð árlega síðustu 20 ár og því má til samanburðar nefna tölur frá 2014 þar sem 5% ungmenna í 10. bekk sögðust drekka orkudrykki reglulega. Það er því ljóst að aukningin hefur verið mikil á stuttum tíma.

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft

„Ég held að stór partur af skýringunni sé að foreldrar, kennarar, íþróttamenn og þjálfarar séu að drekka þessa drykki,“ sagði Guðmundur og bætti síðar við „fullorðið fólk á það til að bera þetta saman við kaffi og að þetta sé þá í lagi af því að það sjálft hafi nú drukkið kaffi sem unglingar, en það er ekki alveg þannig. Það eru fleiri virk efni í orkudrykkjum sem að gera þig örari þannig að það eru meiri áhrif af einum svona drykk heldur en af einum kaffibolla.“

Hefur áhrif á svefn

„Það er mjög mikið koffín í hverjum drykk og áhrif koffíns virka á miðtaugakerfið. Þannig að neysla þeirra heldur manni vakandi,“ sagði Sandra en niðurstöður rannsóknarinnar sýndu einnig að ungmenni á Akureyri sváfu minna en þeim er talið hollt. „Ungmenni á Íslandi eru að sofa of lítið og þar eru akureyrsk ungmenni engin undantekning. Við erum að sjá leiðinlegar tölur eins og að 25% ungmenna séu að sofa í kringum 6-7 tíma, sem er alltof lítið,“ bætti Guðmundur við.

Samvera með foreldrum

„Við höfum einnig verið að skoða samveru með foreldrum, sem er mjög miklvægi þáttur í forvörnum, en það er að koma aðeins verr út en í síðustu könnun. Akureyri er þar bara á svipuðu róli og landsmeðaltalið. Þarna vorum við að standa okkur vel en það hefur dalað. Það er því rétt að minna sig á að forvarnir eru ekki eitthvað sem klárast, þetta er stöðugt verkefni,“ sagði Guðmundur og bætti síðan við að nú væri þörf á að grípa til aðgerða „við þurfum aukna fræðslu í skólum, fræðslu fyrir foreldra og aukna umræðu. Það þarf að vekja athygli á því að þetta er vandamál þar sem við erum að sofna á verðinum og foreldrar verða að grípa inní.“

Heimsmet í innflutningi á NOCCO 

„Þeir eru að markaðssetja þetta rosalega vel og ná til síns markhóps. Margir áhrifavaldar eru annaðhvort að drekka þessa drykki eða þá með þá í höndunum meðan að þeir eru að tala. Þau eru náttúrlega fyrirmyndir sem leiðir það af sér að ef ég vil vera eins og sú fyrirmynd þá drekk ég sömu drykki,“ sagði Sandra, en tölur fyrir árið 2017 sýna að þá seldust tæplega 5,2 milljónir 330 ml dósa af vinsælustu orkudrykkjunum á Íslandi. „Þú sérð þetta alveg ef þú ferð í verslanir að þetta eru heilu stæðurnar,“ sagði Sandra.

Mikilvægt að lesa utan á umbúðir

„Það er mjög mikilvægt að foreldrar lesi utaná umbúðirnar á því sem börn eru að drekka og borða. Matvæla- stofnunin hefur sem dæmi gefið það út að hámarks skammtur fyrir barn er 2,5 milligrömm af koffíni á kíló. Þannig að ungling- ur sem er 50 kg má samkvæmt því ekki drekka meira en 125 milligrömm af koffíni á dag sem er minna en í einni dós. Þetta er ágætis mælikvarði til þess að hafa í huga,“ sagði Sandra.

Alvöru orka

„Drekka meira vatn, fara fyrr að sofa og borða morgunmat. Þannig fær maður þá orku sem maður þarf inní daginn. Þótt þetta heiti orkudrykkur þá er orkan í drykk-num ekki sambærileg þeirri sem við fáum með því að borða hollan mat með alvöru næringarinnihaldi. Þetta eru bara örfáar hitaeiningar og hellingur af gervisykri,“ sagði Sandra að lokum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó