Rúmlega 2500 bretar á leiðinni til Akureyrar í ársbyrjun

Mynd tekin af Icelandair, Akureyri að vetri.

Eins og Kaffið greindi frá í haust ætlar breska ferðaskrifstofan Super Break að bjóða upp á sérstakar norðurljósaferðir þar sem flogið verður beint til Akureyrar frá Bretlandi. Þegar salan á þessum 3-4 nátta pakkaferðum hófst í sumarlok stóð til að bjóða upp á 8 ferðir frá átta mismunandi flugvöllum í Bretlandi en þeim hefur nú fjölgað upp í fjórtán vegna mikillar eftirspurnar. Allar ferðirnar eru nú þegar uppseldar en í heildina verða 2577 farþegar á leiðinni til Akureyrar.

Chris Hagan hjá Super Break segir ferðaskrifstofuna ætla að tilkynna um enn fleiri ferðir á næsta ári og fyrir árið 2019 en þeir ætla einnig að bjóða upp á ferðir fyrir Akureyringa til að fljúga beint til Bretlands í byrjun næsta árs. Nánari upplýsingar um ferðirnar verða veittar mjög fljótlega.

Markaðsstofa Norðurlands hefur verið Super Break innan handar við skipulagningu Íslandsferðanna og ljóst er að allir þessir bresku ferðamenn sem von er á eftir áramót verða góðir fyrir ferðaþjónustu og veitingahúsarekstur á Akureyri og nágrenni. Chris Hagan segir að gistinætur hópsins gætu orðið allt að 9 þúsund talsins en til samanburðar þá voru gistinætur útlendinga á norðlenskum hótelum samtals 10.451 í janúar og febrúar í ár samkvæmt tölum Hagstofunnar, eins og greint er frá inn á vefnum turisti.is.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó