Silja Björk opnar öðruvísi lífstílsblogg

Silja Björk Björnsdóttir var að opna siljabjork.com.

Silja Björk Björnsdóttir hefur verið mjög áberandi í samfélaginu í baráttu sinni fyrir geðsjúkdómum. Hún er ein af frumkvöðlum #égerekkitabú herferðarinnar sem er landsþekkt og opnaði umræðuna um geðsjúkdóma verulega. Silja Björk segist hafa fengið ógeð af því hvernig fólk talaði um geðsjúkdóma og geðsjúklinga og tók sig því til og skrifaði í kjölfarið fjölda greina, hélt TedX fyrirlestur og kom fram í sjónvarpsþáttunum Bara Geðveik meðal annars.
Nú var Silja Björk að setja í loftið nýja og glæsilega heimasíðu þar sem hún kemur til með að tala um lífið og tilveruna almennt. Kaffið hafði samband við Silju og fékk að forvitnast betur um heimasíðuna.

Allskonar geðveiki
Silja hefur verið að skrifa greinar og pistla, bæði um málefni geðheilbrigðis og bakþanka, í dagblöðum og á netinu í um það bil fjögur ár. Einnig hélt hún úti uppskriftarbloggi árið 2015. Núna langaði henni til þess að sameina þetta allt saman í eina síðu og búa til lífstílsblogg sem er aðeins öðruvísi en þessi hefðbundnu sem þekkjast í dag.
,,Ég var alltaf að blogga þegar ég var krakki og unglingur, ég var partur af þessari folk.is og blogcentral-menningu sem tröllreið öllu hérna stuttu eftir aldamót svo ég hef líklegast bara verið að leita að einhverju svoleiðis síðan þá. Ætli áherslurnar mínar séu ekki meira allskonar, matur og uppskriftir, pistlaskrifin um geðheilsu, blogg og pælingar frá mér og skapandi skrif. Þetta er bara ég – allt sem ég er og það sem lífið mitt snýst um!“

Það sem rithöfundur man

Það sem rithöfundur man er flottur og frumlegur liður á heimasíðu Silju. Þar leikur hún sér með skapandi skrif en hún hefur í gegnum árin fylgst með fólki sem hefur verið í hennar lífi og hripað niður minningar.

,,Hvað er það sem situr eftir, mörgum árum seinna, þegar minningum fer að skola til og þeir sem maður eitt sinn elskaði eru nú kannski ekkert annað en ókunnugt fólk?“ 
Silja segist eiga til rúmlega 60 svona sögur sem eiga eftir að koma inn með reglulegu millibili. Þetta er kannski það sem er mest öðruvísi og frumlegt við hennar blogg í samanburði við önnur íslensk lífstílsblogg, en hún segir skrifin vera hennar leið til þess að muna fólkið sem kemur og fer í hennar lífi.

,,Svo er aldrei að vita nema ég fari að skrifa ljóð aftur eða skrifi einhverskonar öðruvísi sögur. Ég er líka að vinna að handriti að bók sem er í yfirlestri hjá útgefanda þannig það gæti vel verið að ég myndi birta kafla eða búta úr henni líka.“

Skjáskot úr einni sögu í liðnum: Það sem rithöfundur man.

Krefjandi en skemmtileg aukavinna
Silja er í fullri vinnu sem verslunarstjóri og kaffibarþjónn hjá Te&Kaffi en skrifar mikið í sínum frítíma. Hún segir það vissulega vera stundum tímafrekt að koma skrifunum fyrir og hafa alltaf nýtt efni á síðunni en þetta sé alls engin kvöð.

,,Þetta er meira bara skemmtileg aukavinna. Mér finnst afslappandi að nota helgarnar og kvöldin í að setjast niður og skrifa og ég elska að deila skoðunum mínum. Skrifin eru mín leið til að koma mér á framfæri, byggja upp fylgjendahóp og ná þeim markmiðum sem ég hef sett mér í lífinu,“ segir Silja.

Silja Björk er frumkvöðull í umræðu geðheilbrigðismála.


Meiri fókus á ferðalög, kaffi, vín, kokteila og uppskriftir

Silja segir margt skemmtilegt vera á prjónunum fyrir siljabjork.com. Hún stefnir á að setja inn góð ráð og reynslusögur um reisuna sem hún fór í fyrra með kærastanum sínum, frumlegar mataruppskriftir ásamt færslum um kaffi, vín og kokteila, því þar liggur hennar áhugasvið sérstaklega.

,,Ég er ekkert endilega að fókusera á förðun, líkamsrækt, heilsufæði eða einhvern glamúr. Mér finnst það alls ekki slæmt en það sem ég er að gera er bara allt öðruvísi. Mig langar síðan í framtíðinni að byrja matreiðslumyndbönd og listrænar útfærslur á skrifunum mínum, en það eru stærri langtímaverkefni sem þarfnast smá meðgöngu. Þeir sem sakna þess svo að lesa geðfræðslupistla frá mér þurfa ekki að örvænta því ég er í samstarfi við geðfræðslufélagið Hugrún og gedfraedsla.is – svo það er alltaf eitthvað jákvætt efni í þeim dúr væntanlegt!“

Þú getur heimsótt heimasíðu Silju Bjarkar með því að klikka hér. 

 

 

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó