Snorri slær í gegn í Kólumbíu: „Ótrúlegt hvað þetta hefur gerst hratt“

Dalvíkingurinn Snorri Eldjárn Hauksson hefur heldur betur slegið í gegn á samfélagsmiðlum undanfarið. Snorri hefur fengið í kringum 100 þúsund áhorf á nýjasta myndband sitt á Facebook þar sem hann syngur sérstaka kólumbíska tónlist.

Snorri eyddi þremur mánuðum í Cartagena í Kólumbíu árið 2016 þar sem hann varð mikið var við tónlist sem hann hafði ekki heyrt áður. Þessi tónlist sem um ræðir er Vallenato, tónlistarstefna þar sem harmonikka er ríkjandi hljóðfæri.

„Þetta er mjög heilög tónlist fyrir fólkið sem býr við ströndina í Kólumbíu þar sem textarnir eru yfirleitt mjög tilfinningaþrungnir. Ég fór að hlusta mjög mikið á Diomedes Diaz sem er sennilega þekktasta Vallenato skáldið og söngvarinn. Textarnir og tilfinningin gripu mig alveg frá því ég heyrði lagið Tú eres la reina (Þú ert drottningin) og ég fór að læra þessi lög.“

Snorri fór aftur í heimsókn til Cartagena í október á þessu ári og heimsótti fólkið sem hann kynntist árið 2016. Það var svo lítil stelpa sem býr á heimilinu þar sem hann bjó áður sem bað hann um að syngja fyrir sig lagið Tú eres la reina. Það var tekið upp og myndbandinu svo hlaðið upp á Facebook og þá segir Snorri hjólin hafa farið að snúast.

„Það er síða á Facebook sem heitir Peppa La Costeña og er flick my life síða þeirra sem búa við ströndina í Kólumbíu. Það fólk kallast Costeños. Síðan hlóð myndbandinu á sína síðu og skrifaði undir: „Hahahaha þegar að gringo syngur Vallenato betur heldur en Costeño“ Ég var fljótur að svara og sagði: „Hahah pappa ég er ekki gringo, ég er motherfucking Íslendingur“. Það er einmitt mikið í anda fólksins við ströndina að blóta.“

Snorri segir að Facebook síða hans hafi farið á hvolf eftir þetta komment og hann hafi fengið ótal vinabeiðnir frá fólki sem fannst ótrúlegt að Íslendingur væri að syngja Vallenato. „Ég ákvað að nýta mér þetta og samþykkti allar þessar vinabeiðnir. Það var svo á föstudaginn sem ég hlóð upp nýju myndbandi af mér að syngja eitt af frægari lögum Diomedes í nýjum búningi. Það myndband fór eins og eldur um sinu í Kólumbíu og síðan hefur Facebook ekki stoppað.“

Myndbandið af Snorra að syngja lag Diomedes má sjá hér að neðan en hátt í 100 þúsund manns hafa horft á það og það hefur fengið rúmar 2500 deilingar.  Þar fyrir neðan má svo sjá myndbandið sem hóf þetta ævintýri þar sem Snorri syngur lagið Tú eres la reina en hátt í 300 þúsund manns hafa horft á það myndband.

UMMÆLI