Söngkeppni framhaldsskólanna haldin á Akureyri í vetur

Söngkeppni framhaldsskólanna haldin á Akureyri í vetur

Söngkeppni framhaldsskólanna verður endurvakin á næsta ári en keppnin var ekki haldin í ár, í fyrsta skipti síðan 1990. Keppnin verður haldin á Akureyri en Samband íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, hefur fengið utanaðkomandi aðila til þess að halda keppnina. Stefnan er að vekja keppnina aftur til lífs en síðustu ár hefur áhugi á henni verið lítill. Gert er ráð fyrir að erlendir aðilar úr tónlistarheiminum verði viðstaddir keppnina, m.a. fulltrúi frá útgáfufyrirtæki Simon Cowell.

Keppnin verður haldin á Akureyri á næsta ári og má segja að sannkallaðri framhaldsskólahátíð verði slegið upp í bænum. „Við stefnum á að halda keppnina í mars eða apríl á næsta ári en dagsetningin verður kynnt á næstu dögum. Við ætlum að vera með góða og heilnæma hliðardagskrá og gera meira úr þessu en áður. Það verður því stíf dagskrá fyrir krakkana um leið og þau koma norður á föstudeginum og svo verður dagskrá yfir daginn á laugardeginum, keppnin um kvöldið og svo dansleikur fram á nótt. Það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi fyrir norðan þessa helgi“ segir umboðsmaðurinn Sindri Ástmarsson fer fyrir hópnum sem mun sjá um keppnina á næsta ári.

Ástæða þess að Akureyri verður fyrir valinu er sú að þar hafa fjölmennustu keppnirnar verið haldnar í gegnum tíðina en fyrirhugað er að á næstu árum muni keppnin ferðast víðar um landið. „Okkar tillaga er svo að fara á flakk með hana á næstu árum og halda hana helst í einhverju bæjarfélagi þar sem hún hefur aldrei verið haldin áður. Við höfum nefnt meðal annars Vestmannaeyjar, Egilsstaði og Ísafjörð sem dæmi fyrir árið 2019 en við munum kanna aðstæður um leið og keppninni 2018 er lokið,“ segir Sindri sem vonast til að vekja áhuga fleira fólks bæði á að koma á keppnina og horfa á hana en Sindri er í viðræðum um þessar mundir við sjónvarpsstöðvar um útsendingu frá henni.

Ég efast ekki um að Akureyrarbær muni iða af lífi og nemendur vera sjálfum sér og skólum sínum til sóma,“ segir Davíð Snær Jónsson, formaður SÍF.

UMMÆLI

Sambíó