,,Það er hugur í heimafólkinu“ – Rúnar Eff segir frá því helsta um helgina

Mynd: akureyri.is.

Nú styttist óðfluga í verslunarmannahelgina sem margir hafa beðið allt sumarið eftir. Akureyringar hafa eflaust tekið eftir því að hátíðin Ein með öllu hefur sjaldan verið veglegri en í ár þar sem fjölmargir frægir tónlistarmenn ætla að heimsækja Akureyri og skemmta heimamönnum og gestum yfir helgina. Kaffið heyrði í einum af skipuleggjendum hátíðarinnar, Rúnari Eff, og fékk að forvitnast aðeins um helgina, skipulagninguna og hverju má alls ekki missa af.

Rúnar sagði það ómögulegt að segja til um hversu margir gestir koma til með að sækja hátíðina en þeir hafa virkilega góða tilfinningu fyrir helginni.

,,Okkur finnst vera hugur í heimafólkinu og svo er dagskráin í ár óvenju vegleg. Eigum við ekki bara að giska á að hér verði allt fullt af fólki í góðu stuði,“ segir Rúnar.
Hann segir skipulagninguna hafa gengið mjög vel í gegnum þetta langa ferli sem fylgir hátíðarhöldum sem þessum og að hópurinn sem stendur að þessu sé svakalega duglegur og mörg fyrirtæki í bænum reiðubúinn að veita hjálparhönd.

Rúnar Eff er einn af skipuleggjendum Ein með öllu 2017.

Stærsti viðburður helgarinnar

,,Sparitónleikarnir á leikhúsflötinni á sunnudagskvöldinu eru alltaf stærstir, enda glæsilegir tónleikar þar á hverju ári. Ekki skemmir umhverfið heldur, fullt af smábátum með rauð blys og dúndrandi flugeldasýning í bland við eðal músík,“ svarar Rúnar um hver stærsti viðburður helgarinnar sé.

Næturlífið verður á iði um helgina
Kaffinu lá mikið á að fá svör við því hvernig næturlífinu yrði háttað um helgina. Eins og við greindum frá um daginn verður opið lengur á skemmtistöðum bæjarins í tilefni hátíðarinnar, þ.e. til 02.00 aðfaranótt fimmtudags og til 05.00 aðfaranótt föstudags og laugardags.

Rúnar segir alla staði bæjarins vera með eitthvað í gangi um helgina og mikið úrval fyrir alla aldurshópa.
,,Á Götubarnum og R5 verður klárlega stemmning, Pósthúsbarinn og Café Amor eru með flotta plötusnúða alla helgina, Græni hatturinn býður uppá algjöra tónlistarveislu, td. KK band og 200.000 naglbíta. Sjallinn er með allt það heitasta í dag; Páll Óskar, Aron Can, Úlfur Úlfur og margt fl. Svo má ekki gleyma hinu geysivinsæla Dynheimaballi sem verður haldið í Hofi í ár.“

Ef þú/þið væruð eingöngu að mæta á hátíðina sem gestir, ekki skipuleggjendur, hverju mynduð þið alls ekki missa af?

Mynd: Hedinsfjordur.is.

,,Úff, það er svo margt skemmtilegt í gangi, en ég persónulega hef alltaf gaman á hátíðartónleikunum, svo langar mig mikið að sjá bæði KK band og Naglbítana. Af íþróttaviðburðunum finnst mér einna mest spennandi að sjá Townhill keppnina þar sem ofurhugar fara niður kirkjutröppurnar á hjólum. Svo er nú alltaf klassískt að kíkja á Mömmur og möffins, fá sér í gogginn og styrkja gott málefni.“

 

Að lokum hvetur Rúnar alla sem vettlingi geta valdið að heita á slökkviliðsmennina okkar sem ætla að ganga til góðs á Laugardaginn og safna fyrir nýrri ferðafóstru fyrir sjúkrahúsið.

Allar upplýsingar um dagskrá helgarinnar og viðburði má finna inn á www.einmedollu.is.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó