Topp 10 – Ráð fyrir þá sem flytja til útlanda

Ingibjörg Bergmann Bragadóttir skrifar:

Ég man nákvæmlega hvar ég var þegar ég las fyrst „8 atriði sem hann vildi að þú vissir um kynlíf“ en það er yfirleitt þannig þegar að maður fær svona svakalegar fréttir.
Ég lá upp í rúmi og ég vissi þá og þegar að líf mitt yrði ekki samt aftur. Ráð líkt og: „segðu oftar já við mig“ og „ég er ekki bara typpi“ er eitthvað sem að ég hefði aldrei vitað að makinn minn vildi að ég vissi. Ef þetta bara hefði komið fyrr á netið.
Þeir sem að vilja nálgast listann geta gert svo hér.

Ég tala nú ekki um aðra lista líkt og: „16 ástæður til að stunda kynlíf daglega“ og „9 atriði við útlit kvenna sem að pirra karlmenn“ (því 10 hefði verið of mikið). Þar er talað um skorpnar varir, lélega umhirðu tanna og þurra húð, sem eru hins vegar allt saman atriði sem ég sækist eftir hjá karlmönnum. En vegna listans veit ég nú að þetta er ekki það sem þeir sækjast eftir hjá mér.
Listann má nálgast hér.

Ég veit hvað þið eruð að hugsa aftur. Af hverju kom þetta ekki fyrr á netið? Viðvörunin hefði alveg mátt koma nokkrum húðflyksum og gulum tönnum fyrr.
Þess vegna langaði mig til þess að endurgjalda greiðann og skrifa upp fyrir ykkur 10 ráð (því 9 er of lítið og 16 óviðráðanlegt) fyrir útflytjendur, þ.e. fólk sem er í þann mund/bara að pæla í/ dreymir um að flytja erlendis.

1. Facebook status
Það fyrsta og allra mikilvægasta er að gera facebook status. Þú verður að láta alla vini, ættingja og fólk sem þú veist ekkert af hverju þú ert með á vinalistanum vita að þú sért búin að ákveða að flytja til útlanda. Það skemmir ekki fyrir að vera búin að kaupa farmiða og láta mynd af honum fylgja. Allt annað er auka atriði… í bili.

2. Undirbúningurinn
Næsta skref er að undirbúa það sem þú getur. Núna ert þú búin að láta alla sem skipta máli vita að þú ert að fara út og því heldur vandræðalegt að tilkynna þeim að þú hafir hætt við. Ef þú ert búin að kaupa flugmiðann þá þarftu bara að finna þér skóla eða vinnu, húsnæði og vini. Þú ert ekki búin að vera nema a.m.k. 18 ár að gera og græja þetta allt saman á Íslandi en að öllum líkindum reddast þetta á næstu dögum.

3. Leitin að húsaskjóli
Að finna sér íbúð í gegnum netið er yfirleitt mjög öruggur kostur. Það er vinalegt fólk í flestum löndum sem er með hina fullkomnu íbúð fyrir þig. Hún er ekki of dýr og nýuppgerð. Þau vilja hinsvegar yfirleitt fá fyrirfram greiðslu frá þér og ég mundi ráðleggja þér að senda hana beint í gegnum moneygram. Þá sendir þú einfaldlega pening í pósti og vonar það besta. Ef það virkar ekki þá er líka alltaf sterkur valkostur að fara út og leita að íbúð þar, geta fengið að skoða og vera viss um að allt sé með felldu.

4. Vinaleit
Ég sá alltaf fyrir mér að ég væri sjötti meðlimurinn í franska friends genginu þegar ég flutti til Frakklands. Þau ættu bara eftir að finna mig. Þannig hélt ég að eftir fyrstu vikuna úti væri ég að sötra kaffi með nýju bestu vinum mínum á La Centralé Perké, en svo kom í ljós að það var enginn að leita að mér og ég þurfti virkilega að leggja mig fram við að kynnast fólki í hinu hversdagslega lífi.

5. Ég á alltof mikinn pening.
Sagði enginn tvítugurogeitthvað, aldrei. Það skiptir ekki máli hvað þú safnar miklu, það verður aldrei nóg. Sættu þig bara við það strax og sparaðu þér símreikninginn við að hringja í Arionbanka vikulega og hækka yfirdráttinn.

6. Hinn langþráði frítími.
Draumur allra, allsstaðar. Til hamingju, þú ert búin að finna hann. Þú hefur loksins nægan tíma til að læra. En þú hefur líka loksins tíma til þess að ná öðrum markmiðum eins og t.d. að klára heila þáttaseríu á einum sólarhring. Fyrir sumum, eins og undirritaðri, er þetta nýfundna frelsisvald stundum of mikið og misnotað hrottalega. Af hverju eru til 14. seríur af Greys anatomy?

7. Það er enginn að heimsækja þig fyrir þig
Þig byrjar strax að hlakka til að kynnast nýrri menningu og hlakkar ennþá meira til þess að íslensku vinir þínir komi að heimsækja þig. Hafðu þig hægan í tilhlökkuninni. Lestu allar túristabækur sem að þú finnur og aflaðu þér upplýsinga á borð við hversu hár Eiffel-turninn er. Því að þegar þú flytur út ertu í leiðinni að taka að þér fararstjórastarfsemi því að þessir svokölluðu vinir þínir eru yfirleitt spenntari fyrir því að sjá rauða hverfið heldur en þig. Sættu þig við það, svona er lífið.

8. Þriggja rétta dósatíð
Jiii hvað þú hlýtur að vera orðin þreytt/ur að borða góðan íslenskan mat. Að kynnast annarri matarmenningu er rosalega spennandi. Ef þú átt pening… Sem þú átt ekki. Velkomin í súpermarkaði í Evrópu. Þeir eru lokaðir á sunnudögum, opnir til 21 á kvöldin (hvar er 10/11? hvergi) og það er yfirleitt meira freistandi að kaupa sér vínflösku heldur en mat. Annars er dósamaturinn alltaf frábær fyrir fátæka námsmenn og nóg er úrvalið hérna erlendis. Gætir allt eins keypt þér kattarsand í leiðinni og sparað þér peninginn fyrir klósettrúllunum.

9. „ÞAÐ ER ALLT SVO GEÐVEIKT HJÁ MÉR
Ekki gleyma að uppfæra snapchat reglulega og auðvitað instagram til þess að láta fólk vita hversu frábært það er að vera þú. Þú getur alltaf montað þig af veðrinu og því að bjórinn kostar ekki 1100 kr. Notfærðu þér það.

10. Ég fæ ekki heimþrá
Taugaveiklaður grátur og sársaukafullt scroll niður newsfeedið þitt þegar þú saknar Íslands sem mest er einn af þessum erfiðu dögum sem að þú hefur heyrt talað um. Umfram allt skaltu samt muna að þetta er í alvörunni frábær reynsla og þú kemur sterkari út sem einstaklingur fyrir vikið. Þú munt ekki sjá eftir þessu. Passaðu samt bara að þú haldir því ennþá fram á öllum samfélagsmiðlum að þú sért ekki með heimþrá og lífið í útlöndum sé eingöngu frábært allan tímann. Alltaf.

Listinn birtist upphaflega á Nútímanum þegar höfundur skrifaði listann 2015.
 

Sambíó

UMMÆLI