Prenthaus

Um nýja skólahugsun

Geir Hólmarsson skrifar

Mikilvægasta en um leið misskildasta hugtakið í allri skólaumræðunni er hugtakið sköpun (Creativity á ensku)  Hugtakið er venjulega tengt listum og sérgreinum í skólunum og birtist gjarnan í kennslustundum helgaðar liststarfi eða birtist í valmöguleikum á verkefnaskilum s.s. veggspjaldagerð.  Í atvinnulífinu er talað um hinar skapandi greinar sem gefur í skyn að aðrar greinar séu það ekki.  Eru þá Samherji, Össur, Hagkaup og N1 ekki skapandi í rekstri sínum?  Jú það blasir við.  Almennt er skilningur okkar á hugtakinu of þröngur sem kemur í veg fyrir að við sjáum sóknarfærin sem felast í sköpuninni.  Að sköpunin sé hagnýtt fyrirbæri í námi og starf.

 

Sköpun er ekki sérgáfa, við búum öll yfir henni.  Sköpun er einfaldlega víxlbeiting á ímyndunaraflinu og skynseminni.  Við beitum sköpuninni á hverjum degi, annars kæmumst við ekki í gegnum daginn.  Það má orða það þannig að sköpun sé að hagnýta ímyndunaraflið.  Að skapa er að tengja möguleika með ímyndunaraflinu og skynseminni.  Að sjá fyrir sér samhengi og álykta um afleiðingar.  Sköpun er ferill, ekki niðurstaða.  Sköpunin er fólgin í athafnaseminni, í fyrirhöfninni í náminu sjálfu.  Þannig er skapandi skóli ólíkur skóla iðnaðarsamfélagsins sem byggir á efnismiðlun.

 

Um það er ekki deilt að eðlisbreyting hefur orðið á samfélagi okkar.  Í stað iðnaðarframleiðslunnar hvílir grunngerð samfélagsins á þekkingarsköpun og tæknilausnum.  Ríkulegur aðgangur að upplýsingum er nær fyrirvaralaus og tæknileg geta til að vinna úr þeim þekkingu er fordæmalaus.   Nemendur hafa í dag sama aðgang að upplýsingum og kennarinn sem leiðir af sér að miðlunarhlutverk hans er ekki sama og það var.  Þetta breytir þeim grundvallarþáttum sem skólastarf byggir á.  Kunnáttan við að afla sér góðra upplýsinga og færnin við að umbreyta þeim í þekkingu skiptir nemandann meira máli í dag en að muna langar runur staðreynda.  Þarna skiptir máli að hafa gott vald á samspili ímyndunaraflsins og skynseminnar, að vera skapandi í námi.  Hvað nemandinn gerir, hvernig hann hugsar skiptir meira máli en hvað hann man.

 

Að skapa er að tengja.  Tengja möguleika, ályktanir, staðreyndir, upplýsingar og þekkingu.  Það felur í sér að sá verður ekki skapandi sem ekkert veit.  Til að skapa þarf að vita og sá veit sem lærir.  Til að skapa þarf reynslu og skilja mikilvægi þess að hafa rangt fyrir sér og læra af því.  Þetta er allt annar skóli en skóli iðnaðarsamfélagsins sem hingað til hefur þjónustað samfélagið og býr svo sterkt í menningu okkar.  Eins og sá skóli byggði á hugmyndum okkar um greind þarf skóli dagsins að byggja á hugmyndum okkar um hagnýtingu ímyndunaraflsins.  Þetta kallar á töluvert umfangsmiklar grundvallabreytingar í allri hugsun um skóla og skólamenningu.  Þær forsendur þarf að sækja í helstu sérfræðinga landsins í skólamálum, kennarana sjálfa.

 

Skapandi skóli er í takti við grunnvirkni upplýsingasamfélagsins, að afla sér upplýsinga og á skapandi hátt umbreyta í þekkingu.  Sú þekking er ýmist notuð sem grunnur í frekari þekkingu eða í tæknilausnum sem nýttar eru til að auka sjálfvirkni í samfélaginu.  Við þurfum að víkja frá verksmiðjuhugmyndinni því hún er að bera okkur af leið.  Við sjáum vaxandi afleiðingar þessa nú þegar úr ýmsum mælingum sem við gerum á skólakerfinu.  Viðbrögðin skólayfirvalda eru krampakennd.  Átak í lestri, aukin tæknivæðing, aðgangshindranir og hækkun á markmiðum.  Aukinn fjölbreytileiki í skólakerfinu samhliða samdrætti í úrræðum til að mæta fjölbreytileikanum.  Sú ályktun verður ekki dregin að skólasýn skólayfirvalda sé skýr eða stjórnunin sé styrk.

 

Námskráin frá árinu 2011 er pólitísk yfirlýsing um nýja skólahugsun.  Í því liggur mikilvægi hennar.  Þar er gerð tilraun til að leggja fram nýja grunnþætti til að þjóna breyttu samfélagi.  En námskráin er allt of viðamikil, marglaga og of flókin til að hægt sé að fara eftir henni.  Sú manneskja hefur ekki fundist sem getur útfært skólastarf á forsendum námskrárinnar þannig að hún passi í starfsforsendur kennara.  Afleiðingin er að skólastarf er í hálfgerðri upplausn og kennarar eru að gefast upp við framkvæmd hennar sbr. viðtal við Arnór í Menntamálastofnun í fréttaritinu Eplið (janúar 2017) sem gefið er út af Kennarasambandi Íslands.

 

Það er skiljanlegt að nýi skólinn hafi í námskrá 2011 verið byggður upp á grunni hefðbundna skólans, við þekkjum ekkert annað.  En nýja skólann þarf að byggja á allt annarri forsendu enda er grunngerð samfélagsins allt önnur en hún var.  Hins vegar er ekki að sjá að yfirstjórn menntamála hafi þessa mynd nægjanlega skýra.  Hvert skal stefna?  Á hverju á að byggja?  Í mínum huga er það ljóst; á menningu skapandi hugsunar.

 

Ef við ætlum að auka samkeppnishæfni Íslands (sbr. stefnuræðu forsætisráðherra) þá þarf það að gerast í gegnum sköpunina, í gegnum nýjar hugmyndir, nýjar lausnir.

Til að ná þessum árangri og bæta samkeppnishæfni Íslands þurfum við að bæta menntun. Menntun er lykillinn að framtíðinni. Hún gerir okkur kleift að skapa það hugvit sem útflutningur okkar byggist á. Menntun gerir börnin okkar betur fær að standast alþjóðlega samkeppni en setur jafnframt þá pressu á okkur að bjóða ungu kynslóðinni samkeppnishæf lífskjör í alþjóðavæddum heimi. Menntun gerir okkur líka betur í stakk búin að takast á við tæknibreytingar.

 

Ef menntun er lykillinn að framtíðinni þá þurfum við að grundvalla menntunina á hagnýtingu ímyndunaraflsins.  Tíminn er núna.  Mannkynið stendur fyrir stærri og viðameiri vandamálum en nokkru sinni sem kallar á skapandi lausnir.  Það getur ekki gerst nema í gegnum skapandi skólamenningu.

UMMÆLI

Sambíó