Umferðarstöplum komið fyrir á bryggjunni á Árskógssandi

Hríseyjarferjan fer frá bryggjunni á Árskógssandi en fjölskyldan var á leiðinni heim til Hríseyjar þegar slysið átti sér stað. Mynd af ferjunni við ferjubryggjuna: www.hrisey.is.

Í kjölfar banaslyssins sem varð við ferjubryggjuna á Árskógssandi í byrjun nóvember hefur nú fjórum umferðarstöplum verið komið fyrir við enda bryggjunnar. Það var pólsk fjölskylda, kona og maður ásamt barni sínu, sem létust þegar bíllinn fór í sjóinn við bryggjuna en veðurskilyrði voru mjög slæm þegar slysið átti sér stað, mikil hálka, snjókoma og dimmt.

Í bréfi Rannsóknarnefndar samgönguslysa frá 15. nóvember var óskað eftir því að útbætur yrðu gerðar til að tryggja öryggi þeirra sem fara um bryggjuna. Þetta kom fram á fundi veitu- og hafnarráðs Dalvíkurbyggðar í morgun og mbl.is greinir frá.
Til þess að verða við þessum óskum voru umferðarstaplarnir settir upp en í bréfinu var einnig bent á það að kantbiti við ferjubryggjuna er 15-16 cm hár en eigi að vera minnst 20 cm, samkvæmt reglugerð.

Á fundinum var þó tekið fram að engar athugasemdir hafa verið gerðar við frágang bryggjunnar við venjubundna úttekt af hendi eftirlits.

Sjá einnig:

Alvarlegt slys á Árskógssandi – Bifreið fór fram af bryggjunni

Banaslysið á Árskógssandi – Fjölskyldan var frá Póllandi

 

 

 

 


UMMÆLI