Vilja opna flugvöllinn á Siglufirði aftur í sumar

Siglufjörður. Mynd: Jón Steinar Ragnarsson.

Bæjaryfirvöld í Fjallabyggð athuga nú þann möguleika að opna flugvöllinn á Siglufirði á ný. Flugvöllurinn hefur verið lokaður í nokkur ár núna en hann lokaði árið 2014 þegar hann var tekinn úr rekstrarsamningi Isavia og Ríkisins. Heimamenn voru ekki sáttir með lokunina og hafa lengi vel kallað eftir því að flugvöllurinn verði opnaður á ný en frá lokun hans hefur lítið sem ekkert verið gert í viðhaldsvinnu fyrir flugstöðvarbygginguna og flugvöllinn sjálfan.

Stefnt að því að opna í sumar
Bæjarstjórinn, Gunnar I. Birgisson, segir  segir í samtali við Vísi að hægt sé að nota völlinn undir sjúkraflug sem og að flytja ferðamenn á svæðið. Það þurfi bara að gera völlinn hæfari til að sjúkraflugvélar geti lent. Þá hafi þeim einnig borist fyrirspurnir frá minni flugfélögum sem vilja nota völlinn fyrir ferðamenn.

Stefnt er að því að opna flugvöllinn á ný í sumar en þar verður ekki um fullmannaðan flugvöll að ræða. Þar verður ekki flugumferðastjóri eða lýsing heldur lenda menn á eigin ábyrgð. Merkingar og annað er í lagi að sögn Gunnars svo auðveldlega er hægt að lenda minni flugvélum.

UMMÆLI

Sambíó