,,Vonandi verða næstu ár jafn skemmtileg og 2016 var“

large_almarr-og-tufa_0206

Almarr ásamt Srdjan Tufegdzic, þjálfara KA. Mynd: ka.is

Keppni í Inkasso deildinni í fótbolta lauk um síðustu helgi. KA-menn unnu deildina af miklu öryggi og munu því leika meðal þeirra bestu á næstu leiktíð. Kaffið.is fékk reynsluboltann Almarr Ormarsson til að gera upp sumarið. Gefum Almarri orðið:

Það voru spennandi tímar framundan, sögðu mér gárungar, þegar ég skrifaði undir samning hjá Knattspyrnufélagi Akureyrar síðasta vetur. Menn, og konur að sjálfsögðu, voru stórhuga og ætluðu sér upp um deild; nokkuð sem hafði ekki sést hjá félaginu í fjórtán löng ár (ég veit að það eru tólf ár síðan klúbburinn spilaði í deild þeirra skástu en við erum að tala um upprisuna sjálfa hér, er það ekki?). Það var víst einhuga stefna stjórnarmanna, þjálfara, leikmanna, stuðningsmanna og húsvarða að koma liðinu í deild sem styrkt væri af gosdrykkjaframleiðanda. Og þrátt fyrir tilraunir innheimtufyrirtækja að halda sem flestum landsbyggðarliðum í næstefstu deild þá vildu Sævar og kompaní trenda myllumerkinu #pepsi17.

KA, eins og félagið er oft kallað af innfæddum, hafði nýlega ráðið Srdjan Tufegdzic sem aðalþjálfara meistaraflokks karla í knattspyrnu þrátt fyrir skort hans á sérhljóðum. Srdjan, eða Túfa, hafði lengi vel þjálfað sjötta, sjöunda, áttunda og níunda flokk hjá KA svo það voru engar efasemdir um að hann gæti þjálfað þann fyrsta.

Í nóvember síðastliðnum fóru æfingar af stað og var Túfa, ásamt sínum hundtrygga aðstoðarmanni Óskari Búgí, ekki lengi að koma sínu einkennismerki á liðið. Leikmenn hlupu, fóru í reitarbolta, hlupu, skutu á mark, hlupu, æfðu sendingar, hlupu, lyftu lóðum, hlupu, spiluðu fótbolta og hlupu. Það var því mikið sjokk fyrir þjálfarana þegar þessir sömu leikmenn heimtuðu jólafrí til þess að borða hangikjöt og drekka jólaöl en hlaupa ekki neitt. Þannig að í janúar þurfti að byrja prógrammið upp á nýtt.

,,Tuðmann kenndi okkur rangstöðuregluna“

Svo við gerum langa sögu ekki alveg jafn langa þá voru fullt af leikjum í janúar, febrúar og mars og unnust flestir, færri enduðu með jafntefli og nánast engir töpuðust. Allavega í minningunni. Og þá var haldið til Spánar. Samkvæmt hefð íslenskra félagsliða var farið í svokallaða æfingaferð erlendis. Við söfnuðum fullt af pening til að eyða í ball svo við þyrftum að safna enn meiri pening til að komast í ferðina til Campo Amor. Það er óhætt að segja að þar sé allt til alls; frábærir grasvellir, glæsileg sundlaug og rækt sem Siggi í ræktinni yrði stoltur af. Því miður sáum við lítið af þeim aðstæðum því við vorum fastir í gluggalausu fundarherbergi að ræða hvað varnarmönnum þætti um sóknina og hvað sóknarmönnum fannst vera að vörninni.

Það verður þó ekki tekið af Spánverjum að þeir kunna að elda og voru menn almennt mjög sáttir með matinn sem þeir buðu uppá. Sér í lagi Hrannar sem borðaði allt saman með bestu lyst. Nema reyndar fiskinn, grænmetið, hrísgrjónin, pastað, ávextina, jógúrtið og auðvitað kjötið. En allt hitt. Svo fórum við í menningarferð til Valencia og horfðum þar á heimamenn taka púturnar frá Sevilla í bakaríið á meðan við brenndum á okkur enni og axlir.

large_gudmann

Guðmann „Tuðmann“ Þórisson. Mynd: ka.is

Þegar heim á klakann var komið fannst mönnum lítið hafa verið fjallað um liðið í fjölmiðlum í langan tíma svo ákveðið var að semja við eitt rándýrið í viðbót, Guðmann Þórisson. Það er óhætt að segja að það hafi verið happafengur fyrir félagið enda kunni enginn okkar rangstöðuregluna fyrr en Tuðmann kenndi hana á æfingu. Við spiluðum einnig fleiri æfingaleiki sem unnust sennilega flestir.

,,Hlustuðum á 1.147 mínútur af ræðuhöldum Túfa“

Það var því mikil eftirvænting á meðal brekkusnigla þegar knattspyrnutímabilið hóf göngu sína. Fyrsta fórnarlamb okkar gulklæddra voru Safamýrardrengirnir í Fram en með því liði hafa margir af bestu knattspyrnumönnum Íslands spilað (við nefnum samt engin nöfn). Deildakeppnin fór svona líka vel af stað og töpuðum við ekki leik fyrr en í annarri umferð! Fleiri urðu töpin reyndar ekki nema tvö í viðbót á móti mjög sterkum liðum. Mjög. Einnig stóðum við okkur virkilega vel í bikarkeppni Borgunar en við unnum Tindastól frá Sauðárkróki nokkuð sannfærandi í framlengingu. Svo töpuðum við mjög ósannfærandi í rokinu í Grindavík en fæstir muna eftir þeim leik nema þá helst hvað við vorum óheppnir að hafa fengið á okkur mark án þess að skora neitt.

Það væri hægt að rýna mjög gaumgæfilega í alla leiki sumarsins en þá myndi ég ekki nenna að skrifa um þá. Því látum við þetta duga: Við skoruðum heil 44 mörk, þar af 1 á móti Hugin. Við fengum á okkur einungis 18 mörk, Haukar eiga heiðurinn af 5 af þeim. Við unnum 17 leiki, þar af 2 á móti erkifjendunum í Fjarðabyggð. Við gerðum 3 jafntefli, sem eru 8 jafntefli færri en Keflavík gerði, og við hlustuðum á 1.147 mínútur af ræðuhöldum Túfa (þá eru ekki taldar mínúturnar þar sem við vorum ekki að hlusta).

Það er varla hægt að skrifa pistil um sumarið án þess að minnast á snillingana sem komu að KA-TV en þeir sýndu landsmönnum frá leikjum okkar í beinni útsendingu viku eftir viku. Fjölmargir sögðu upp áskrift sinni hjá 365 ehf. í kjölfarið enda komust þeir ekki með tærnar þar sem Ágúst og félagar höfðu þrífótinn. Allir leikir liðsins voru sýndir „live“ en annað eins hefur ekki sést hér á landi síðan aldrei.

Að lokum verður kannski að benda á það að við, KA, unnum deildina. Það er því ljóst að í fyrsta skiptið í sögunni fær félagið að spila í Pepsi deildinni því síðast þegar KA var í úrvalsdeildinni var hún kennd við Landsbankann (sem þótti þá bara ágætis stofnun). Ég held að mér leyfist að segja fyrir hönd allra leikmanna að við séum virkilega þakklátir fyrir stuðning allra KA-manna, hvort sem þeir séu enn búsettir hér á Akureyri eða brottfluttir. Án ykkar hefði verkefnið aldrei klárast og við hefðum líklegast bara gefist upp í upphafi.

Ég þakka lesturinn og hlakka til að takast á við komandi verkefni með hjálp allra bæjarbúa. Vonandi verða næstu ár jafn skemmtileg og 2016 var!

screen-shot-2016-09-29-at-12-22-41-am

KA-menn unnu deildina með glæsibrag

UMMÆLI