Ekki hræðast geðdeildina

Una Kara Vídalín Jónsdóttir er ung kona frá Akureyri sem birti í gærkvöldi pistil á Facebook síðu sinni þar sem hún segir frá baráttu sinni við þunglyndi. Kaffið.is fékk góðfúslegt leyfi frá Unu til að birta pistilinn hér að neðan. Una segist vilja opna augu almennings fyrir því hvað geðdeild sé frábær fyrir alla sem finna til í sálinni.

Una Kara Vídalín Jónsdóttir skrifar:

Þú getur verið glöð manneskja.
Þú getur verið hamingjusöm manneskja.
Þú getur verið sterk manneskja.
Þú getur gert það sem þú vilt og það sem þú ætlar þér.
Þú þarft að setja þér markmið til þess að komast á þann stað í lífinu sem þú ætlar þér.
Þú verður að geta treyst þeim nánustu í kringum þig, en á móti þarftu að sýna öðrum traust líka.
Alltof margir berjast við þunglyndi, kvíða o.s.frv.
Þetta er eitthvað sem enginn á að þurfa að berjast við, þetta er dimmur og ljótur heimur.
Þegar rætt er um þunglyndi þá er vísað í lengri tímabil þar sem andleg vanlíðan er farin að há viðkomandi í daglegu lífi.

Ég er ung en hef upplifað margt sem flest allir hafa ekki upplifað, þó svo að við upplifum oft mismunandi hluti, mis erfiða, mis góða og oft frábæra.

Mér hefur oft langað til þess að deila minni líðan með öðrum bara til þess að opna augun fyrir fólki hversu gott þetta líf getur virkilega verið og hversu rosalega flott fagfólk sem við eigum hafa bjargað lífi margra!

Ég heiti Una Kara, margir þekkja mig sem mjög glaða og hressa manneskju og kannski hæfileikaríka. Ég er það kannski en það býr líka önnur manneskja í mér, þunglynd og kvíðin manneskja sem grætur næstum öll kvöld því hún vill ekki vera sú manneskja sem hún er, hún vill bara vera glaða og hamingjusama Unan! Því miður stjórnum við því oft ekki hvernig hausinn tekst á við geðræn vandamál, þess vegna leitum við okkur hjálpar, það er til svo ótrúlega mikið af fólki sem vill hjálpa þér ef þú virkilega vilt og þarft þess. Þetta er spurning um að láta vaða á það og opna sig, segja frá.

Fjölskyldan mín vissi alveg af mínum vandamálum og að það þyrfti að leysa þau á réttan hátt en ég sjálf var ekki tilbúin í það, ég vildi bara deyja, losna við allan sársaukan sem fylgdi þessari andlegu líðan, losa fjölskylduna mína undan því að þurfa að hafa áhyggjur af mér.

Afhverju ætti ég að vilja deyja? Ég er svo ung og á eftir að upplifa svo svo margt sem ég veit ekki ennþá af, upplifa bæði góðar og vondar tilfinningar sem er hægt að vinna rétt úr.

Allir dagar síðan í byrjun desember hafa verið þeir erfiðustu sem eg hef upplifað en samt allir mis erfiðir, það komu góðar stundir, stundum mjög góðar og eftir svoleiðis daga grét ég lengi og skyldi ekki hversvegna lífið gæti ekki alltaf verið svona!

Þessir dagar og mánuðir liðu en urðu samt alltaf eitthvað betri, ég fann alltaf fyrir meiri hamingju. Þangað til þriðjudagskvöldið 27. mars þegar ég gafst upp, það var ekki bara einhver einn hlutur, það voru allar tilfinningar blandaðar saman sem sprungu. Ég fannst meðvitundarlaus í rúminu mínu morguninn eftir, litli líkami minn þoldi ekki magnið af lyfjum sem ég hafði tekið.

Útskrifaðist af gjörgæslu fimmtudaginn 29.mars ennþá alveg rænulaus enda man ég ekki neitt. Svaf heima að mig minnir í 17 klukkutíma, þegar ég vaknaði endurtók ég þetta bara, enn og aftur þoldi líkaminn ekki magnið af lyfjunum. Lá enn og aftur í sólarhring á gjörgæslu, heimkoman ekki góð eftirköstin hræðileg ennþá leið mér illa og sérstaklega illa yfir hvað eg hræddi mína nánustu mikið.
Ég tók þá stórt skref, stærsta skref sem ég hef tekið í lífi mínu, ég leitaði mér hjálpar og fékk pláss á geðdeild. Ég er svo ótrúlega stolt af sjálfri mér að taka þetta skref, þið sem eruð/hafið upplifað svipaða líðan vitið hvernig það er að taka stórt skref á að sigrast á baráttunni.

Ekki hræðast geðdeildina, þetta er hlýjasti og rólegasti staður sem þú munnt finna. Starfsfólkið frábært!

Allar mínar þakkir eiga þeir nánustu sem aldrei gáfust upp á mér.

Ég skrifa þetta í þeim tilgangi að opna augun fyrir fólki, hrósaðu, bjóddu góðan dag, segðu bara eitthvað frá hjartanu, þú veist aldrei hver þarf hjálp og þorir ekki að kalla á hana. Verum góð við hvort annað.

Sjá einnig: Ég eyddi viku á geðdeild

UMMÆLI

Sambíó