36 prósent segjast hafa heyrt hljóðið dularfulla

36 prósent segjast hafa heyrt hljóðið dularfulla

Dularfullt hljóð sem heyrst hefur á Akureyri hefur vakið athygli undanfarið. Fjallað hefur verið um hljóðið í fréttum í dag og í gær en Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, vakti athygli á hljóðinu í stöðuuppfærslu á Faebook síðu sinni.

Margar tilgátur eru til um hvað valdi hljóðinu en engin þeirra hefur verið staðfest enn. Á Vísi.is í dag segir að fyrst hafi verið fjallað um málið árið 2014 í Akureyri vikublaði, þar sem því var líkt við draugahljóð, og það sagt halda vöku fyrir Akureyringum.

Í frétt á vef RÚV í dag segir að skútan Vera sem hefur legið við Pollinn á Akureyri í sumar beri hugsanlega sök á hljóðinu en eigandi hennar hafði samband við fréttastofu eftir að fjallað var um málið í kvöldfréttum í gær.

Það er ljóst að margir hafa heyrt í hljóðinu en í skoðanakönnun á Facebook síðu Akureyrarbæjar er spurt hvort að Akureyringar hafi orðið varir við „Akureyrarsóninn“. Þegar þetta er skrifað hafa 674 einstaklingar tekið þátt í könnuninni og 36 prósent segjast hafa heyrt hljóðið.

UMMÆLI