5 ástæður til að heimsækja Norðurland

Yahoo News hefur tekið saman lista með 5 ástæðum hvers vegna Norðurland Íslands sé tilfalinn áfangastaður fyrir ferðamenn árið 2018.

Það er nú þegar fullt af ástæðum til þess að gera sér ferð norður, einstök náttúra, töfrandi landslag og vinalegt andrúmsloft, en túristar streyma þó aðallega að höfuðborginni. Akureyri hefur margt upp á að bjóða í aðeins minna umhverfi, lifandi tónlist, list, hótel og veitingastaði ásamt því að stutt er í ýmsar náttúruperlur þaðan en listinn fyir neðan samanstendur af þeim 5 vinsælustu.

1.Slakaðu á í kari fullu af bjór, Bjórböðin Árskógssandi

Í aðeins 40 mínútna fjarlægð frá Akureyri eru Bjórböðin á Árskógssandi. Þar liggur þú í stóru keri, sem fyllt er af bjór, vatni, humlum og geri. Eftir 25 mínútur ferður úr baðinu og í slökunarherbergi í aðrar 25 mínútur. Það er í boði að fara einn eða tveir saman. Bjórböðin eru bæði mjög hreinsandi fyrir húðina og hafa mjög jákvæð áhrif á heilsuna.

Staðsetningin er einstaklega heppileg líka en á útisvæðinu er útsýni í allar áttir um fjörðin fagra, Hrísey, Kaldbak, Þorvaldsdalur og Múlinn.

2.Hvalaskoðun

Hvalaskoðanir eru án efa vinsælustu dagsferðir hjá ferðamönnum sem ferðast til landsins og boðið er upp á hvalaskoðanir víðsvegar um landið. Hér á norðurlandinu er tilvalið að skella sér í hvalaskoðun á Dalvík hjá Arctic Sea Tour’s Whale Safari.

Í ferðinni hefur þú einstaklega góða möguleika á að verða vitni af dansandi hvölum og höfrungum, hver hefur ekki gaman af því?

3.Uppgötvaðu íslenska tónlistarhæfileika

Hér fyrir norðan iðar tónlistarlífið hvort sem það er í menningarhúsinu Hofi, Græna Hattinum eða í verslunum miðbæjarins, en í Hofi er hægt að nálgast einstaklega glæsilegar sýningar, hvort sem um tónleika eða leikrit er að ræða.

Græni Hatturinn stendur ávalt fyrir sínu en þar hafa flestir af okkar ástsælustu tólistarmönnum haldið tónleika og skapa einstaklega skemmtilega stemningu í gömlu húsi í hjarta miðbæjarins. Ekki má gleyma að tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves sem haldin er í lok hvers árs og hefur nýlega verið haldin á Akureyri á hinum ýmsu stöðum um bæinn.

4.Goðafoss

Goðafoss er í Skjálfandafljóti skammt frá bænum Fosshóli í mynni Bárðardals þar sem dalurinn mætir Ljósavatnsskarði og Kaldakinn. Goðafoss er einn þekktasti foss landsins og kemur þar til fegurð hans, aðgengi og söguleg tenging.

Goðafoss er meðal stærstu fossa á Íslandi og þykir jafnframt einn sá fallegasti. Hann er formfagur og einkar myndrænn og ætti varla að fara fram hjá nokkrum sem þarna á leið um.

5. Mývatn

Einn af mest heimsóttu stöðum landsins er Mývatn og ekki er það að ástæðulausu, Grjótagjá, Hverafjall, Ásbyrgi, Hverströnd og Jarðböðin er allt í nágrenni við vatnið. Það er draumi líkast að keyra í kringum Mývatn að sumri til, en vatnið er fjórða stærsta stöðuvatn Íslands, um 37 ferkílómetrar að stærð. Frá því sögur hófust hefur Mývatn og ótrúleg náttúran umhverfis það heillað jafnt vísindamenn sem náttúruunnendur hvaðanæva úr heiminum og verið meðal þeirra staða sem flesta langar til að heimsækja, skoða og kanna.

Í Mývatnssveit og nágrenni er þvílíkur fjöldi af náttúruperlum svo að ógerlegt er að gera þeim öllum skil hér, enda erfitt að lýsa þeirri fegurð sem umlykur mann á alla vegu í Mývatnssveit, þú þarft einfaldlega að fara þangað!

 

UMMÆLI

Sambíó