68‘ árgangurinn gaf Grófinni tæpar 400 þúsund krónur að gjöfÁrgangur 68' fagnaði fimmtugsafmælinu í ágúst.

68‘ árgangurinn gaf Grófinni tæpar 400 þúsund krónur að gjöf

Það hefur skapast hefð fyrir því árlega að fólk úr grunnskólum á Eyjafjarðarsvæðinu hittist til að fagna 50 ára afmæli og gera sér glaðan dag til að fagna áfanganum. Í ár er það árgangur 68‘ sem fagnar 50 ára afmæli á árinu og hittust á Akureyri um síðustu helgi og fögnuðu saman. Góð mæting var þar sem alls 130 manns komu saman úr fjölmörgum grunnskólum, þ.á.m Gagganum, Glerárskóla, Oddeyrarskóla, Hrafnagilsskóla og Þelamerkurskóla.

Hefð fyrir því að styrkja gott málefni á afmælinu
Það hefur skapast hefð fyrir því að árgangar á Akureyri sem fagna 50 ára afmæli styrki gott málefni á sama tíma og þeir gera sér glaðan dag. Undanfarin ár hefur Krabbameinsfélag Akureyrar fengið peningagjöf en í ár ákvað 68‘ árgangur að styrkja Grófina – Geðverndarmiðstöð um 372.000 krónur.
„Við ákváðum að styrkja Grófina í ár. Kannski í ljósi þess að sú starfsemi hefur verið í fjársvelti alltof lengi og mjög margir sem treysta á að sú starfsemi haldist gangandi á Akureyri. Veit fyrir víst að þau bjarga mannslífum,“ segir Guðrún Jónsdóttir, ein þeirra sem fagnaði fimmtugsafmælinu í ár.

Ásthildur fékk treyju að gjöf frá árganginum.

Gáfu bæjarstjóranum ÞÓR/KA treyju að gjöf
Nýráðinn bæjarstjóri, Ásthildur Sturludóttir, mætti í veisluhöld árgangsins um kvöldið og flutti stutta ræðu. Árgangurinn vildi vitaskuld gefa henni gjöf líka og færðu henni ÞÓR/KA treyju að gjöf. Ásthildur er uppalin á Stykkishólmi og starfaði síðast sem bæjarstjóri í Vesturbyggð. Hún er því nýflutt til Akureyrar en hefur nú fengið fótboltatreyju að gjöf svo að hún geti borið sig sem heimamaður, að sögn árgangsins. „Við buðum bæjarstjóranum að starta kvöldinu með stuttri ræðu í Hofi og gáfum henni ÞÓR/KA treyju. Bara svona til að leiðbeina henni hvaða liði hún ætti að halda með hérna á Akureyri,“ segir Guðrún létt í bragði í samtali við Kaffið.

Bæjarstjórinn startaði kvöldinu hjá 68′ árgangnum með stuttri ræðu.

UMMÆLI