Að sá fræjum

Að sá fræjum

Hver hefur ekki sett niður kartöflur að vori, fylgst með grösunum spretta yfir sumarið og notið síðan uppskerunnar að hausti og jafnvel yfir allan veturinn? Hver hefur ekki sáð fræi sem varð að fallegu blómstrandi blómi?

.

Hver þekkir ekki sögu af barni sem hlaut gott atlæti í uppvexti sínum og varð að góðum samfélagsþegn sem skipti miklu upp á gleði og gott gengi allra í samfélaginu. Hverjum er ekki umhugað um að fólki almennt vegni vel í lífinu og hver leggur ekki einhvern tíman á lífsleiðinni sitt af mörkum til að gera líf annarra örlítið bærilegra og gleðiríkara.

.

Sögur eru ekki allar eins og það eru ekki allir sem sá fræjum friðar, samstöðu og réttlætis. Sumir vilja einfaldlega stærri bita af kökunni en aðrir og svífast einskis.

.

Einu sinni var maður að nafni Nathan Mileikowsky. Hann fæddist árið 1879 í borginni Kreva sem þá tilheyrði Rússlandi en er nú hluti af Belarús. Á unglingsárunum sótti hann gyðingaskóla eins og alvanalegt var fyrir fólk í hans samfélagi. En það sem var tiltölulega nýtt á þeim tíma var hugmyndafræði sem kölluð var síónismi.

.

Það er nefnilega þannig að í grunninn er gyðingatrú þannig að gyðingum er ætlað að búa í sátt og samlyndi með öðru fólki, sama hvort það er fólk sem aðhyllist sömu trú eða fólk sem fer aðra leið í lífinu með að iðka sína trú á sinn Guð.

.

En þessi umræddi unglingsstrákur kynntist síónisma þegar hann var í gyðingaskólanum sínum. Hann ólst upp við fræ síónismans og þessi fræ festu rætur í huga hans og hjarta. Hann vildi segja öllum sem hann hitti frá þessari hugmyndafræði og fór í kynnisferðir, m.a. til Síberíu, aðeins tvítugur að aldri til að boða þennan boðskap út.

.

Þegar hann var 24 ára gamall, árið 1903, fór hann á sjötta síónista þingið sem haldið var. Ekki fyrsta og ekki annað heldur sjötta í röðinni! Þannig að þið skiljið að síónismi á sér djúpar rætur langt aftur fyrir aldamótin 1900.

.

Á þessu þingi var ungverski blaðamaðurinn Theodor Herzl sem gaf út bókina Gyðingaríkið árið 1896. Hann taldi gyðinga nefnilega ekki þurfa að búa í samfélagi með öðru fólki sem aðhylltist önnur trúarbrögð og vildi meina að gyðingar ættu rétt á sínu eigin landi, fyrirheitna landinu.

.

Talandi um að vilja stærri bita af kökunni!

.

En á þessum tíma var ekki búið að finna út úr því hvar þetta fyrirheitna land átti að vera staðsett í heiminum. Þeir voru enn að leita að hentugum stað. Á þessu þingi kynnti Theodor áform um að stofna ríki gyðinga í Úganda, sem nú er hluti af Kenya. En hinn 24 ára gamli Nathan og fleiri á þessu þingi voru mótfallnir þeim áformum og þar sem Theodor lést ári síðar fóru þau áform út um þúfur.

.

Nathan Mileikowsky ferðaðist um Bandaríkin og boðaði þar hugmyndafræði síónista vítt og breytt og fylgismenn þeirra héldu áfram leit sinni að hentugum stað fyrir fyrirheitna landið.

.

Árið 1908 flutti Nathan með fjölskyldu sína til Póllands þar sem hann hélt uppteknum hætti og kenndi í háskólum, starfaði í sýnagógum og það sem er svolítið merkilegt er að hann kenndi á hebresku. Samkvæmt syni hans sem fæddist í Póllandi árið 1910 voru þau fjölskyldan ein af fáum fjölskyldum í heiminum sem töluðu hebresku. En Nathan náði að stórefla kunnáttu á hebresku meðal almennings og sá um leið ansi mörgum fræjum um hugmyndafræði síónisma.

.

Það var síðan árið 1917 sem Bretar lofuðu gyðingum stuðningi sínum um stofnun þjóðarheimilis gyðinga í Palestínu og gengur sá samningur undir heitinu Balfour-yfirlýsingin. Árangur erfiðis síónista var farið að bera árangur og árið 1920 flutti Nathan með fjölskyldu sína frá Póllandi til Palestínu. Þarna var kominn staður fyrir hið fyrirheitna land gyðinga.

.

Þegar hér er komið sögu finnst mér mikilvægt að fólk átti sig á því að þó svo að fólk hafi verið gyðingatrúar er alls ekki víst að það hafi endilega aðhyllst hugmyndafræði síónistanna eða verið meðvitað um fyrirætlanir þeirra.

.

En Nathan naut þess að vera kominn til Palestínu sem var í hans huga hið eina sanna fyrirheitna land og fyrir utan störf hans í menntastofnunum og sýnagógum hélt hann ótrauður áfram að kynni hugmyndafræði síónismans og sækjast eftir styrkjum fyrir gyðinganýlendurnar bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann skrifaði einnig áróðursgreinar í blöð og í Palestínu fór hann að nota nafnið Netanjahú. Það er hebreska útgáfan af skírnarnafninu hans. Nathan og kona hans eignuðust níu börn og fjöldann allan af afkomendum.

.

Forsætisráðherrann núverandi í Ísrael er sonarsonur þessa Nathans. Svona geta ömmur og afar sáð fræjum og haft áhrif á barnabörnin sín. Rétt eins og foreldrar, en pabbi forsætisráðherrans núverandi í Ísrael fetaði sömu slóð og pabbi hans. Hann fæddist í Póllandi og var orðinn 8 ára við komuna til Palestínu. Hann lærði m.a. í hebreska háskólanum sem Albert Einstein tók þátt í að setja á fót ásamt fleirum. Hann boðaði líka hugmyndafræði síónista og kenndi bæði við menntastofnanir í Ísrael og í Bandaríkjunum. Hann aðhylltist þá hugmyndafræði að gyðingaríkið ætti sér stað beggja vegna Jórdanárinnar. Þannig að ef að líkum lætur eiga Ísraelar líka eftir að hernema Jórdaníu, í framhaldi af hernáminu sem nú á sér stað í Palestínu og Líbanon!

.

Síónisminn er því ekki trúarlegt fyrirbrigði í sjálfu sér og gyðingatrú er ekki kjarninn í þessari hugmyndafræði. Síónismi er pólitískt hreyfiafl og hefur ítök víða um heim, sérstaklega í Bandaríkjunum og m.a. þess vegna er Ísraelum mögulegt að halda landráninu endalaust áfram í mið-Austurlöndum.

.

Núverandi forsætisráðherra Ísraels elst því upp í hugmyndafræði síónismans. Hann elst upp við þessi fræ sem var sáð fyrir aldamótin 1900, fyrir um 130 árum síðan. Uppskeran er illræmd og hrikaleg. Við sjáum öll á samfélagsmiðlum hversu hræðilegar afleiðingar rotin fræ geta haft á heimsmyndina, heimsfriðinn og réttlætið.

.

Eftir seinni heimsstyrjöldina fengu gyðingar eðlilega mikla samúð og allir vildu gera allt sem í þeirra valdi stóð til að gera þeim lífið bærilegra, veita þeim öryggi, skjóta yfir þá skjólshúsi. Eða næstum allir! Íslendingar neituðu að vísu hópi gyðinga um heimili. En Palestínumenn tóku vel á móti gyðingunum og hleyptu þeim inn á heimili sín. Í lok seinni heimsstyrjaldarinnar voru gyðingar sem bjuggu fyrir botni Miðjarðarhafs orðnir um 600 þúsund.

.

Árið 1948 var Ísraelsríki svo stofnað. Aðeins einum degi áður en Bretar fóru formlega frá stjórn á þessu svæði. Ísraelsríki var þá ætlað að yfirtaka 55% af allri Palestínu. Þið munið, síónistarnir vildi stærri bita af kökunni. Palestínumenn sem höfðu átt þarna heima svo lengi sem elstu heimildir herma stukku ekki á þetta kosta boð að láta sig einfaldlega hverfa, víkja fyrir nýlendum gyðinga. Fólk flutti ekki bara sjálfviljugt til nágrannalanda eins og t.d. Jórdaníu. Nei, þarna átti sér stað upphafið af þjóðarmorðum Ísraela á Palestínufólki og hinu óforkastanlega landráni. Þessa atburði köllum við Hörmungarnar miklu eða Nakba. Þá voru myrt og/eða hrakin á flótta hátt í milljón manns sem tvístruðust út um allan heim. Og móttökurnar sem fólkið fékk í þessum löndum voru æði misjafnar. Þið getið ímyndað ykkur fólk sem er þjakað af áfallastreituröskun, búið að missa fjölskyldumeðlimi, foreldra sína, börnin sín, jarðnæði, búfénað, lífsviðurværi og koma að lokuðum dyrum víðsvegar um heiminn eða safnað saman eins og kindur í réttir og geymt þar, án atvinnu, án sálfræðiaðstoðar. Á þessum tíma voru líka engir samfélagsmiðlar og því gátu Ísraelar eða her síónista gengið þorpa á milli og hrakið fólk frá heimilum sínum og drepið þá sem voru tregir til að yfirgefa svæðið, án þess að umheimurinn vissi mikið um það. Þessi fjöldi, hátt í milljón manns, samsvarar tvisvar sinnum fjölda íslensku þjóðarinnar í dag!

.

Sagan er löng og fjöldamörg atriði hafa áhrif á söguna. Hér er ég einfaldlega að benda á hvernig lítill snjóbolti getur orðið að snjóflóði eða jafnvel aurskriðu þegar við gætum ekki að okkur. Það skiptir miklu máli hvernig fræjum við sáum í kringum okkur. Það er okkar allra að standa með mannréttindum hvar sem er, á Íslandi, sem annars staðar í heiminum. Það er okkar allra að sýna samstöðu með palestínsku þjóðinni, með líbönsku þjóðinni og öllum þeim þjóðum sem þeir valdameiri eru að níðast á. Það er engum ætlað að fá stærri bita af kökunni en annar því það mun alltaf kosta líf og gríðarlegar hörmungar, sem mun taka heilu mannsaldrana að leiðrétta í sálarlífi fólks.

.

Svo við nefnum nú ekki loftslagsmálin. En í heiminum ríkir krísa í loftslagsmálum með afleiðingum á borð við flóð sem eyðileggja heimili, jarðir og lífsviðurværi fólks, skemmir matarforða og veldur hungursneyð, farsóttum og eyðileggingu víðsvegar ásamt gríðarlegri mengun. Sprengjurnar sem Ísraelar varpa út og suður í Palestínu, bæði á Gaza og á Vesturbakkanum, yfir til Líbanon, Sýrlands og fleiri staði eru stórhættulegar fyrir jörðina alla, jörðina okkar. Loftslagskrísan er vegna þessa í alvarlegum veldisvexti og því er mikilvægt að við látum rödd okkar heyrast sem víðast því að þetta hefur allt saman á endanum áhrif á okkur öll, okkur sjálf, börnin okkar og komandi kynslóðir.

.

Það er okkar að sá fræjum friðar og réttlætis og standa alltaf, alltaf með mannréttindum og virðingu fyrir jörðinni.

.

Allir vilja geta lifað í friði heima hjá sér og allir vilja geta séð fyrir sér og sínu fólki, enginn velur að leggja á flótta, lenda á vergangi og vera upp á aðrar þjóðir og hjálparstarf kominn.

.

Hlúum vel hvert að öðru, á jörðinni allri, þvert á öll landamæri.

.

Takk.

.

Jóhanna Dögg Stefánsdóttir.

VG

UMMÆLI