Að vera karlmaður, ekkert mál!

Heimir Haraldsson skrifar:

Fyrir nokkru hlýddi ég á fyrirlestur þar sem kom fram að stór hluti heimilisstarfa væri enn á herðum kvenna. Í einfaldaðri mynd er það þannig að þegar kona stimplar sig út úr sinni launuðu vinnu bíður hennar annað starf á heimilinu í mishárri prósentu en allt að 70 % starfi. Karlar vinna síður hlutastörf en konur á Íslandi og ef þeir vinna hlutastarf er það yfirleitt vegna þess að þeir fá ekki fullt starf. Ástæðan sem konur nefna fyrir því að þær vinni hlutastarf er fjölskylduástæður.

##Staðalímyndir og tilfinningalegt rými

Getur verið að konur þiggi frekar hlutastarf en karlar þar sem ekki ríkir jafnrétti milli kynjanna með heimilisverkin? Getur verið að við sem samfélag náum ekki að fullu jafnrétti á vinnumarkaði á meðan ekki ríkir jafnrétti inni á heimilunum varðandi störfin þar? Erum við karlmenn íhaldssamari þegar kemur að heimilisstörfum eða höfum við minna tilfinningalegt rými til að brjótast út úr staðalímyndum um hlutverk kynjanna? Margir af kynbræðrum mínum telja sig vera jafnréttissinna þegar við ræðum jafnrétti kynjanna. Eitt er að vilja jafnrétti en annað mál er að gera eitthvað í málunum og þar þurfum við karlmenn að bretta upp ermarnar.

##Áfram jafnrétti

Eitt af stefnumálum Samfylkingarinnar er stytting vinnuvikunnar til þess að auðvelda fólki að samræma vinnu og einkalíf. Til þess að ná jafnrétti á vinnumarkaði þurfa heimilisstörfin að vinnast í samvinnu kynjanna. Þegar það gerist þokumst við nær jafnrétti, ekki fyrr. Áfram jafnrétti. Áfram Akureyri.

Heimir Haraldsson

Höfundur situr í þriðja sæti lista Samfylkingar

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó