Áslaug Kristjánsdóttir lét nýverið af störfum hjá Akureyrarbæ vegna aldurs en hún hefur síðastliðin 40 ár unnið með fötluðu fólki, nú síðast í þjónustukjörnum fyrir fólk með geðraskanir. Rætt er við Áslaugu á vef bæjarins í dag.
Áslaug segir lykilatriði að hafa gleðina í fyrrirúmi í starfi sínu og að vera heiðarlegur við sjálfan sig og aðra. Hún hóf störf hjá Akureyrarbæ árið 1997, fyrst í Hæfingarstöðinni og síðan í búsetuþjónustu fyrir geðfatlaða. Undanfarin ár hefur hún verið í hlutastarfi hjá bænum meðfram vinnu á starfsbraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri.
„Ég á sjálf bróður sem er með geðsjúkdóm og það gæti verið ein af ástæðunum fyrir því að ég hef fundið mig í þessu. Það hefur alltaf verið ofboðslega gaman að vinna með fólki með geðraskanir – þetta eru englar alheimsins! Auðvitað er þetta veikt fólk en þetta er gott fólk og fyrir mér var þetta alltaf gaman. Ég hef mikinn áhuga á fólki og hegðun fólks. En aðalatriðið er að vera glaður í vinnunni og að vera heiðarlegur gagnvart samstarfsfélögum og sjálfum sér,“ segir Áslaug en ítarlegt viðtal við hana má nálgast á vef bæjarins með því að smella hér.
UMMÆLI