Aðeins 70% nemenda sem sóttu um fengu samþykkta skólavist í Háskólanum á AkureyriHáskólinn á Akureyri. Mynd: Auðunn Níelsson.

Aðeins 70% nemenda sem sóttu um fengu samþykkta skólavist í Háskólanum á Akureyri

Umsóknir um nám við Háskólann á Akureyri fyrir skólaárið 2018/2019 slógu öll fyrri met og var endanleg tala umsókna 2083. Þann 3. júlí síðastliðinn var búið að samþykkja 1531 umsókn en 552 umsækjendum hefur verið synjað eða þeir ekki sent inn fullnægjandi gögn með umsóknum sínum.  Það eru því einungis 74% umsækjenda sem fá boð um skólapláss. Í þessu felst mikil stefnubreyting frá fyrri árum og ljóst að stjórnvöld þurfa að gefa skýr skilaboð um það hvernig takast eigi á við umframeftirspurn eftir námi við Háskólann á Akureyri.

296 umsóknum skilað inn án fullnægjandi gagna

Fyrri greiðslufrestur fyrir nemendur sem hafa fengið boð um skólavist var 10. júlí sl., en fyrir þá sem ekki greiddu fyrir þann tíma er mögulegt að greiða, með álagi, seinni greiðslufrest sem er 10. ágúst. Endanleg tala um fjölda nemenda sem hefja nám við HA í haust verður því ekki ljós fyrr en um miðjan ágúst.

Af 552 umsóknum sem ekki hafa verið samþykktar var 286 skilað inn án fullnægjandi gagna en öðrum hefur verið hafnað þar sem viðkomandi hefur ekki uppfyllt kröfur um einingafjölda frá framhaldsskólum, úr verknámsskólum eða öðru námi sem stundað er á framhaldsskólastigi.

Aðeins 70% nemenda sem sóttu um fengu samþykkta skólavist

„Því miður gátum við einungis boðið 70% af þeim sem sóttu um skólavist. Það kemur svo í ljós um miðjan ágúst hversu margir ákveða að þiggja boðið og mæta til náms. Meginástæðan er skortur á fjármagni.  Til þess að unnt sé að taka við fleiri nemendum þurfum við að geta ráðið fleira starfsfólk, bæði akademíska starfsmenn sem og starsfólk í stoðþjónustu.  Að fjölga starfsfólki og styrkja mannauðinn tekur hinsvegar tíma og því verður jafnframt að liggja fyrir frá stjórnvöldum heildarstefna um fjölda háskólanema fyrir landið allt, og fjármögnun þeirra til langs tíma litið.  Ekki er nóg að setja peninga inní kerfið í eitt skipti heldur verður að vera um varanlega hækkun fjármuna að ræða,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri í samtali við Kaffið.

Þurfa að ráða allt að 50 starfsmenn til skólans til að anna eftirspurn

Eyjólfur Guðmundsson staðfestir í samtali við Kaffið að Háskólinn á Akureyri þurfi allt að 50 nýja starfsmenn til að anna eftirspurn. Um þessar mundir eru nokkrar ráðningar í ferli til að takast á við brýnasta vandann. „Við þurfum skýrari svör frá stjórnvöldum til þess að geta farið í aðgerðir sem auka og styrkja mannauðinn við Háskólann á Akureyri eins og hann er í dag með það námsframboð og rannsóknir sem nú eru stundaðar við skólann.  Stjórnvöld verða því að boða breytingu á fimm ára fjármálaáætlun og almenna hækkun til háskólans á Akureyri svo unnt væri að byrja að fylla í þau skörð þar sem vantar fleira starfsfólk,“ ítrekar Eyjólfur.

UMMÆLI