Aðsóknarmet slegið í Sundlaug Akureyrar árið 2019

Aðsóknarmet slegið í Sundlaug Akureyrar árið 2019

Árið 2019 voru gestir í Sundlaug Akureyrar tæplega 444 þúsund. Aldrei hafa fleiri gestir sótt sundlaugina á einu ári en gestum fjölgaði um tæplega 13 þúsund frá árinu 2018. Þetta kemur fram á vef bæjarins.

Aðsókn í laugina síðustu tíu ár hefur að meðaltali verið um 369 þúsund gestir á ári. Fjöldinn í fyrra er því um 75 þúsundum umfram meðaltalið.

Nú hefur aðsóknarmetið í lauginni verið slegið fjögur ár í röð en eins og kunnugt er hafa verið gerðar miklar endurbætur á sundlaugarsvæðinu síðustu ár. Þrjár nýjar rennibrautir og nýir pottar hafa litið dagsins ljós, auk ýmissa lagfæringa.

Á vef Akureyrarbæjar segir að ljóst sé að uppbyggingin hafi haft í för með sér auknar vinsældir, bæði á meðal heimamanna og ferðamanna. Það verði að teljast jákvætt.

UMMÆLI

Sambíó