„Ætlunin var aldrei að flytja norður en mér fannst bílasalan svo flott uppsett og vel rekin að ég stóðst ekki mátið“

„Ætlunin var aldrei að flytja norður en mér fannst bílasalan svo flott uppsett og vel rekin að ég stóðst ekki mátið“

Bílasala Akureyrar opnaði dyr sínar árið 1994 og hefur staðið að Freyjunesi 2 síðan árið 2000. Hún var stofnuð af Þorsteini Ingólfssyni sem rak söluna allt til ársins 2020, þegar Sigurður Ragnar Arnarsson tók við keflinu. Í dag eru starfsmenn 3 talsins, Sigurður sjálfur, Níels Þóroddson sölumaður og Andrii Chuprin frá Úkraínu á verkstæðinu en þeir eru um þessar myndir að leita sér að nýjum sölumanni til að slást í hópinn.

Sigurður, eða Siggi eins og hann er kallaður, er fæddur og uppalinn í Reykjavík og hefur langa reynslu af bílasölu úr höfuðborginni. Hann hafði lengi stefnt að eigin rekstri en þegar tækifæri gafst til að flytja norður og taka við Bílasölu Akureyrar sló hann til. „Faðir minn er fæddur og uppalinn Akureyringur svo ég hef rætur að rekja hingað og var tíður gestur hjá Ömmu Ásu í Helgamagrastræti. Ætlunin var aldrei að flytja norður en mér fannst bílasalan svo flott uppsett og vel rekin að ég stóðst ekki mátið“ segir Siggi og brosir.

Í dag er bílasalan með söluumboð á nýjum bílum frá bílaumboðinu BL og selur einnig notaða bíla og tæki af öllum gerðum. „Ég reyni að hafa planið hjá mér eins fjölbreytt og lifandi og mögulegt er. Það á að vera skemmtilegt að taka bílasölurúntinn. Mér finnst líka gaman að geta boðið venjulegu fólki vettvang til að selja bílinn sinn, því bílasölur í dag eru oft fullar af þeirra eigin bílum eða bílaleigubílum,“ segir Siggi.

Andrúmsloftið á staðnum er létt og heimilislegt. Meðan þeir Siggi og Níels spjalla við mig, mæta viðskiptavinir inn á gólfið. Samtalinu er slegið á frest um stund og þeir félagar sinna viðskiptavinum af sömu rólegheitunum á meðan ég sit og sýp á bragðgóðu kaffinu sem þeir buðu mér. Um leið og færi gefst halda þeir samtalinu áfram eins og ekkert hafi í skorist. Ég spyr þá út í samband við viðskiptavini og hvernig því er háttað? „Oftast erum við að hitta fólk í fyrsta skipti. Með árunum hefur samt fjöldi fastakúnna flykkst að okkur og gleður alltaf þegar kunnugleg andlit láta sjá sig að nýju,“ segir Siggi.

Siggi útskýrir fyrir mér muninn á því að starfa í Reykjavík og á Akureyri. Ójafnvægi hafi verið á milli fjölskyldulífs og vinnu og fjölskyldan hafi oft fengið að víkja til hliðar:

„Fyrir sunnan er mun meiri hávaði og þá meina ég ekki eingöngu í þessum bókstaflega skilning. Í borginni getur myndast mjög stressandi umhverfi sem stelur dálítið einbeitingunni af þér, traffíkin er mikill tímaþjófur og stundum erfitt að njóta hlutanna sem skipta máli og sinna þeim verkefnum sem eru brýnust.“ Hér á Akureyri hefur hann mun meiri tíma fyrir fjölskylduna og getur mætt á viðburði í skólanum hjá dætrum sínum tveimur og syni án þess að finna fyrir nokkru stressi í vinnunni. Dæturnar eru fæddar fyrir sunnan en hann segir soninn innfæddan Akureyring og nú séu þau öll komin með KEA kortið og hlær.

Hann rifjar upp sögu frá því þegar hann var nýfluttur og var að fóta sig í nýju umhverfi. Það kyngdi niður snjó einn morguninn og hann mætti tveimur tímum of seint í vinnuna, eftir að hafa barist í gegnum fannfergið. Þegar hann loks mætir þá er salan tóm. Svörin sem hann fékk frá Steina, fyrrum eiganda, sem furðaði sig á því að Siggi væri mættur, voru „fólk er venjulega bara heima á svona dögum“. Honum líkaði þetta afslappaða viðhorf og fannst frískandi að sjá fólk gefa sig dálítið á náðir náttúruaflanna.

Siggi segir fleiri sögur og viðurkennir að fólk hafi ekki endilega tekið honum opnum örmum í fyrstu. Hann var maðurinn úr höfuðborginni, sérfræðingur að sunnan. „En um leið og fólk sér að manni er alvara og kominn til að vera, þá snýst þetta alveg við. Akureyringar verða ótrúlega greiðviknir og jákvæðir fyrir vikið,“ útskýrir hann.

Talið berst að rekstrinum sjálfum og því sem kemur viðskiptavinum oft á óvart er hversu hratt ferlið getur verið. Frá því að viðskiptavinur ákveður að kaupa bíl og þar til hann ekur kátur í burtu geta liðið einungis 10-15 mínútur, þar með talið eigendaskipti og greiðsla. Mikilvægt er að greina þarfir viðskiptavina rétt í upphafi svo þeir endi ekki aftur á bílasölunni nokkrum mánuðum seinna í leit að hentugri bíl.

„Oft er fólk búið að mikla bílakaup fyrir sér og þetta virðist stundum vera byrði á herðum fólk en í raun er þetta sáraeinfalt. Níels tekur undir og bætir við: „Það er ótrúlega gaman að koma fólki á óvart hversu fljótur maður er að leysa bílavandamálin þeirra þegar það er búið að draga það á langinn í kannski marga mánuði.“

Undir lok samtalsins berst talið óhjákvæmilega að stærsta málinu í íslenskri bílamenningu: Hvort bílar á Akureyri séu í betra ásigkomulagi en þeir fyrir sunnan. Þeir félagar samsinna því að bílar utan höfuðborgarsvæðisins séu eftirsóttir og að margir úr Reykjavík leiti norður í bílaleit. Níels, skýtur þá inn að hér megi sjá bíla sem eru nánast horfnir af götunum annars staðar. Hann rifjar upp þegar hann sá um daginn gamlan Toyota Tercel á ferli sem hann hélt að væru horfnir af götum landsins.

Eflaust hefði verið hægt að spjalla við þá herramenn tímunum saman en viðskiptavinirnir fóru streyma inn og nauðsynlegt að leyfa þeim að sinna þeim. Undir lokin þá er hér hægt að sjá þá bíla sem þeir hafa til sölu https://www.bilak.is/ einnig er hægt að kíkja til þeirra í kaffibolla.

UMMÆLI