Tónlistarmaðurinn Ágúst Þór Brynjarsson gefur út nýtt lag á miðnætti þriðjudaginn 11. júní. Lagið er það þriðja sem hann gefur út á árinu ásamt laginu Eins og Þú sem hann keppti með í Söngvakeppninni og dúettnum Bara ef þú vissir sem hann gaf út í vor með Klöru Einarsdóttir.
Nýja lagið heitir Á leiðinni og fjallar bæði um síðustu mánuði hjá Ágústi og um tilfinninguna að elta drauma sína en á sama tíma þurfa að fórna öðrum hlutum.
„Lagið var í raun samið daginn fyrir 3 ára afmæli sonar míns, sem ég var þá að fara missa af út af óveðri. Öll flug lágu niðri og ég var í bænum að spila, og var ekki að fara komast heim. Sem betur fer náði ég síðasta fluginu áður en óveðrið skall á og komst heim í tæka tíð,“ segir Ágúst.
„Tilfinningin að vera einhversstaðar, en samt að drífa sig á næsta stað, geta margir tengt við þar sem við Íslendingar erum alltaf að flýta okkur og í kappi við tímann eða næstu verkefni. Ég get svo sannarlega tengt við það að reyna að halda mörgum boltum á lofti og því kom textinn að þessu lagi bara flæðandi upp úr mér.“
Lagið er samið af Ágústi og Akureyringnum Hákoni Guðna Hjartarsyni. Halldór Gunnar úr Fjallabræðrum spilar á gítar inn á lagið, það er mixað af Sæþóri Kristjánssyni og Ben Pramuk masteraði.
Það verða áfram nokkrir boltar á lofti hjá Ágústi á næstunni en í næstu viku gefur hann út annað lag með Jóni Jónssyni fyrir Norðurálsmótið í knattspyrnu. Það lag samdi Jón Jónsson og Ágúst mun flytja það. Það verður frumflutt á Akranesi þann 21.júní á setningarhátíð Norðurálsmótsins og kemur á Spotify föstudaginn 13.júní.
UMMÆLI