Áhrif hertra aðgerða á þjónustu Akureyrarbæjar

Áhrif hertra aðgerða á þjónustu Akureyrarbæjar

Hertar sóttvarnaráðstafanir taka gildi um allt land laugardaginn 31. október og hafa ýmis konar áhrif á þjónustu Akureyrarbæjar. Á vef Akureyrarbæjar hefur verið birt ítarleg kynning á því hvaða áhrif sóttvarnarráðstafanirnar munu hafa á starfsemi og þjónustu bæjarins.

„Gegnumgangandi má segja að þjónusta skerðist að nokkru leyti en þó mismikið. Fólk er hvatt til að forðast bein samskipti við aðra og nýta þess í stað síma, tölvupóst eða þjónustugátt á heimasíðu Akureyrarbæjar. Síma- og netfangalista allra starfsmanna er að finna á heimasíðunni. Opið verður í Ráðhúsinu og Glerárgötu en þjónustan skert og má vænta skjótari afgreiðslu ef notaður er sími,“ segir á vef bæjarins.

Við birtum hér að neðan tilkynninguna af vef bæjarins sem má einnig nálgast með því að smella hér.

Skólastarf

Nú miðast 2ja metra reglan, 10 manna fjöldatakmarkanir og grímuskylda við alla nema börn sem fædd eru 2015 og síðar. Starf leikskóla mun því ekki riðlast en hertari reglur munu augljóslega hafa víðtæk áhrif á starf grunnskóla. Skólastjórnendur munu endurskipuleggja skólastarfið í samræmi við lög og reglugerðir um helgina og birtar verða nánari upplýsingar um það hér á heimasíðunni síðdegis á sunnudag, auk þess sem upplýsingar verða sendar í tölvupósti til foreldra og forráðamanna.

Sundlaugar og söfn

Sundlaugar, söfn og íþróttamannvirki sem Akureyrarbær starfrækir verða lokuð frá og með miðnætti.

Félagsmiðstöðvar og félagsstarf

Punktinum verður lokað sem og Ungmennahúsinu. Starf félagssmiðstöðva og Virkisins verður rafrænt. Félagsmiðstöðvar eldri borgara verða lokaðar frá 2. nóvember í tvær vikur. Þeir sem búa í Bugðusíðu og Víðilundi 20 & 24 geta áfram pantað hádegismat og tekið hann heim.

Öldrunarheimili

Heimsóknarbann tók gildi á Öldrunarheimilum Akureyrar 30. október og gildir til 13. nóvember. Íbúar skulu halda sig innan heimila og fara ekki í heimsóknir eða ferðir út fyrir þau. Starfsfólk er áfram hvatt til að gæta ítrustu varúðar í samskiptum og umgengni við annað fólk utan vinnutíma. Dagþjálfun og tímabundin dvöl verða starfrækt áfram en með takmörkunum og auknum sóttvörnum. Sama á við um sjúkraþjálfun og hár- og fótsnyrtingu.

Breytingar á þjónustu búsetusviðs

Hjá búsetusviði, sem sinnir eldra fólki, fötluðu og veiku fólki, er búið að skilgreina ákveðna grunnþjónustu sem allt kapp verður lagt á að standa vörð um, þ.e. að fólk fái mat, nauðsynleg lyf, aðstoð við að komast á fætur, klæðast og sinna hreinlæti.

Heimaþjónusta

Nauðsynlegt er að skerða tímabundið heimaþjónustu og verður um óákveðinn tíma ekki farið inn á þau heimili sem hafa einungis fengið þrif. Önnur þjónusta mun að mestu verða óbreytt en innlit verða stytt eins og hægt er. Er þetta gert bæði til að vernda starfsfólk og skjólstæðinga, en einnig til að hægt sé að forgangsraða í þágu nauðsynlegrar þjónustu sem verður að sinna undir öllum kringumstæðum. Haft verður samband við alla þá sem ekki fá þjónustu og að auki hringt til fólks til að kanna líðan þess.

Lautin – athvarf fyrir fólk með geðraskanir

Lautin verður lokuð frá og með mánudeginum 2. nóvember. Starfsfólk Lautarinnar notar síma eða myndsíma til að vera í sambandi við þá sem þangað hefðu annars komið í Lautina.

Frístundaþjónusta fyrir fötluð börn og ungmenni í Þórunnarstræti og Sporatúni hefur verið takmörkuð. Reynt verður að skipta hópnum þannig upp að allir fái einhverja þjónustu. Haft verður samráð við foreldra varðandi skiptingu í hópa. Skammtímaþjónusta í Þórunnarstræti verður að mestu óskert.

Skerðing á annarri þjónustu búsetusviðs er óhjákvæmileg og þarf að takmarka aðgang að heimilum fatlaðs fólks og draga úr félagslegri þátttöku. Heimsóknir eru ekki leyfðar í a.m.k. tvær vikur og aðstandendur hvattir til að nota síma og myndsímtöl til að halda tengslum við sitt fólk. Þetta á einnig við um félagslega liðveisla þar sem þjónustan mun fara fram í gegn um síma.

Mælt er með því að fólk sem þarf að koma erindum sínum á framfæri eða vantar upplýsingar noti til þess síma eða tölvupóst. Nokkurt álag hefur verið á símaþjónustu þar sem margir sýna merki um kvíða og óöryggi. Flestir sýna þessu ástandi þó skilning og þiggja boð starfsfólks um að haft verði samband við þá reglulega.

Rétt er að hvetja bæjarbúa til að huga vel að ættingjum og vinum sem gætu verið í þörf fyrir aðstoð á þessum tímum. Sumir þurfa e.t.v. bílfar, aðstoð við að fara í búð eða bara spjall um daginn og veginn. Hjálpumst að og sýnum hvert öðru kærleika og hjálpsemi.

Minnt er á að sumar matvöruverslanir bjóða upp á heimsendingarþjónustu á vörum og séropnun fyrir eldra fólk og aðra viðkvæma hópa.

Við erum öll almannavarnir.

UMMÆLI

Sambíó