Áhrifamaður í þýsku íþróttalífi sest að í bænum

Áhrifamaður í þýsku íþróttalífi sest að í bænum

Í blaðagrein sem birtist í Vísi árið 1964 segir að hann hafi tekið þátt í orrustunni í Argonne-skógi í fyrri heimsstyrjöldinni og verið sæmdur Járnkrossinum. Hann er kynntur sem fyrrverandi forstjóri Salamander, frægasta skófyrirtækis Þýskalands. Í viðtali við Dag sama ár segir hann frá því þegar hann dæmdi knattspyrnuleik á Ólympíuleikunum í Amsterdam árið 1928.

Harry Rosenthal flúði Þýskaland nasismans áður en seinni heimsstyrjöldin braust út. Hann settist að á Akureyri og tók sér upp nafnið Höskuldur Markússon. Tveimur áratugum eftir að hann kom í bæinn hafði hann milligöngu um ráðningu menntaðs knattspyrnuþjálfara til að þjálfa knattspyrnumenn á Akureyri en slíkt var nýlunda á þeim tíma. Nokkrum árum síðar átti umræddur þjálfari eftir að stýra liði í þýsku Bundesligunni.

Sem ungur drengur í Þýskalandi iðkaði Höskuldur knattspyrnu. Hann hafði dálæti á íþróttum og sat í íþróttaráði Berlínar til margra ára. Eftir að knattspyrnuferlinum lauk náði hann sér í dómararéttindi. Auk þess að dæma á Ólympíuleikum, rifjar Höskuldur upp í fyrrnefndu viðtali þegar hann dæmdi úrslitaleik um þýska meistaratitilinn á þriðja áratugnum fyrir framan 86 þúsund manns.

Þegar Höskuldur kom til landsins frá Þýskalandi árið 1938 höfðu öldruð móðir hans, systir og mágur komist úr landi, til Íslands og sest að í Reykjavík. Ekki voru allir í stórfjölskyldunni eins lánsamir. Bróðir hans og fjölskylda enduðu ævina í útrýmingabúðum nasista. Höskuldur bjó hjá systur sinni og móður fyrsta árið, varð sér úti um jarðarskika og ræktaði grænmeti. Ári síðar flutti hann til Akureyrar ásamt unnustu sinni Hildegard Heller sem var þá nýkomin til landsins. Þau giftu sig og fengu íslenskan ríkisborgararétt. Hildegard tók upp nafnið Hildigerður. Fyrstu árin á Akureyri starfaði Höskuldur á saumastofu en árið 1946 réði hann sig í vinnu sem skrifstofustjóri hjá Skarphéðni Ásgrímssyni í Amaro. Þar starfaði hann til dauðadags.

Framhald.

Heimild: Grenndargralið

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó