Prenthaus

Áhugi og metnaður skilar oft bestum árangri

Reynir Gretarsson er 25 ára Akureyringur og matreiðslumaður að mennt. Reynir hefur unnið í tengslum við matreiðslu frá því hann var 16 ára en hann starfar í dag sem framleiðslustjóri hjá Omnom súkkulaði. Reynir byrjaði í eldhúsinu á Strikinu á Akureyri og hefur síðan einnig unnið í Svíþjóð og Reykjavík sem matreiðslumaður.

Vinnan við súkkulaðið mjög fjölbreytt
Reynir segir starfið hjá Omnom vera mjög fjölbreytt:
„Ég er mest í súkkulaðiverksmiðjunni þar sem verkefnin geta orðið mjög fjölbreytt, allt frá því að rista kakóbaunir, búa til súkkulaði og pakka því. Ásamt sjálfri súkkulaðigerðinni tek ég þátt í þróunarvinnu fyrir væntanlegar vörur og hjálpa til við súkkulaðiskólann og aðra viðburði sem við í Omnom bjóðum upp á,“ en Omnom býður upp á svokallaðan Súkkulaðiskóla þar sem gestum er boðið upp á klukkutíma kennslustund um súkkulaðigerð og fær að bragða á því besta frá fyrirtækinu.

Allt frá baun í bita
Hann segir gott að hafa grunn í menntun tengdri matvælum, eins og í bakstri eða matreiðslu.
„Ef búa á til gott súkkulaði er þó mikilvægast að hafa mikinn áhuga á öllu ferlinu sem það felur í sér, allt frá baun í bita. Ég hef komist að því að áhugi og metnaður skilar oft bestum árangri.“

Eins og áður segir starfaði Reynir lengi sem matreiðslumaður og hann segir súkkulaðigerð ekkert svakalega frábrugðna annarri matargerð.
„Hún bindur mann samt við það að gera vöru sem er unnin úr kakóbaunum. Það getur bæði verið krefjandi og skemmtilegt. Súkkulaði er hægt að krydda eins og allan annan mat, þó aldrei með einhverju sem inniheldur vatn, það skilur sig frá kakósmjörinu og skemmir það.“

Mikill metnaður settur í súkkulaðið
Omnom var stofnað árið 2013 og varð á skömmum tíma gífurlega vinsælt. Súkkulaðið hefur unnið til ótal verðlauna víða. Reynir telur að ástæðan fyrir vinsældunum sé að miklu leyti metnaðurinn sem þeir sem koma að súkkulaðinu hafa.

„Við viljum alltaf nota bestu hráefnin sem við komumst í og leggjum mikið upp úr því að finna þau. Auk þess gerum við mikið af tilraunum til þess að gera vöruna sem besta. Það fer ekkert í sölu fyrr en við erum fullkomlega sátt við útkomuna. Jafnframt hefur hönnunin alltaf vakið mikla athygli hjá okkur, þar standa umbúðirnar upp úr. Þar gilda sömu reglur og þegar við gerum súkkulaðið, við viljum vera fullkomlega sátt við hana.“

Skemmtilegar tilraunir með súkkulaðið
Reynir segist njóta þess að vinna hjá Omnom. „Það skemmtilegasta sem ég geri í vinnunni eru tilraunir með súkkulaði en við reynum að gera eins mikið af þeim og við getum. Það er alltaf jafn gaman þegar tilraunir heppnast og koma vel út. Við höfum það sem reglu hjá okkur að allir starfsmenn búa til sitt eigið súkkulaði, í þeim tilraunum hafa mörg skemmtileg súkkulaði orðið til, t.d. chili-súkkulaði, banana-súkkulaði og koníak-súkkulaði svo eitthvað sé nefnt. Svo er það líka félagsskapurinn í þessu öllu en hjá Omnom er frábær hópur og alltaf gaman að mæta í vinnuna.“

Greinin birtist upphaflega í Norðurlandi Vikublað.

Sambíó

UMMÆLI