Airbnb gisting- birtið leyfið

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar

Mikil umræða hefur verið um airbnb gistinu hér á landi. Margir hafa séð sér leik á borði til að ná í tekjur sem þeir borga ekki skatt af. Hinir sömu hafa heldur ekki fengið leyfi til að reka slíka gistingu. Hef skoðað nokkrar íbúðir á Akureyri fyrir vini í útlandinu. Það sem ég undrast er að þeir sem gera þetta löglega skuli ekki setja mynd af leyfi sýslumanns innan um myndirnar af gistingunni. Persónulega vil ég bara leigja löglega íbúð og það er mikil vinna að leita að íbúðum á Akureyri sem hafa leyfi. Mynd af leyfinu myndi auðvelda mörgum sem eru í mínum sporum leitina. Starfsmaður sýslumannsins á Norðurlandi eystra er með sérstakt netfang, Heimagisting@syslumenn.is, þar sem hægt er að senda fyrirspurn um löglegar íbúðir en það væri einfaldara að sjá það þegar húsnæðið er skoðað. Starfsmaður sýslumanns hvetur fólk til að fá að sjá leyfið þegar bókað er.

Nú þegar hef ég sent fyrirspurn á tvo leigusala en ekki fengið svar, þrátt fyrir loforð um svar innan klukkustundar, önnur íbúðin er i Þórunnarstrætinu (hún er ekki á skrá samkvæmt svörum sýslumanns) og hin er í Hamarsstíg.
Þegar ég skoða innri vef airbnb stendur þetta ,,Sumir gestgjafar fara fram á að gestir framvísi skilríkjum áður en gengið er frá bókun. Taktu af skarið og auðkenndu þig núna.“ Geta leigutakar ekki gert sömu kröfu varðandi löglegar íbúðir, velti því fyrir mér. Tryggingin virðist bara vera á annan veginn.

Ég skora á þá sem vita um ólöglegt húsnæði að gera viðvart, samfélagið verður af tekjum vegna ólöglegrar leiguíbúða/húsnæðis. Gestgjafi tryggir ekki eins og honum ber og leigutakar eru í ákveðinni óvissu um réttarstöðu sína ef eitthvað kemur upp á.

Nú getur hver og einn leigt út húsnæði í 90 daga án þess að skattar komi við sögu og því ættu allir að hafa þetta löglegt. Hvað fjölbýlishús varðar féll dómur ekki alls fyrir löngu og airbnb gisting er ekki leyfilega nema allir íbúar hússins gefi leyfi fyrir henni. Sé það leyfi ekki til staðar eiga íbúar hikstalaust að tilkynna það lögreglu, hér er um ólöglegt athæfi að ræða.

Helga Dögg Sverrisdóttir

Greinin er aðsend – skoðanir þurfa ekki að endurspegla skoðanir ritstjórnar Kaffisins.

UMMÆLI